11.06.1918
Efri deild: 41. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Frsm. (Guðmundur Ólafson):

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um frv. þetta. Bjargráðanefndin hefir fallist á það í öllum aðalatriðunum; að eins hefir hún lagt það til, að frvgr. yrði orðuð á annan hátt, þannig, að það yrði lagt á vald landsstjórnarinnar, á hvaða vörutegundum megi banna innflutning.

Þá þótti nefndinni fara betur á því, að frvgr., sem er viðauki við lög nr. 5, 1. febr. 1917, yrði sett annarsstaðar inn í lögin en gert er ráð fyrir í frv.

Nefndin vill skeyta frvgr. aftan við 3. tölulið 2. gr. laganna, því að í þeirri grein eru taldar upp vörur, sem flytja megi inn, en í 3. gr. laganna er talað um, hvaða vörur megi banna að tilbúnar sjeu í landinu.

Nú á fundinum hefir verið útbýtt brtt. frá háttv. flm. (M. T.), og fer hún í svipaða átt og brtt. bjargráðanefndar; að eins er því við bætt, að landsstjórnin skuli hafa heimild til þess að ákveða, hve mikið megi leggja á vörurnar.

Jeg get ekki sagt um það með vissu, hvernig nefndin öll lítur á þessa brtt., en fyrir mitt leyti mun jeg fallast á hana, og mjer þykir líklegt, að bæði aðrir hv. meðnefndarmenn mínir og aðrir hv. þgdm. líti svo á, að brtt. þessi sje alt eins heppileg og brtt. nefndarinnar.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um málið.