09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (162)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Aðalskilyrðið fyrir því, að löggjöf og stjórn í þingfrjálsu landi geti farið vel úr hendi og orðið þjóðinni notadrjúg í öllum greinum, eru þau tvö, að stjórnin sje sterk og að stjórnin sje starfhæf.

Því meir sem brestur á þessa aðalkosti stjórnarinnar, því meiri hætta er á því, að löggjöf og stjórn landsins fari í ólestri og ólagi.

Og því meira sem það ólag er, því skaðvænlegri afleiðingar hefir það fyrir allan þjóðarhaginn og því ótryggara verður stjórnarfarið í landinu.

En þegar talað er um styrkleika þingbundinnar stjórnar, er það fyrst meint, að stjórnin hafi traust fylgi meiri hluta þingsins, og milli hennar og þess meiri hluta sje góð og framkvæmdarsöm samvinna í öllum þeim málum, er miklu skifta fyrir hag þjóðarinnar, og í öðru lagi, að stjórnin, sje hún skipuð fleiri en einum manni, sje innbyrðis samhent og samvinnufús.

Með starfhæfi stjórnarinnar er það meint, að þeir menn, sem hana skipa, sjeu hver um sig og allir í einu vaxnir þeim störfum, sem þeir eiga með að fara í þarfir þjóðfjelagsins.

Þetta er nú svo viðurkendur sannleikur í öllum þingfrjálsum löndum, að jeg býst ekki við, að nokkur sá maður, sem hjer er inni, hvort sem hann situr á þingbekkjunum eða utan þeirra, dirfist að vefengja hann.

Og þegar litið er til þess vandræðaástands, sem nú er í heiminum, hefir það aldrei verið meiri lífsnauðsyn fyrir hverja þjóð, og þá ekki síst fyrir oss, eina fátækustu og fámennustu þjóð heimsins, að eiga þá stjórn, sem er sterk og starfhæf og því líkleg til þess að geta stýrt þjóðarskútunni sem slysaminst gegnum brim og boða þeirrar öldu, sem nú gengur yfir allan heiminn.

Jeg ætla nú ekki að fara út í það, að þessu sinni, með hverjum atburðum það varð, á þinginu 1916, að stjórninni úr einmennisstjórn var breytt í þessa þrímennings-, eða þríhöfðuðu stjórn, eins og sumir segja, sem nú er.

Jeg var ekki á því þingi, og mjer dettur ekki í hug að væna þá menn, sem þar áttu hlut að máli, neinna ósæmilegra hvata, er ráðið hafi þessari ráðbreytni þingsins, að fjölga mönnum í stjórninni. Fyrir því gátu verið og voru sjálfsagt töluverðar ástæður, og þá aðallega sú, að þessi þrímenningsstjórn yrði betur vaxin störfum sínum en stjórn í höndum eins manns og það á þessum vandræðistímum, sem þá voru þegar gengnir í garð á landi voru.

En það þori jeg að fullyrða frammi fyrir öllum þingheimi og frammi fyrir allri þjóðinni, að þinginu 1916-17 hefir alveg mistekist að setja á laggirnar sterka og starfhæfa stjórn, í heild sinni, og að sá ágalli þrímenningsstjórnarinnar hefir miklu fremur farið vaxandi en minkað við þær breytingar, sem síðan hafa orðið á stjórninni.

Og þessa fullyrðingu mína ætla jeg nú að reyna að rökstyðja með nokkrum orðum.

En jeg vil þegar í byrjun taka það skýrt fram, að þegar jeg deili á núverandi stjórn, sem veika, lítilsiglda og óstarfhæfa stjórn, sem jeg get ekki borið traust til, þá snertir það ekki á nokkurn hátt þá menn, er hana skipa, sem „privat“-menn; sem slíkir eru þeir undantekningarlaust í mínum augum góðir drengir og heiðursmenn.

Sú viðurkenning er að vísu, hvorki af mjer nje öðrum, neinnar þakkar verð, en rjett þykir mjer þó að drepa á þetta.

Veikleiki þessarar stjórnar er fólginn í því, að hún hefir frá upphafi ekki haft neinn ákveðinn þing-meiri-hluta eða flokk að baki sjer.

Hún er getin og fædd af jafnmörgum flokkum í þinginu og mennirnir eru margir í henni, og það er svo langt frá því, að nokkur þeirra flokka, er stóðu að myndun hennar, hefði afl atkvæða í þinginu eða væri meiri hluta þingflokkur, að sá fjölmennasti þeirra taldi 15 manns, annar röskan ¼ og hinn þriðji að eins ¼ hluta þingsins.

Um nokkra samvinnu milli þessara flokka eða flokksbrota um myndun stjórnarinnar var ekki að ræða. Hver vildi þar sínum tota fram ota, og það brot á allsherjarreglu í skipun hverrar þingbundinnar stjórnar var þegar í byrjun framið, að sá maður, sem tók að sjer formensku stjórnarinnar, fjekk engu um það ráðið, hverjir urðu samverkamenn hans í stjórninni.

