11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Þegar frv. var til umræðu í háttv. Ed., hygg jeg, að áhersla hafi verið lögð á það, að nauðsynlegt væri að endanlegir samningar við Svía væru fyllilega kunnir og bindandi fyrir þá, áður en málið yrði til fulls afgreitt frá þinginu. Því vil jeg benda á, að heppilegt muni að hraða málinu ekki meir en svo, að það verði afgreitt áður en þingi er slitið, ef við kynnum að fá frekari vissu um samningana þangað til. Málið ætti ekki að taka til 3. umr. fyr en svo, að tími sje einungis til þess, að það geti gengið til háttv. Ed., sem gæti afgreitt það með afbrigðum frá þingsköpunum, eins og líklega verða forlög fleiri mála.

Jeg verð að leggja áherslu á það með hæstv. fjármálaráðherra, að greiðslufresturinn verði sem haganlegastur fyrir landssjóð. í þá átt stefnir og brtt. háttv. bjargráðanefndar, en jeg taldi æskilegt, að fá greiðslufrestinn enn hagkvæmari, og vona, að brtt. verði borin fram í þá átt við 3. umr.

Um afstöðu mína til málsins læt jeg mjer nægja, að vísa til atkv. míns við 3. umr. í háttv. Ed., þar sem jeg greiddi frv. atkv., og sýndi með því, að jeg vil stuðla að því, að það nái að ganga fram.

Eftir þekkingu minni á landbúnaði og eftir því, sem horfur eru á um fóðurbirgðir, hygg jeg að heppilegt sje að eiga einhvern forða af fóðursíld í bakhendinni.

Síðastliðinn vetur rjeðist landsstjórnin í að kaupa mjög mikið af síldarmjöli og hefir verið skýrt frá því í þessari hv. deild, að hve miklu gagni það kom. Finst mjer álitlegra að tryggja sjer einnig nú einhvern forða fyrir næsta vetur. Auðvitað yrði samkepni milli þessarar síldar og þess, sem kynni að veiðast umfram það, sem leyft er að flytja út, en sú samkepni ætti síst að vera landbúnaðinum í óhag. Miklu fremur ætti áhætta landssjóðs að vaxa við það. Frá sjónarmiði landbúnaðarins ætti það að vera heppilegt, að sem mest veiddist umfram það, sem nú er leyft að flytja út, því að verið getur að eitthvað rætist úr og auðið verði að flytja enn meiri síld til útlanda en nú eru horfur á.