05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S.E):

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) spurði að því, hvernig skilja bæri 6. gr. í frv., þar sem segir:

„Enn fremur er landsstjórninni heimilt, frá þeim tíma, er lög þessi koma í gildi, og til 1. september 1919, að verja fje úr landssjóði til atvinnubóta í beinar þarfir framleiðslunnar og til kaupa á afurðum af dýrtíðarvinnu bæjar- eða sveitarfjelaga, svo sem efni til undirbúnings stórhýsa, er sýnilega þarf að reisa innan skamms, vega, brúa og hafnargerða“.

Í tilefni af því skal jeg taka það fram, að greinin, svona orðuð, var sett inn í frv. í háttv. Nd.; aftur var þesei grein öðruvísi orðuð í frv. stjórnarinnar; þar var hún orðuð eins og í núgildandi dýrtíðarlögum. Jeg get því ekki gefið aðra skýringu á greininni en þá, er liggur í henni sjálfri.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir svarað ummælum háttv. þm. Ísaf. (M. T.) um fóðurbætinn, svo að óþarft er að endurtaka það, en í sambandi við það skal jeg geta þess, að Ísafjarðarkaupstaður fekk í vetur 100 þús. kr. dýrtíðarlán úr landssjóði. Var það rjertmæt lánveiting, og brýn og mikil þörf fyrir lánið. Um það er jeg sannfærður. Hún hefir óvíða eða hvergi verið meiri.

Um skattalögin, er háttv. þm. Ísaf. (M. T.) vjek að, skal jeg og taka það fram, að þeirra er full þörf, til þess að landsbúið geti borið sig án þess að lifa á eintómum lánum. En þrátt fyrir það, þótt þau nái fram að ganga, mun þurfa að grípa til lána.

Þá vil jeg víkja mjer að ræðu háttv. 4. landsk. þm. (G. G.). Hann var að tala um það, að takmarkanir fyrir styrknum væru fastari í brtt. nefndarinnar en í frv. Jeg verð að játa það, að jeg sje ekki muninn.

Háttv. þm. (G. G.) nefndi dæmi, sem áður hefir verið tilfært í háttv. Nd., af hreppsfjelagi með 300 íbúum, og hann vildi sýna fram á það, hvernig frv. og hvernig brtt. nefndarinnar verkuðu á hreppinn. Eftir frv. stjórnarinnar á hreppurinn að fá 1.500 kr. óafturkræfan styrk úr landssjóði, þegar hann hefir tekið 3.000 kr. lán til dýrtíðarhjálpar. Eftir till. nefndarinnar þarf hreppurinn fyrst að taka 3.000 kr. lán úr landssjóði; síðan verður hann að taka 750 kr. lán úr landssjóði og fær þá 750 kr. gefins. Eftir till. skuldar því hreppurinn þá 3.750 kr. og hefir fengið 750 kr. óafturkræfan styrk. Hreppurinn skuldar því 750 kr. meira eftir brtt. nefndarinnar en frv., og jeg fæ því ekki sjeð, hvernig háttv. 4, landsk. þm. (G. G.) vildi láta svo líta út, sem hreppurinn væri betur fær að hjálpa eftir till. nefndarinnar en frv. Jeg sje ekki annað en að það sje alveg mótsett, og sveitarfjelagið verði færara til hjálpar eftir frv. stjórnarinnar. Þetta virðist og liggja í augum uppi, þar sem landssjóður veitir eftir frv. 750 kr. meiri styrk sem óafturkræfan, en hreppurinn skuldar 750 kr. meira eftir till. nefndarinnar.

Að kalla þennan óafturkræfa styrk betlistyrk nær engri átt, enda haga allar þjóðir hjálp sinni á sama grundvelli og stjórnarfrv. er bygt. Danir t. d., eins og jeg tók áður fram, selja smjör o. fl. nauðsynjar undir verði, greiða atvinnulausum mönnum kaup úr ríkissjóði, og þetta telja allir sjálfsagt og rjett. Hjer er sama „princip“ og í frv.

En það er annað, er jeg vil enn þá taka fram og legg áherslu á, og það er, að sveitarfjelögunum er veittur miklu greiðari aðgangur að landssjóði eftir brtt. nefndarinnar en frv. En þar sem háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) hugði, að stjórnin vildi losna við þetta vegna annríkis, er því fylgdi, þá er það misskilningur. Stjórnin vill ekki hliðra sjer hjá neinni vinnu, allra síst þeirri, er hún hyggur að alþjóð megi gagn að verða.

Um það get jeg fullvissað háttv. þm. (G. G.), en það er mjög erfitt, er fje er af skornum skamti, að úrskurða, hverjir hafi lánaþörf og hverjir ekki, og svo enn fremur, hve miklu eigi að verja í þessu skyni, bæði í heild sinni og á hverjum einstökum stað. Ef það er ætlun háttv. nefndar að veita sveitarfjelögunum ríflegri styrk en frv. gerir ráð fyrir, þá eru ýmsar aðrar leiðir en þær, er brtt. fer, og þær betri, t. d. að veita meira fje fyrir íbúa hvern, selja smjör undir verði eða fleiri nauðsynjar. Það er víst, að bæirnir, t. d. Reykjavík, stynja undir oki dýrtíðarinnar, og það er ekki nema eðlilegt, þegar 1 kíló af smjöri kostar 6 kr. eða þar yfir, 1 lítri af mjólk 52 aura og kolatonn yfir 300 kr. Það sjá allir, að þetta er ofverð fyrir fátæka fjölskyldumenn.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) nefndi dæmi þess, að lán kæmu að góðu haldi. Því dettur mjer ekki í hug að mótmæla; jeg efa ekki, að hygnir menn hafi oft og einatt grætt á lántökum sínum, en það er alt annað mál en það, sem hjer liggur fyrir, því að bjer er um fleiri leiðir að ræða. Fyrir landssjóðinn er miklu betra að láta einhverja vissa upphæð heldur en að vera bundinn þeim bagga, að veita öllum sveitar- og bæjarfjelögum þau lán, er þau kunna að þarfnast. Það veit enginn, hversu sá baggi verður stór, eða hvort landssjóður má undir honum rísa.

Jeg verð að líta svo á, að það sje hyggilegra að reyna að auka sparnað hjá sveitarfjelögunum heldur en að örfa þau til lántöku. Það er hollast, að hver spili sem meet á eigin spýtur.

En setjum svo, sem jeg vona að hvergi verði, að eitthvert hjerað sje svo illa statt, að algerð neyð ríki þar, þá hlýtur og á landsstjórnin að hjálpa, hvort svo sem nokkur lög eru um það eða ekki. En frv. er ekki miðað við hungursneyð. Það stendur ofar. Því er ætlað að veita hjálpina svo snemma, að veruleg neyð sverfi ekki að.

Og ástæðan til þess, að stjórnin bar fram þetta frv., var sú, að stjórnin leit svo á, að eigi væri hægt að binda landssjóði svo þungan bagga, að hann yrði skilyrðislaust að veita öll þau lán, er sveitarfjelögin kynnu að þurfa.