Þeir voru settir upp á hann nauðugan viljugan.

En með þessu var numið burt af þingsins hálfu öll trygging fyrir góðri og heillaríkri samvinnu fyrir landið.

Reynslan hefir líka sýnt það á þessum stutta tíma, að stjórnin er sjálfri sjer sundurþykk í afskiftum sínum af sumum og það ekki lítilvægustu málunum, sem síðan hafa komið á dagskrá þingsins.

Skal því til sönnunar nefnt fossamálið og skólamálið á þinginu 1917.

Í báðum þessum málum var hver höndin upp á móti annari í stjórninni, og getur maður sannfærst um það af þingtíðindunum 1917.

Um skólafrestunarmálið er það kunnugt, að einn ráðherranna var með frestun, annar eindregið móti, og sá þriðji hallaðist til beggja hliða.

Þá eru tvö stórmál, sem af milliþinganefnd hafa verið búin í hendur stjórnarinnar. Annað er Flóaáveitumálið, eitt stærsta landbúnaðarmálið, sem lagt hefir verið fyrir þingið, og hefði því mátt við því búast, þegar landbúnaðarráðherra var skipaður, að hann hefði veitt því máli nokkra athygli. En hvað gerir sá góði maður? Hann stingur því algerlega undir stól. Hvort hann hefir gert það með ráði samverkamanna sinna, skal jeg ekkert um segja, en það eitt er víst, að málið hefir sofið síðan.

Í öðru lagi er launamálið, sem líka var rækilega undirbúið af milliþinganefnd. En í því hefir stjórnin ekkert gert, nema slíta út úr einstök atriði, sem orðið hafa orsök til hins óskaplega slundroða og óreiðu, sem á þinginu í sumar stappaði stjórnarskrárbroti næst.

Heyrði jeg það, mjer til gleði, í fyrradag, að hæstv. forsætisráðherra var farinn að fá eftirþanka af þeirri óreiðu, er stafaði af fjárbrutlinu á síðasta þingi, sem alt var veitt með þingsályktunum, og varaði hann við slíkum fjárreiðum.

En þetta er fátt eitt af mörgu um samvinnu, eða öllu heldur samvinnuleysi stjórnarinnar innbyrðis — hjer er enn meira blóð í kúnni.

Sundrungin í stjórninni hefir jafnvel gengið út yfir takmörk alls stjórnarlegs velsæmis.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir látið það blað, sem talið er málgagn hans, ráðast á embættisbróður hans, forsætisráðherrann, fyrir veiting á lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, sem frá almennu sjónarmiði var alveg óaðfinnanleg og eftir atvikum alveg rjett.

Er sú árás talið bygð á því, að hæstv. fjármálaráðherranum tókst ekki að koma í þá stöðu einum af þáverandi tryggu fylgifiskum sínum.

En þetta er eitt hið óskaplegasta fyrirbrigði í einni landsstjórn og hlýtur skemmilega að skerða virðingu og traust þess ráðherra, sem í hlut á, og auk þess allrar stjórnarinnar, í augum heilskygnra og óhlutdrægra manna.

Hjer er ekki um stjórnarfarslegan veikleika að ræða, heldur sjúkdóm á stjórninni, sem hlýtur að hafa sýkjandi áhrif á alt stjórnarfarið í landinu.

Hinn stjórnarfarslegi veikleiki stjórnarinnar gagnvart þinginu, samfara samvinnuleysi hennar, veldur því, að hún hefir hvorki þann hug nje dug, sem hver sæmileg stjórn, skipuð eftir þingræðisreglum, verður að hafa, eigi hún að standa sæmilega í stöðu sinni.

Svona stjórn getur ekki lagt eitt einasta mál fyrir þingið, sem nokkru skiftir, nema með ótta fyrir því, að það verði drepið í höndunum á henni.

Hún hefir líka kvartað undan slíku, þótt það hafi ekki getað leitt til þess, að hún segði af sjer; til þess hefir hana brostið siðferðilegan og pólitískan þroska.

En með þessu móti hefir hún engan tryggan meiri hluta í þinginu, til samvinnu við sig í velferðarmálum þjóðarinnar.

Þegar hún vill fara í norður, fer einn þingflokkurinn í suður, annar í austur og flokksleysingjarnir í vestur; þetta verður því sífeldur reipdráttur, landinu til skaða og góðum mönnum til skapraunar.

En með þessum hætti er lömuð öll sameiginleg ábyrgðartilfinning stjórnarinnar fyrir gerðum sínum, og úrræði hennar út á við verða óyndisúrræði og fálm, þannig að ráðherrarnir afsaka sig hver í sínu lagi, með því að þetta eða hitt málið, sem gloprast hefir úr höndum þeirra, hafi ekki heyrt undir hin sjerstöku verksvið þeirra í stjórninni.

