05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Magnús Kristjánsson:

Jeg var á móti því, að fundi væri frestað, vegna þess, að jeg taldi málið þá útrætt og ætlaði mjer að eins að gera stutta athugasemd, en úr því að umræðunum er haldið áfram, þá vil jeg leyfa mjer að tala frekar um málið og gera nokkrar athugasemdir við ummæli, er fallið hafa í ræðum háttv. þm.

Jeg vona, að þetta mál verði aldrei verulegt kappsmál, því að jeg ætla, að hæstv. stjórn, við nánari athugun, komist að þeirri niðurstöðu, að stefna nefndarinnar sje að hlífa landssjóði við fjárframlagi í lengstu lög. Þétta hlýtur öllum að verða ljóst, er kynna sjer málið til hlítar. En hins vegar hefir nefndin reynt að búa svo um, að ef í verulegar nauðir rekur, þá sjeu engin lagafyrirmæli, er hindri rjettmæta og sjálfsagða hjálp.

Mig furðar það, að hæstv. fjármálaráðh. skuli leggja annan skilning í brtt. nefndarinnar en mjer finst ástæða til; hann heldur því fram, að með brtt. nefndarinnar sje opnuð leið til ótakmarkaðra lána. Jeg verð að telja þetta ofmælt. Sveitarfjelögin fara eigi að taka meira lán en þau þurfa, með jafnóaðgengilegum vaxtakjörum og hjer er um að ræða. Og ef sú skoðun hæstv. fjármálaráðh. er rjett, að bankarnir sjeu tregir til þess að lána sveitarfjelögum, þá sje jeg ekki annað en að það sje fylsta þörf fyrir landsstjórnina að greiða fram úr því, og jeg get ekki trúað öðru en að heimild til lána úr landssjóði sje styrkur fyrir stjórnina.

Jeg sje ekki annað en brtt. nefndarinnar lýsi ótvíræðu trausti á framkomu stjórnarinnar í lánveitingum milli þinga, og hún hefir fylgt þeirri reglu að veita ekki lánin, nema hún teldi brýna nauðsyn bera til. Jeg kann því hálfilla, að stjórnin sje að lýsa vantrausti á sjálfri sjer, og það er auðvitað bágt í efni, þegar hún treystir sjer ekki sjálf. En jeg efa ekki, að stjórnin sje jafnfær og verið hefir að annast þessar lánveitingar, og þótt það baki henni nokkra fyrirhöfn, þá er ekki unt að komast hjá því. Og allir hljóta að vona, að sem minst þurfi að verða af þessum lánveitingum og aldrei komi til þess, er hæstv. fjármálaráðh. var að tala um, að öll sveitarfjelög landsins þurfi að taka dýrtíðarlán. Það má alls ekki reikna með þeim tölum, þótt hæstv. fjármálaráðh. gerði svo.

Þrátt fyrir það þótt ýmsir örðugleikar steðji að, þá má vænta þess, að ýmsir efnamenn innan sveitarfjelaganna geti hlaupið undir bagga með þeim, svo að þau þurfi sem minst af hallærislánum sínum að taka utansveitar. Og þar sem háttv. fjármálaráðaherra lýsti yfir því, að Björn bankastjóri Kristjánsson hefði tekið það fram í háttv. Nd. í gær, að bankarnir sjeu ófúsir til þess að veita slík sveitarlán, þá legg jeg ekki mikið upp úr því, því jeg býst ekki við, að slík lán verði tekin í stórum stíl fyrir 1. júlí næstkomandi.

Jeg tók eftir því, að háttv. þm. Ísaf. (M. T.) áleit það þungan bagga fyrir sveitarfjelögin, þar sem þau þyrftu að að greiða meira en l/3 af kostnaðinum fyrir utansveitarþurfalinga. Jeg álít enga hættu stafa af þessu, því að framlögin verða aldrei stór, og þegar utansveitarþurfalingur hefir fengið 100 kr., hvar af sveitin fær endurgreiddar 33 kr. 33 aur. frá sveitarfjelagi hans, þá má vísa honum til sveitar sinnar. Jeg álít þvert á móti, að þetta fyrirkomulag sje öllu hagkvæmara fyrir þau sveitarfjelög, þar sem margir utansveitarmenn leita sjer atvinnu um lengri eða skemri tíma, því að eftir brtt. er ekki hægt að líta öðruvísi á en að dvalarsveitin eigi heimtingu á endurgreiðslu á öllu framlagi sínu, í stað 2/3, eins og nú er.

Það er ekki ástæða fyrir mig að fara lengra út í málið, enda hafa háttv. framsm. (S. F.), háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) og háttv. 2. þm. G. K. (K. D.) fært góð og gild rök fyrir brtt. og áliti nefndarinnar. Og þótt einhver kynni að reyna að andmæla því, sem jeg hefi nú sagt, þá tek jeg því með jafnaðargeði, því að jeg veit, að það er erfitt að gera það með góðum og gildum rökum.