09.09.1918
Neðri deild: 7. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (155)

4. mál, greiðsla af kostnaði af flutningi innlendrar vöru

Pjetur Þórðarson:

Jeg neita því ekki, að mikil sanngirni sje í því, að taka till. þessa til greina. En jeg er hræddur um, að þegar farið er að athuga hana vandlega og kryfja til mergjar, þá muni það koma í ljós, að örðugt verði svo um hnútana að búa, að ekki komi fram ósanngirni gagnvart sumum, þegar til framkvæmda kemur. Það er mjög hætt við því, að sumir verði út undan, sem ættu litlu minni kröfu á að fá ljett undir með flutningskostnað en þeir, sem fyrir happinu yrðu. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg vilji ekki að bætt sje úr skák fyrir þeim, sem örðugt eiga með flutninga, heldur til að vekja athygli á því, að þörf er á að rannsaka málið ítarlega áður en fullnaðarákvörðun er tekin um það. En eins og hv. flm. (B. Sv.) tók fram, er sjálfsagt að haga því svo síðar, að aukakostnaðinum sje jafnað niður á alla vöruna.

Á einu vil jeg vekja athygli. Það eru til allmiklar útflutningshafnir, sem strandferðaskip koma ekki á, svo sem Borgarnes. Að vísu má segja, að ekki sje jafnörðugt að koma vörum þaðan á næstu útflutningshöfn, Reykjavík, eins og á sjer stað sumstaðar annarsstaðar; þó legst allmikill aukakostnaður á vöruflutning þaðan, og væri sanngjarnt, að eitthvert tillit yrði tekið til þessa; annars gæti farið svo, að hjálpin yrði tekin frá þeim, sem litlu betur standa að vígi en hinir, sem hjálpina fá; og enn meir gætir þessa eftir brtt. á þgskj. 10.

Mjer virtust margir hv. þm. greiða atkv. með hálfgerðri óánægju með því, að till. væri vísað til síðari umr. Þeim hefir líklega verið líkt farið sem mjer, að þeir hafi fundið, að mjög mikil vandkvæði eru á máli þessu. Það kann að vera, að ástæða sje til að hlaupa undir bagga með mönnum á einstöku stöðum, en jeg sje ekki, að unt sje að gera það alment, og eigi get jeg greitt atkv. með málinu eins og það liggur fyrir í till., en verið getur, að hættulítið sje að sleppa því til stjórnarinnar; en vildi þó ekki láta það fara svo frá deildinni, að jeg tæki ekki þetta fram.