09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (166)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Guðmundur Björnson:

Herra forseti! Jeg bið mjer ekki hljóðs til að blanda mjer í það deilumál, sem hjer er nú á döfinni, um stjórnarathafnir atvinnumálaráðherra og fjármálaráðherra. — Mjer er annað í huga.

Allur hugur minn snýst um það eina mikla vandamál, sem þetta þing hefir haft til meðferðar, um sambandsmálið. Mörg eru málin og margs er að gæta hjer á þjóðarþingi, ekki síst nú um stundir. Og því síst að furða, því að menn greini á um marga hluti, og það að miklum mun.

En eitt er þó víst, — eitt er það málið, sem alla tíð verður að sitja í fyrirrúmi fyrir öllum öðrum nauðsynjamálum þjóðarinnar, og það er þetta mál, sem nú er efst á baugi. Það er sambandsmálið, sjálfstæði þjóðarinnar út á við, líf hennar, heiður og velferð í nútíð og framtíð.

Hv. flutningsmaður tillögunnar, sem hjer liggur fyrir (S. St.), gat þess í ræðu sinni, að á síðasta þingi hefði hann ekki viljað fara fram á stjórnarskifti vegna þessa mikla velferðarmáls, vegna sambandsmálsins.

Það er nú álit mitt og allflestra minna flokksbræðra hjer á þingi, að hv. flm. þessarar vantraustsyfirlýsingar hafi öldungis rjett fyrir sjer í því, að á síðasta þingi myndi vantraustsyfirlýsing, borin upp á hendur einhverjum ráðherranna, hafa komið sjer mjög illa fyrir þetta lífsspursmál þjóðarinnar, sjálfstæðismál hennar.

En hver er mismunurinn á þá og nú? Vjer heimastjórnarmenn, flestir okkar, fáum ekki sjeð neinn mun, engan verulegan mun. Okkar nýi sáttmáli hlaut þá jákvæði 38 þm. af 40, og þá sagði enginn nei. Og engum gat dulist, að málið mundi nú fá fullnaðarsamþykki þeirra sömu 38 þjóðarfulltrúa — eins og raun er á orðin.

Vjer stöndum því enn, að heita má, í sömu sporum.

En er það eftir að leita atkv. þjóðarinnar um þetta mál, og enn sem fyr er eftir að útvega fullnaðarsamþykki sambandsþjóðar vorrar. Og enn sem fyr — engu síður en á síðasta þingi — er mjög rætt við því, að stjórnarskiftadeilur gætu spilt þeirri eindrægni utan þings og innan, sem nauðsynleg var og er fyrir framgang þessa mesta máls þjóðarinnar, og það þeim mun fremur, sem tveir merkir þm., þeir, sem ljetu málið hlutlaust í sumar, hafa nú neitað því fylgi sínu.

Af þessum ástæðum leyfi jeg mjer, herra forseti, að leggja það til af minni hálfu og flestra minna flokksbræðra, að þessu máli verði ráðið til lykta með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

Þar sem vantraustsyfirlýsing sú, sem fram er komin, til atvinnumálaráðherra og fjármálaráðherra, getur spilt eindrægni þeirri, sem nauðsynleg var og er fyrir framgang aðalmáls þings og þjóðar, sambandsmálið, sem enn er ekki útkljáð að fullu, þá þykir þinginu ekki hlýða að bera hana undir atkvæði, og tekur fyrir næsta þingmál.