01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Forsætisráðherra (J. M.):

Það skiftir ekki miklu, hvort brtt. bjargráðanefndar verður samþykt eða ekki. Hún getur haft talsvert til síns máls. Ef verðlagsnefndir verða settar, verður að játa, að eðlilegast er, að þær hafi heimild til þess að ákveða verðlag kaupmanna á þessum vörum sem öðrum. Það, sem vakti fyrir þeim, er samdi frv, var, að ef til vill mætti fela innflutningsnefnd að ákveða verðlag í heildsölu og setja tryggingu fyrir því, að aðrir milliliðir legðu ekki of mikið á vöruna. Hugmyndin var að framkvæma þetta eftir föstum reglum. Það, sem milliliðir, er keyptu af heildsölum, mættu leggja á vöruna, færi ekki fram úr ákveðinni hundraðstölu.

Eftir verðlagsnefndarlögunum, sem nú gilda, getur verðlagsnefnd ákveðið þetta, en eðlilegast væri, að innflutningsnefnd ákvæði verðið hjá heildsölum. Að frekari lagaákvæði þurfi hygg jeg ekki, en athuga mætti það nánar. Ef verðlagsnefndarlögin haldast óbreytt, sje jeg ekki ástæðu til þess, að heimildin nái lengra en til heildsalanna. Brtt. fellur því og stendur með því, hvernig fer um verðlagsnefndina.