En með því er sýnt, að þeir þykjast ekki bera neina sameiginlega ábyrgð gerða sinna.

En þetta leiðir af öngþveiti því og úlfakreppu, sem þeir eru í á þinginu. Þá skal jeg víkja að síðara aðalskilyrðinu fyrir góðu stjórnarfari í landinu, því skilyrðinu, að stjórnin sje í heild sinni starfhæf. Með því meina jeg auðvitað, eins og öllum má ljóst vera, að stjórnin öll sje skipuð þeim mönnum, sem treysta má, bæði að því er til aldurs þeirra kemur, stjórnmálaflokka þingsins, reynslu og æfingar í löggjafar- og stjórnmálum og áberandi dugnaðs þeirra í fyrri stöðu sinni í þjóðfjelaginu, að ógleymdum heiðarleik þeirra í öllum greinum, til þess að fara með stjórn landsins því til gagns og sóma.

Jeg verð nú að lýsa því yfir fyrir hönd okkar flm. vantrauststill. á þgskj. 8, að frá okkar sjónarmiði hefir þinginu 1916–1917 eða þeim flokki, sem studdi atvinnumálaráðherra núverandi til valda, mistekist hrapallega. — Að heiðarleikanum einum undanskildum hafði sá góði maður enga þá kosti til að bera, sem gátu gefið vonir, enda veikar vonir um, að hann væri vaxinn þeirri vandasömu stöðu og það á þessum tímum.

Hann var maður kominn á fallanda fót, sökum aldurs, maður, sem aldrei hafði komið nærri löggjafar- eða stjórnmálum, maður, sem aldrei hafði á þingi setið, maður, sem vantaði þekkingu í flestum þeim málum, sem hlutu að koma til hans kasta í stjórnarsessinum.

Þessum gamla og alveg óreynda manni á öllum þeim sviðum, er hann átti að starfa á, lyftu einir 12 menn af 40 upp í stjórnarsessinn, þann sessinn í stjórninni, sem á öllum tímum, en ekki síst nú, útheimtir mesta fyrirhyggju og hagsýni, mesta þekkingu á þeim margbreyttu og margþættu málum, er undir hann heyra. Á herðum þessa manns hvílir velferð þjóðarinnar í mínum augum jafnvel frekar en á hinum ráðherrunum.

Jeg skal nú ekki áfellast þingið eða þá góðu menn, sem 1916–17 báru svo mikið traust til þessa heiðursmanns, heldur ekki hann sjálfan, því það er jafnan örðugur hlutur að þekkja sjálfan sig rjettilega.

En fyrir það munu margir áfellast þennan flokk, að augu hans hafa enn ekki opnast fyrir því, að það traust, er þeir báru til hans 1916, hefir reynst oftraust og sár vonbirgði öllum þeim, sem þá gerðu sjer nokkrar vonir um hann í þessari stöðu.

Það væri ekki rjett af okkur, flm. þessarar vantraustyfirlýsingar, að reyna ekki að færa nokkur rök fyrir þessu vantrausti okkar, og skal það því gert með nokkrum orðum, þótt margt geti auðveldlega fallið úr, sem þörf væri á að taka fram í því efni.

En fyrir mína hönd, sem flytjanda viðaukatillögu á þgskj. 9, um vantraust á núverandi fjármálaráðherra, skal jeg geta þess, að jeg fyrir mitt leyti læt hann að miklu leyti eiga óskilið mál við atvinnumálaráðherrann, þar sem hann (fjármálaráðh.) samkvæmt stöðu sinni á sjerstaklega að vaka yfir fje landsins, tekjum þessum og gjöldum og vera atvinnumálaráðherrans önnur hönd við hagtjæringu þess í þarfir landsins.

Það vill nú vel til, að ekki þarf að þessu sinni að ganga í grafgötur um mistökin, skakkaföllin og afglöpin, sem orðið hafa undir stjórn atvinnumálaráðherrans, og fjármálaherrann er ýmist beint eða óbeint samsekur um. Þau gögn liggja alþjóð til athugunar í Alþingistíðindunum frá þinginu í vor og sumar. Skal þá fyrst nefndur Tjörnesnámureksturinn, sem nefndur hefir verið Tjörneshítin. Skýrslu um ráðsmensku atvinnumálaráðh. yfir starfrækslu þessarar námu er að finna á þgskj. 111 frá síðasta þingi. Sú skýrsla, svo óhlutdræg sem hún er í öllum greinum, sýnir svo frámunalegt eftirlitsleysi, hirðuleysi og ráðleysi af hálfu atvinnumálaráðherra, að það eitt væri ærið nóg efni til þessarar vantraustsyfirlýsingar. Landinu blæddi fyrir þá frammistöðu hans á annað hundrað þúsund króna, og fyrir því tapi gat hann ekkert borið í bætifláka.

