04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Eggert Pálsson:

Jeg hefi ekki ástæðu til að vera langorður nú, því að jeg tel víst, að mál þetta eigi lengra líf fyrir höndum en í dag, og hefi jeg ekkert á móti því.

En það var háttv. þm. Ak. (M. K.), sem vjek orðum að mjer, og vildi jeg leyfa mjer að gera nokkrar athugasemdir út af því.

Jeg mintist á, að svipuð væri afstaðan, samkvæmt bresku samningunum, um útflutning hrossa og útflutning síldar. Og jeg held fast við þá skoðun mína. Það er afmarkað, að eins lítið eitt, sem út má flytja af báðum tegundum.

Sami háttv. þm. (M. K.) benti á, að undirbúningur væri ólíkt betri í máli þessu heldur en því, er snertir útflutning hrossa. Það er rjett mælt og mjög eðlilegt.

Hjer er um menn að ræða, sem búa í þorpum og kaupstöðum og eiga því hægt með að ná saman, hafa símasambönd, og yfir höfuð greiðar samgöngur.

Þeir geta því verið fljótir til að gera samtök sín á milli, til þess að gæta hagsmuna sinna og semja frv. fyrir bjargráðanefndina, sjer sjálfum til bjargar.

En afstaðan er alt önnur hjá landbúnaðarmönnum. Þeir geta ekki rokið saman á svipstundu til að semja frv. í líkingu við þetta.

Annars mun það nú tæplega vera hlutverk háttv. bjargráðanefndar að láta aðra búa til frv. í hendur sjer; hitt mun liggja nær verksviði hennar, að athuga sjálf, hvar hlaupa þurfi helst undir bagga.

Sami háttv. þm. (M. K.) benti líka á það, hve mikið fje lægi í síldaratvinnunni. Taldist honum svo til, að fyrir lægju 6.000.000 kr. í tunnum, 3.000.000 í salti og ef til vill annað eins í áhöldum og skipum.

En jeg lít svo á, að draga megi tvo síðari liðina frá. Nóg mundi að gera við saltið, þótt það yrði ekki notað í síldina, og ekki þurfa skipin að verða ónýt eða ónotuð, þótt þau sjeu ekki höfð til síldveiða. Þau mætti nota til fiskveiða, og það því fremur, sem fiskur veður uppi og engin höft eru á útflutningi hans. Þess er líka að gæta, að verðlag á honum mundi stíga, ef framleiðslan ykist, þar sem verðið er 170 kr. á 12.000 fyrstu tonnunum, en 250 kr. á því, sem fram yfir er. Meðalverðið mundi því stíga jöfnum höndum við það, sem framleiðslan ykist fram yfir 12.000 tonn.

Það er því ekki hægt að reikna annað en tunnuverðið, 6.000.000 kr., sem óarðberandi fje. En af því fje er mikið í höndum þeirra manna, sem vel mundu þola að liggja með tunnur sínar um ársbil eða svo.

Þá er það alls ekki rjett, að bændur liggi ekki með ónotað fje líka.

Það hefir ekki verið reiknað, hve margar miljónir liggja fyrir í hrossum úti um land alt. En það er meira en fjeð, sem þar liggur ónotað. Í því liggur einnig bein hætta. Hrossin geta sett alt í voða.

Það er ekki eingöngu, að þau geti sjálf fallið úr hor, heldur einnig annar fjenaður vegna þeirra. En tunnur geta aldrei fallið úr hor.

Þá hefir því verið haldið fram, að þetta væri gróðavegur fyrir landssjóð en ekki veit jeg, hvers vegna framleiðendurnir eru þá að leita á náðir hans, ef gróðinn er handviss.

Það getur nú vel verið, að gróði verði á sölunni, en hann er því að eins nokkur fyrir landssjóð, að hann fái að halda honum. En svo er ekki um hnútana búið. Það er að eins tapið, ef nokkurt verður, sem í landssjóðs hlut kemur.

Þá sagði háttv. þm. Ak. (M. K.) enn fremur, að selja mætti til Ameríku síldina. En nú er það alls ekki víst, að það verði sú síld, sem landssjóður kaupir, sem nyti góðs af þeim markaði, þótt einhver yrði, því að ef frv. verður samþ., þá mun það verða til þess, að lagt verði óhikað í síldarútveginn, og þá gæti af því leitt, að meira veiddist en þessar 100.000 tunnur, og mundu þá eigendur afgangsins reyna að ná samningum við Ameríku og ef til vill selja við lægra verði en landssjóður gæti gert. Slík samkepni er ekki með einum staf bönnuð í frv.

Jeg veit, að mjer verður svarað því, að til þessa þurfi útflutningsleyfi. En ef sótt væri um það og því neitað, þá veit jeg ekki, hversu þakklátir þeir yrðu fyrir frv., sem mest og best eiga að njóta þess.

Þá var það eitt, sem jeg átti bágt með að skilja hjá sama háttv. þm. (M. K.), að sala á 50.000 tunnum væri einkis virði, en sala á 100.000 tunnum væri nægilegt til þess að bjarga landinu.

Mjer þykir það undarlegt, að allir hafa forðast að minnast á þá till., að landsstjórnin taki alla síldina í sínar hendur og sjái um jöfnuð á verðinu. Sú leið hefir þó verið farin áður með kjötið og gefist vel. Jeg álít hana líka miklu farsælli og áhættuminni fyrir landssjóð heldur en leið þá, sem frv. vill fara láta.

En það vil jeg að síðustu taka enn fram, að jeg álít ekki viðlit að samþ. frv. þetta til fulls áður en fengin er vissa um þær 50.000 tunnur, sem fara eiga til Svíþjóðar, og í öðru lagi verður að búa svo um hnútana, að ef landssjóður á að hafa áhættuna, þá hafi hann gróðann líka.