09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (183)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Bjarni Jónsson:

Jeg stend ekki upp til að bera af mjer ámæli. Jeg þakka hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fyrir góð ummæli. Hann taldi röksemdir mínar svo ljettar, að hann hirti ekki að svara þeim, — en á þessum öfugmælatímum þýðir það, að þær hafi verið svo þungar, að hann gat ekki svarað þeim.

Það er harðara að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá en með því að fella tillögurnar, því í því liggur að málið hafi verið svo illa úr garði búið, að ekki hafi þótt sæmra, að það kæmi til atkv.

Verði dagskráin feld og aðaltillagan, skilst mjer, að viðaukatill. komi ekki til atkv., nema með sjerstöku leyfi þingsins. En jeg mun greiða atkv. með dagskránni, því það er harðari dómur um tillöguna en þótt hún sjálf væri feld.