Þá kemur dýrtíðarvinnan í Öskjuhlíð, eða öðru nafni Öskjuhlíðarfarganið. Um þá ráðsmensku stjórnarinnar, sem fjármálráðh. mun aðallega hafa haft á hendi, nægir að vísa til skýrslu fjárhagsnefndar á þgskj. 474. Skýrsla þessi stendur óhrakin í öllum greinum. Af henni sjest, að ráðlauslega hefir verið stofnað til þessarar vinnu, hún ráðlauslega rekin, og fje landsins mokað í hana í hinni mestu ógegnd. Kostnaðurinn við þessa vinnu varð í liðuga 4 mánuði liðugar 93 þúsundir, en afurðir allar um 38 þúsundir í nokkrum grjóthrúgum hjer í Öskjuhlíðinni, sem engin trygging er fyrir að ekki verði horfnar, er landssjóður þarf að notfæra sjer þær. Blóðtaka landssjóðs þarna, er frá eru reiknuð verkfæri o. fl., sem keypt var til vinnunnar, um 40 þús. kr.

Þá skal jeg minnast lítið eitt á afskifti stjórnarinnar, og sjerstaklega atvinnumálaráðherrans, af landsversluninni. Um það mun ekki lengur deilt, hvort það hafi verið rjett og nauðsynlegt, að stjórnin tæki verslun landsins að meira eða minna leyti í sínar hendur. Öllum mun nú ljóst orðið, að á því var full nauðsyn. En á því var frá byrjun ekki minni nauðsyn, að hún fæli forstöðu þeirrar verslunar mönnum með viti, þekkingu og reynslu á því vandasama verki. Afskifti stjórnarinnar af þessu máli heyra nánast undir atvinnumálaráðherrann. Frá því hann tók við stjórninni og þar til um síðastliðin áramót voru framkvæmdir stjórnarinnar í verslunarmálinu og öll stjórn hans á versluninni í hinum afskaplegasta ólestri. Hvert axarskaftið rak annað, og alt var að fara í grænan sjó undir handarjaðri atvinnumálaráðherrans. Við öðru var ekki heldur að búast, þar sem atvinnumálaráðherrann braut frá öndverðu þá sjálfsögðu fyrirhyggju, að fela alla forstöðu verslunarinnar færum mönnum, en ljet í stað þess atvinnumálaskrifstofuna, sem hafði engum verslunarfróðum manni á að skipa og var auk þess önnum kafin í öðrum störfum, vera að vasast í verslunarstjórninni. Enn sem komið er er það ekki komið í ljós, hvílíkt stórtjón landið hefir beðið við þetta háttalag, en fyrir því eru miklar heimildir, að það hafi numið mörgum hundruðum þúsunda kr., að jeg ekki nefni miljónir, sökum þess sleifarlags, sem var á þessari verslun undir stjórn atvinnumálaráðherrans, og mun það koma í dagsbirtuna, verði verslunarreikningarnir lagðir undir opinbera endurskoðun, eins og nú er til ætlast af þinginu. Þessa frámunalegu verslunarstjórn klyktu þeir atvinnumála- og fjármálaráðherrarnir út með sykurhneykslinu alræmda, sem var tilraun til þess að leggja 300–400 þúsund kr. skatt á þjóðina í upphækkuðu sykurverði, skatt, sem hlaut að koma niður á fátækasta og bágstaddasta hluta hennar. Þann dag í dag hefir þeim ekki tekist að rjettlæta með nokkru viti þessa fáránlegu ráðbreytni sína, og mun aldrei takast það.

Þá verð jeg að minnast lítilfjörlega á afskifti atvinnumálaráðh. af Landsbankanum. Sú vesalings stofnun hefir frá upphafi vega sinna verið leiksoppur í höndum hinna pólitísku flokka í landinu, og sá leikur hefir ekki orðið endasleppur í valdatíð atvinnumálaráðherrans, sem þessi stofnun heyrir undir. Fyrst byrjar hann með að víkja úr bankanum valinkunnum sæmdarmanni, sem þar hafði verið settur af fyrverandi stjórn, án þess að til þess væru nokkrar ástæður aðrar en þær, að öðrum manni af sauðahúsi ráðherrans þurfti að koma þar að. Síðan er það látið uppi sem eitt af aðalatriðum í stefnuskrá flokksblaðs ráðherrans, að Landsbankann þurfi að endurreisa og endurbæta, meðal annars með því að fá í stjórn hans sjerfróðan mann um bankamál, helst útlendan. Því næst er á þinginu 1917 gerð gangskör að því frá stjórnarinnar hálfu að koma með lögum nýju skipulagi á stjórn bankans, fjölga bankastjórunum, án þess að nokkur ósk eða áskorun lægi fyrir um það frá bankastjórninni. Það mál gekk fram, og hugðu nú margir, að hin ráðgerða endurbót á stjórn bankans kæmist í verk. En hvað skeður? Maður, sem aldrei hefir við bankastörf fengist og er án allrar sjerþekkingar í þeim efnum, er settur í hina nýju stjórn, og endurbótin enn ekki komin í verk. Svo skal jeg ekki rekja þá sögu lengra.

