12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Stefán Stefánsson:

Eins og þetta mál var fyrst borið fram hjer í þinginu af flutningsmönnum þess fyrir hönd sjávarútvegsmanna, þá leist mjer svo á, sem það væri með öllu óaðgengilegt. Fyrst og fremst af því, að sú síld, sem þá var ætlast til að landssjóður keypti, 150 þús. tunnur fyrir rúmar 8 milj. kr., var langt fram yfir það, sem nokkur von var til að geta selt, og auk þess var þá engin vissa fyrir, hve mikið fengist fyrir síld þá, er seld yrði til Svíþjóðar, sem eigi var heldur að búast við — og er ekki enn — að búast við að verði nema 50 þús. tunnur, eða þriðjungur þeirrar upphaflegu tunnutölu. Þetta virtist því afar varhugavert mál, og jafnvel allsendis óaðgengilegt fyrir landssjóð.

En nú horfir þetta alt öðruvísi við. Nú er búið að færa síldarmagnið niður um 1/3, eða niður í 100 þús. tunnur, og þegar fengin nokkurn veginn vissa fyrir sölu á helmingnum, eða 50.000 tunnum, og söluverðið svo hátt, að ekki vanta nema um 500.000 kr. af verði allrar síldarinnar, þegar eftir er helmingurinn, eða 50 þús. tunnur. Þegar svo er komið, og jafnframt er útlit fyrir, að í það minsta 20—30 þús. tunnur muni verða hægt að selja til Ameríku og það fyrir allgott verð, þá virðist þetta ekki lengur áhætta fyrir landssjóðinn, heldur miklu fremur aðgengilegt.

Líka verður að athuga það, að þar sem hjer er tilgangurinn að styðja annan aðalatvinnuveg landsbúa, atvinnuveg, sem landssjóður hefir mestar sínar tekjur frá, þá er það bein skylda þingsins, að líta á hag hans og tryggja þannig fjölda fólks lífvænlega atvinnu. Því var hreyft hjer í deildinni í gær, að þetta væri bjargráðamál. Auðvitað er það bjargráðamál á ýmsa lund. En þó að það sje skoðað sem beint bjargráðamál, að landssjóður kaupi þessar 100 þús. tunnur, þá megum vjer ekki hugsa oss, að þær skuli seldar innanlands langt fyrir neðan eðlilegt gangverð. Með því væri verið að ganga á hluta þeirra, er hafa leitað ásjár þingsins. Vjer verðum þá að sætta oss við, að hún sje seld við því verði, sem kann að bjóðast, en alls ekki selja hana með örlitlu verði, síldarútvegsmönnum í stórskaða hvað sem sæmilegum boðum líður. Að landsstjórninni sje uppálagt að versla þannig með afurðir landsmanna, að skaða annan aðalatvinnuveg landsmanna, til þess að styrkja hinn, tel jeg mjög vanhugsað. Þess vegna finst mjer till. sú, sem hjer er fram komin frá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sjerlega óaðgengileg. Með henni er ætlast til, að allur sá ágóði, sem útlit er fyrir að hafist af sölunni, falli óskiftur til landssjóðs, en að engum hluta til þeirra manna, er hafa alla áhættuna af útveginum. (E. J.: Áhætta og gróði standast á). Þetta er hrein fjarstæða, því að það er sjáanlegt, að áhættan er ekki samanberandi fyrir landssjóð við þann hagnað, sem útlit er fyrir af sölunni, og þá stenst gróði og áhætta alls ekki á. Við landbændur viljum ekki láta ganga á hluta okkar, eða þola nokkur þvingunarákvæði gagnvart okkar framleiðslu, og þá megum við heldur ekki láta það ásannast, að við svifumst ekki að gera öðrum atvinnuvegi stórskaða. Mun jeg því greiða atkv. móti þessari till.

Það væri þá miklu nær, að hallast að því, sem sendinefndarmenn sjálfir hafa lagt til, að 1/4 gróðans renni í landssjóð. En þar sem nú útlit er fyrir, að á þessu verði talsvert mikill hagur, þá finst mjer, að vjer ættum að geta sætt okkur við, að landssjóður sleppi skaðlaus, og tæki að auki 1/4 gróðans svo að segja á þurru landi. Finst mjer, að við landbúnaðarmenn ættum mjög vel að geta sætt okkur við það.

Annað hefi jeg ekki sjerstaklega að athuga. En viðvíkjandi brtt. á þgskj. 487 virtist mjer háttvirtur þm. S.-Þ. (P. J.) hafa talsvert að athuga. Það kann að vera, að útgerðarmönnum sje það bagalegt, að fá andvirði síldarinnar ekki fyr en hjer er tekið til. En fari nú svo, að landssjóði verði gert að skyldu, að borga fyr en andvirði síldarinnar er fengið, þá getur landssjóði orðið fullerfitt að borga út miljónirnar. En það skal jeg játa, að líkur eru allar til þess, að síldin verði borguð svo snemma, í það minsta það, sem til Svíþjóðar fer, að útvegsmenn gætu fengið verð hennar að miklu leyti um áramót, og gætu þá borgað bönkunum skuldir þær, er leiða af ársútgerðinni, enda eðlilegt, að þeir verði ekki neyddir til að svara um óþarflega langan tíma vöxtum af þeim skuldum sínum. Held jeg því, að allur sje varinn góður, og mun greiða atkv. með þessari till.