09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (163)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vil að eins gera örstutta athugasemd við ræðu hv. þm. Ísf. (S. St.), og verða þær frá almennu sjónarmiði.

Hann sagði, að stjórnin væri svo veil vegna þess, hvernig til hennar hefði verið stofnað, og að hún hefði ekki samfeldan meiri hluta að baki sjer. Eins og sakir stóðu, er stjórnin var mynduð, var ókleift að mynda nokkra þá stjórn, sem hefði samfeldan meiri hl. að baki sjer, og jeg held, að það sje misskilningur hjá hv. þm. (S. St.) að halda, að stjórnin þurfi að vera nokkru óstyrkari, þótt svo sje ekki. Það er óneitanlegt, að önnur lönd hafa lengri stjórnmálasögu en við, og þó ef til vill ekki þyki hlýða að benda á reynslu þeirra um þetta, þá vil jeg þó minna á, að fyrir skömmu sat mjög sterk stjórn við völd á Frakklandi, og var hún þó mynduð af mörgum flokkum; hún hafði sterkan meiri hl., og þó hafði hún mismunandi skoðanir á ýmsum málum. Það má og öllum vera vitanlegt, að rjett hjá oss hefir stjórn setið um lengri tíma að völdum, er ekki hefir haft meiri hluta að baki sjer, og þó hefir sú stjórn ekki þótt óstyrk, heldur þvert á móti. Þetta sýnir, að stjórn þarf ekki að hafa samfeldan meiri hl. að baki sjer til að vera sterk, svo frá almennu sjónarmiði var það alls ekki neitt óráð að mynda stjórn svo, sem hjer var gert.

Það ræður að líkindum, að þegar stjórnir eru myndaðar á þennan hátt, þá ráða flokkarnir mestu um það, hver tekur sæti í stjórninni fyrir þeirra hönd, og oft er það sjálfgefið, hver það er, nefnilega foringi eða formaður flokksins, þótt sá, er forsætið skipar, auðvitað ekki sje skyldugur til að samþykkja hvern, sem til er nefndur.

Jeg hygg, að það sje ekki rjett, sem hv. flm. (S. St.) sagði um samvinnuleysi stjórnarinnar. Það er auðvitað, að þegar stjórn er mynduð á þennan hátt, þá hafa ekki allir sömu skoðunar um hvert mál, er fyrir kemur; þannig er oft meiningarmunur innan stjórnarinnar, en þar fyrir getur samvinnan verið góð. Jeg held, að hv. flm. (S. St.) hafi ekki, er hann talaði þetta, athugað, að störfunum er skift milli ráðherra um öll lönd, og að flest mál heyra að eins undir einn ráðherra, og hann einn úrskurðar þau. Það getur því vel átt sjer stað, að ráðherra afsaki sig með því, að eitthvert mál heyri ekki undir hann, og atvinnumálaráðherrann getur t. d. ekki sagt mjer, hvað jeg eigi að gera í skólamálum, eða jeg honum um þau mál, er undir úrskurð hans heyra. Þetta er föst og viðtekin regla um allan heim. Í þessum málum er það aðallega sá ráðherra, er málið heyrir undir, sem ábyrgðina ber. Um sameiginlega ábyrgð verður fremur að ræða í málum, er snúa út á við, og enn fremur um frv. þau, er stjórnin leggur fyrir þingið. Annars getur komið fram meiningarmunur milli ráðherra, þótt þeir sjeu allir í sama stjórnmálaflokki. Það er því ekki rjett af hv. hv. flm. (S. St.) að tala um samvinnuleysi stjórnarinnar, en það er rjett, að stjórnin hefir ekki samfeldan meiri hluta að baki sjer, en meiri hl. getur verið jafntryggur fyrir því.

Í þessu sambandi tók hv. flm. (S. St.) það fram, að stjórnin hefði ekki verið á sama máli um tvö atriði á næstsíðasta þingi, fossana og skólana. En um þetta er það að segja, að hvorugt málið var borið fram af stjórninni, og svo átti þetta ekki heldur við um núverandi stjórn alla, svo dæmi þetta sannar ekkert um ósamlyndi innan stjórnarinnar, og þótt svo væri, þá væri það ekki nema eðlilegt, eins og til stjórnarinnar var stofnað, og beinist því ásökunin eins til þeirra, er stofnuðu hana. Og ágreiningurinn í skólafrestunarmálinu var svo lítilfjörlegur, að það tekur því naumast að nefna hann.

Eftir því, sem hv. flm. (S. St.) fórust orð um þingflokkana, þar sem hann sagði, að í sumum þeirra væri að eins einn maður, þá er víst erfitt að mynda stjórn, er þeim líki öllum. Ef hægt er að mynda á þingi samfeldan meiri hl., þá er sá grundvöllur fallinn burt, sem stjórnin er mynduð á, en það hefir ekki tekist enn að mynda hann.

Um önnur einstök atriði, er hv. flm. (S. St.) talaði um, mun jeg ekki tala, að minsta kosti ekki að svo stöddu, enda var þeim beint til hæstv. atvinnumálaráðherra, en hann mun svara fyrir sig.