Þá má nefna annað afrek atvinnumálaráðherrans á veitingum á öðrum störfum, er undir hann heyra. Er þar skemst á að minnast veitingarinnar á póstafgreiðslustarfinu á Seyðisfirði nú í sumar. Um þá sýslan sóttu víst einn eða tveir þaulvanir menn við póstafgreiðslu, og hafði að minsta kosti annar þeirra bestu meðmæli póstmeistara, sem væntanlega þekkir best til þeirra mála og hefir þyngstu ábyrgðina á því, að öll póststörf landsins sjeu vel og samviskusamlega rækt og í höndum æfðra og vandaðra manna. En um starfið sótti líka maður úr flokki ráðherrans, og að mörgu leyti ofurmikið inn undir hjá honum, en hafði aldrei við póstafgreiðslu fengist og var því starfi bráðókunnur. Þessum manni veitir ráðherrann póstafgreiðsluna á þessum stað, sem einna mest ríður á vel færum og æfðum manni, þar sem Seyðisfjörður er miðstöð símasambandsins milli Íslands og útlanda, og öll viðskifti landsins við útlönd ganga því gegnurn þennan stað. Og þetta gerir ráðherrann þvert ofan í tillögur póstmeistarans. Oft hefir þótt bresta á nægilegt rjettlæti í embættaveitingum og ýmiskonar sýslana hjer á landi, en öllu meira ranglæti hefir ekki verið framið nú nýlega í þeim sökum en þessi veiting er ranglæti gegn póstmeistara, einum hinum árvakrasta og kostgæfnasta embættismanni landsins, og ranglæti gegn umsækjandanum, sem staðið hafði prýðilega í stöðu sinni, en fjekk ekki að komast að fyrir allsendis óreyndum manni. Það er lítil hvöt fyrir starfsmenn landsins að reyna til að standa vel í stöðu sinni, þegar það er jafnlítils metin af þeim, sem völdin hafa, og hjer varð raun á, og þarf ekki að útlista, hver áhrif slík hlutdrægni stjórnarinnar getur haft á embættis- og sýslunarmannastjett landsins. Mestar og bestar framtíðarvonirnar verða á því bygðar, að nugga sjer sem rækilegast upp við þá, sem veitingavaldið hafa.

Að lokum eitt atriði í þessu syndaregistri atvinnumálaráðherrans. Jeg hefi það frá áreiðanlegum heimildum, að fyrir nokkru sje þegar búið að ávísa úr landssjóði síðan á nýári hartnær 300 þús. kr. til vega- og brúargerða í landinu. Í vegabótakafla fjárlaganna er sú athugasemd frá Alþingi, að stjórninni sje heimilað að færa fjárveitingar fyrra árs fjárhagstímabilsins til brúargerða yfir á síðara árið, og sömuleiðis að fresta algerlega brúargerðum á fjárhagstímabilinu, ef örðugleikar verða á að fá efni og vinnu vegna dýrleika. Þetta fyrra ár fjárhagstímabilsins, 1918, er fjárveiting þingsins til vegagerða og brúargerða um 209 þús. kr. Allri þessari upphæð er stjórnin þegar búin að verja til brúa- og vegagerða, og þó er víst eftir að útborga mikið af vegabótafje á þessu ári, svo upphæðin getur nálgast alla vegabótafjárhæðina á fjárhagstímabilinu, sem er um 450 þús. kr. Mikill hluti þessa fjár er útborgaður bæði til brúargerðar og til vegagerðar, sem alls ekki er heimilað fje til í fjárlögunum. Nefni jeg þar til Hafnarfjarðarveginn svo nefnda, sem kostað var til í vetur í dýrtíðinni 65 þús. kr., auk verkfæra og vjela fyrir 25 þús. kr.

