12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Pjetur Jónsson:

Bjargráðanefndin hefir nú athugað mál þetta af nýju. Hefir hún og athugað skeyti þau, er landsstjórnin hefir sent viðvíkjandi þessari síldarsölu. Er þar skamt frá að segja, að skilyrðin, sem stjórnin hefir sett, er samþykt verðtilboð frá sendimanni stjórnarinnar í Danmörku. Þegar hún sendi svörin, hefir hún jafnframt sett skilyrði fyrir sölunni, og það er það, að síldin skuli afhent kaupanda tilgreindan dag, 14. nóv. Þetta er svo skýrt, að svo verður að líta á, að þeir, sem með söluna fara, hafi ekki leyfi til að selja síldina á annan hátt. En svarið, sem kemur aftur um síldarkaupin, er stutt, að eins, að „síldin sje seld upp á væntanlegt samþykki stjórnarvaldanna sænsku, er komi fyrir 12. júlí (í dag), og verðið sje það og það „fob“ Ísland“, ekki öðru vísi. En um „fob“-sölu er það ætíð sett sem skilyrði, hve nær seljandi afhendi vöruna, og oftast líka, hve nær móttakanda sje skylt að taka á móti henni. Þess vegna er þetta „fob“-sala alveg eins fyrir því, þótt síldin verði að liggja hjer eitthvað. Það er þá fyrir reikning kaupanda, af því að hann getur ekki sótt hana. Þannig er t. d. um alla sölu til Breta, að hún er „fob“-sala hjer, þótt varan sje ekki tekin á þeim tíma, er hún kom til greiðslu, nema að sumu leyti.

Jeg held því, að hv. deild geti verið áhyggjulaus um það, að sú skuldbinding hvíli á kaupanda, að greiða fyrir síldina fyrir 15. nóv. Að taka slíkt í ábyrgð, hefir ekki þýðingu, en á því er bygt, að þeir, sem með söluna fóru, hafi ekki gert annað en þeim var veitt heimild til.

Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða. Hæstv. fjármálaráðherra hefir borið fram till. um að lengja frestinn, sem landssjóði er gefinn til að greiða síðari helming verðsins. Jeg vona, að hann haldi henni ekki til streitu, en taki hana helst aftur, því að annars fer jeg að líta svo á, sem þessi hjálp, sem veita átti útvegsmönnunum, fari að verða lítils virði.