Þegar litið er til þess fjárhagsvoða, sem nú vofir yfir landinu, þá var það sannarlega skylda stjórnarinnar að fara svo gætilega með vegafje landsins, sem nokkur kostur var á, og eyða því ekki til annara vegabóta en þeirra, sem ekki máttu dragast vegna brýnna nauðsynja landsmanna. Í þá átt fer og athugasemd fjárlaganna, er jeg nú nefndi. Stjórninni var því skylt að haga sjer eftir þeirri athugasemd, þar ekkert útlit var fyrir, að fjárhagsvandræðin mundu minka, heldur þvert á móti yxu með ári hverju. Heimild þingsins í þessu efni er því í raun og veru sama sem skipun til stjórnarinnar að gæta alls sparnaðar. En hvað gerir hún svo? Hún gengur alveg fram hjá þessari athugasemd þingsins, lætur byggja brýr á þessu ári, og það sem verra er, eyðir tugum og jafnvel hundruðum þúsunda í vegi, sem alls ekki er nokkur heimild til að verja því fje til samkvæmt fjárlögunum, og virðir þannig að vettugi þau lög, sem henni eru sett um fjárreiður landssjóðsins, og etur þannig á fyrsta ári fjárhagstímabilsins mestalt vegabótafje beggja áranna.

En samtímis því, að fje landsins er þannig sukkað í engri lagaheimild, hefir stjórninnin lagst undir höfuð að vinda bráðan bug að því, að láta gera við eitt hið stærsta og þarflegasta mannvirki og vegabót á þessu landi, Ölfusárbrúna, sem eftir hennar eigin sögn, bygðri á skýrslu vegamálastjóra, liggur undir stórskemdum, ef ekki er við hana gert, og eins og sjálfsagt var stóð ekki á fjárveiting á síðasta þingi til viðgerðarinnar, og fylgdi henni bein áskorun til stjórnarinnar um að koma viðgerðinni þegar í verk. En jeg heyri sagt, að enn sje ekki neitt farið að hreyfa við aðgerðinni. Jeg skal ekkert um það segja, hvernig á því stendur. En ef ekki vantar efni til viðgerðarinnar, þá er hjer um ófyrirgefanlega vanrækslu að ræða af stjórnarinnar hálfu, láti hún ekki vinna verkið í sumar, og jafnvel komið í ótíma, þótt hún ranki nú við sjer og láti hjer eftir fara að byrja á því; og þetta skeður samtímis því, sem fje er bruðlað út í heimildarleysi.

Það mátti þó segja um Tjörneshneykslið og Öskjuhlíðarfarganið, að þar var þó stjórnin að myndast við að framkvæma dýrtíðarráðstafanir samkvæmt gildandi lögum, þótt þessar framkvæmdir færu í hörmulegum handaskolum; en með þessu aðgerðaleysi sínu er hún að brjóta fjárlög landsins frammi fyrir sjálfu þinginu og öllum landslýð.

En stjórnin gerir meira ilt með vegabótaráðstöfunum sínum um lög fram en að hún brjóti fjárlögin; hún ræður fjölda af verkalýð landsins til að framkvæma lögbrotin, um aðalannatíma landbúnaðarins, er honum ríður lífið á að fá sem mestan vinnukrafi, og hún sprengir upp verkalaunin fyrir landbúnaðinum með gífurlegu kaupi í þessari vegavinnu. Með þessu gerist stjórnin keppinautur landbúnaðarins og torveldir honum að fá vinnukraft um hábjargræðistímann. Það gerast nú fleiri keppinautar landbúnaðarins en síldveiðamennirnir, og síst var þess að vænta, að landsstjórnin yrði til þess, og það þvert ofan í tilætlun þingsins að þessu sinni. Þetta gerist undir forustu sjálfs landbúnaðarráðherrans, bændavinarins og bændaforkólfsins, sem þykist bera hag bændastjettarinnar sjerstaklega fyrir brjósti. Hvað segja bændur og búalið um þessa ráðbreytni, hvað segir þingið, hvað segir þjóðin?

Samkvæmt fyrirliggjandi skýrslum frá síðasta þingi, bæði frá fjármálaráðherranum sjálfum og fjárhagsnefnd þingsins, veltur tekjuhalli landssjóðs eftir þetta fjárhagstímabil á miljónum króna, að ótöldum þeim hundruðum þúsunda, sem þingið í sumar veitti úr landssjóði, og þingkostnaði á báðum aukaþingunum; nema allar þær upphæðir sjálfsagt um hálfa miljón króna. En samfara þessu voðalega útfiri úr landssjóði tæmast tekjulindir hans óðum, sökum aðflutninga- og útflutningateppu á útlendum og innlendum vörum, og sökum stórkostlegs áfellis, sem annar aðalatvinnuvegur landsins, landbúnaðurinn, verður fyrir af yfirstandandi hallæri.

Þess hefði mátt vænta, að stjórnin hefði athugað þetta í öllum afskiftum sínum af fjármálum landsins; og hún hefði átt að forðast eins og heitan eldinn að leggja fje fram til nokkurs þess, sem ekki var bráðnauðsynlegt að framkvæma þegar í stað, enda var sú tilætlun þingsins 1917.

Sá tími getur fyr eða seinna gengið í garð, að landssjóður geti ekki int af hendi skyldugjöld sín, svo sem laun embættis- og starfsmanna landsins, nema með lántökum á lántökur ofan. Jeg vildi óska, að þetta kæmi ekki fyrir, en það getur komið fyrir, og ekkert líklegra en að það komi fyrir, ekki síst ef eins gálauslega og ráðlauslega er farið með fje landsins eins og gert hefir verið undir forustu þessarar stjórnar, og sama vandræðaástandið, sem er í heiminum, helst enn um nokkur ár.

Jeg þykist nú hafa sýnt nokkuð fram á það, að hin núverandi stjórn sje í heild sinni hvorki nógu sterk nje nógu starfhæf til þess að geta staðið vel í stöðu sinni, og á jeg þar, hvað starfhæfnisleysið snertir, einkum við hinn núverandi atvinnumálaráðherra, einkum þegar litið er líka á samvinnuleysi stjórnarinnar innbyrðis og eftirlitsleysi fjármálaráðherrans, sem engu síður, nema fremur sje, en atvinnumálaráðherranum, og reyndar forsætisráðherranum líka, ber að hafa stöðugar og nánar gætur á fjárhag landsins á þessum erfiðu tímum.

Það traust, sem þessi stjórn hafði hjá þinginu í upphafi, er óðum að þverra. Þessir ráðherrar, að minsta kosti fjármála- og atvinnumálaráðherrarnir, verða með ári hverju meiri og meiri flokksbrotaráðherrar; það kvarnast í sífellu utan af þeim brotum, er í öndverðu fylktu sjer um þá. Atvinnumálaráðherrann stendur nú með 7 menn að baki sjer, og fjármálaráðherrann með 9, eða öllu heldur ekki nema 7, því að varla er gerandi ráð fyrir, að þeir tveir þm. úr hans flokki, sem telja hann hafa selt hin helgustu rjettindi landsins í hendur annarar þjóðar, geti framvegis fylgt honum, sje þeim annars nokkur alvara. Þar má þó segja, að mál gæti flokkum skift, og flokksbrotin, sem eftir eru, eiga í raun og veru engan tilverurjett sem pólitískir þingflokkar; það eru ekki nein mál, sem skifta lengur flokkum hjer í þingi. Það eru menn, það eru þessir þrír ráðherrar, sem hvert brotið um sig hefir ekki getað slitið sig frá, og af því fer óánægjan með stjórnina sífelt vaxandi hjá fylgismönnum hennar, ef nokkuð má marka það, sem þm. tala hver við annan. Þessi óánægja er orðin svo mögnuð í flokksbroti atvinnumálaráðherrans, að hans eigin flokksmenn hafa gert tilraun til að losast við hann í kyrþey, þótt þá nú kunni að bresta þrek til að láta það opinberlega í ljós. Stjórnin er þinglaus, þingið er stjórnlaust, eða með öðrum orðum: stjórnina vantar það fylgi í þinginu, sem henni er bráðnauðsynlegt til að vera nokkurn veginn sterk stjórn; og þingið vantar stuðning stjórnarinnar, til þess að geta int löggjafarstarfið viðunanlega af hendi, sökum þess, hve stjórnin er veik og óstarfhæf í heild sinni. Það er enginn flokkur til í þinginu, sem getur tekið á sig ábyrgð á stjórnarfarinu í landinu, af því að enginn meiri hluti hefir til þessa fengist til þess að styðja hina núverandi stjórn; henni hefir verið lofað að lafa, sem maður segir, af persónulegum hvötum, en ekki pólitískum ástæðum. Hjer dugir ekki að vitna í samsteypuráðuneyti annara landa; þar hafa flokkarnir komið sjer saman um að styðja alla stjórnina leynt og ljóst. En hjá oss er þessu nokkuð öðruvísi háttað; hjer eru 15 þingmenn að pota sjer með forsætisráðherrann, 7 með atvinnumálaráðherrann og 9 með fjármálaráðherrann; hjer vantar samvinnuna; og dettur nokkrum í hug, að þingið geti með slíku fyrirkomulagi unnið svo sæmilegt sje og gegnt skyldu sinni sem „normalt“ þing? Í því skil jeg ekki. Jeg segi, að þingið sje sjúkt, og alt stjórnarfarið er að sýkjast. Það getur verið, að einhverjir geti haft hag af þessum sjúkleika stjórnarfarsins, en vonandi nær það ekki til þeirra, sem á þingbekkjunum sitja; væri svo, ættu þeir að hverfa þaðan hið skjótasta. Stjórnarfarið fer síversnandi, en jeg kenni það ekki svo mjög stjórninni sjálfri, sem hinu, hvernig hún er til orðin og hve stuðningslaus hún er.

Já, stjórnarfarið fer síversnandi; utan um hæstv. atvinnumálaráðh. safnast óhlutvandir miðlungsmenn, sem nota sjer elli hans og ósjálfstæði sjer til eigin hagsmunabóta, en honum til stórkostlegs álitshnekkis. Hann gerir landinu mest gagn með því að segja af sjer þessu embætti, sem hann aldrei var maður til að gegna, og hann gerir sjálfum sjer mestan greiða með því, úr því sem komið er, það er raunalegt, að gamli maðurinn skilur þetta ekki. Við flutningsmenn þessarar till. bjuggumst nú reyndar ekki við, að hann tæki þetta þjóðráð bæði fyrir sjálfan sig og landið, og þess vegna neyddumst við til að flytja þessa vantraustsyfirlýsingu.

Þingið getur bætt úr því vandræða ástandi, sem nú er með stjórn landsins, ef það vill, og þessi till. ásamt viðaukatillögunni á að leiða það í ljós, hvort þingið vill það; atkvæðagreiðslan um þessa till. á að sýna, hvort sú almenna óánægja, sem í orði kveðnu er ríkjandi í þinginu með stjórnina, eins og hún er skipuð, er nokkuð annað en orðin tóm. Vill þingið eiga það á hættu um óákveðinn tíma, að fje landsins sje sukkað í hundruðum þúsunda króna? Vill þingið horfa aðgerðalaust á það ranglæti, sem þessi stjórn hefir beitt gagnvart einstökum mönnum, eins og t. d. Seyðisfjarðarhneykslinu? Vill þingið eiga það á hættu, að landsverslunin komist aftur í sömu óreiðu, er þeirra manna missir við, sem nú veita henni forstöðu, og mjer er fullur grunur á, að geti orðið fyr en varir? Og jeg treysti sannarlega ekki hæstv. atvinnumálaráðh. og hæstv. fjármálaráðh. til að skipa aftur vel í þær stöður, ef einhver sníkjudýr knýja fast á náðardyr þeirra. Vill þingið horfa aðgerðalaust á, að fjárlög landsins sjeu að nauðsynjalausu fótum troðin af stjórninni og fjárhag landsins með því teflt í enn meiri voða?

Það erum ekki við einir flutningsmenn þessarar vantraustsyfirlýsingar, sem leggjum þessar spurningar fyrir hið háttvirta Alþingi; þær hljóta að hljóma frá vörum hvers einasta kjósanda í landinu, sem nokkuð hugsar um ástandið sem nú er. Allir kjósendur, öll þjóðin ber hana upp og heimtar henni svarað.

Því hefir verið varpað fram af sumum hv. þm. í mín eyru, að við ættum ekki völ á hæfari mönnum í stjórn landsins en nú eru í henni, og þess vegna yrðum við að sætta okkur við hana, meðan hún sjálf vildi sitja, hve óánægðir sem við værum með hana; og jeg hefi jafnvel verið heimskaður fyrir að hafa borið fram till. þessa. Slíkum örvæntingaraugum hjelt jeg að enginn þingmaður gæti litið á þetta mál. Jeg veit vel, að því lengur, sem þessi stjórn, eins og hún er skipuð, lafir við völdin, því torveldara verður að fá menn til að moka þann flór, sem hún skilur eftir.

En guð hjálpi þessari þjóð, ef hún á að sitja árum saman með þessa stjórn, af því að ekki sje völ á færari mönnum, eða þeir ófáanlegir til að taka að sjer stjórn landsins; það er sú aumasta þrotalýsing á mannviti og stjórnmálaþroska þjóðarinnar frá þingsins hálfu.

Vjer fögnum fengnum sigri í sjálfstæðismáli voru. En vissulega hlýtur sá fögnuður að vera æði kvíðablandinn, ef engir menn jafnfærir, auk heldur færari en stjórnin, eru til eða fáanlegir til að fara með stjórn hins fullvalda íslenska ríkis. Þá verður fullveldið oss sannarleg hefndargjöf — það verður sem beittur hnífur í höndum óvita.

Það sjest nú í dag, hvort hið hv. þing vill láta reka á reiðanum út í ginnungagap nýrra skakkafalla, nýrra stjórnarafglapa og áframhaldandi ráðleysis, hirðuleysis og forsjáleysis þessarar óstarfhæfu stjórnar, sem hvert augnablik getur stofnað landinu í vandræði og jafnvel voða. Þeir hv. þm., sem greiða atkv. móti þessum till., lýsa með því trausti sínu á stjórninni. Jeg get vel trúað, að sumir hverjir geri það ekki með ljúfu geði, og leiti því allra þeirra ráða, sem þingsköpin heimila, til að losast við atkvæðagreiðslu um þessar till. En það mega þeir góðu menn vita, að með þessu ráðabruggi villa þeir engum skynbærum manni sýn, og síst auka þeir með því virðingu þingsins, sem þess aðilja í þessu máli, sem á að vaka yfir velferð landsins. Við sjáum nú hvað setur. Dixi et liberavi conscientiam meam.