02.09.1918
Efri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal ekki vera langorður.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) vítti hæstv. forsætisráðherra fyrir þann flýti, sem hann vill hafa á málinu. Það er ekki svo, að jeg þurfi að bera, hönd fyrir höfuð hæstv. forsætisráðherra, en jeg vildi taka það fram, að jeg og öll stjórnin ber að sjálfsögðu ábyrgð á þessum flýti, en enginn einstakur ráðherra.

En úr því að jeg stóð upp, vil jeg með nokkrum orðum lýsa afstöðu minni til þessa máls.

Jeg get verið háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sammála um það, að nokkrir gallar sjeu á 6. gr. Jafnrjetti það, sem þar ræðir um, er í raun og veru misrjetti í vorn garð, þar sem sambandsþjóð vor er stærri en vjer og auðsuppsprettur meiri, sem Danir geta notað sjer her, en vjer þar. Jeg gerði fyrir mitt leiti alt, sem mínu valdi stóð, til þess að fá þessari grein breytt. En þótt jeg sje háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sammála um það, að nokkrar misfellur sjeu á þessari grein, þá legg jeg ekki jafnmikla áherslu á þær og hann. Honum finst hjer opnað hlið fyrir Dani, og muni þeir fjölmenna hingað og ráða öllum vorum málum. Jeg er þess fullviss, að vjer Íslendingar mundum hafa nóga karlmensku til að setja slagbranda í hliðið, ef vjer yrðum þess áskynja, að þessi hætta vofði yfir. Og á þessu eigum vjer tök að fullum lögum, því að bæði er nú það, að hægt er að setja búsetu sem skilyrði fyrir atvinnurekstri, og af jafnrjettinu leiðir þó eigi meira en það, að Danir sæta þó eigi betri kjörum en Íslendingar erlendis, sem fæddir eru hjer, og ef vjer takmörkum rjett þeirra hjer, þá takmarkast rjettur Dana á sama hátt. Og þótt nú þessum samningum yrði hafnað og alt látið sitja við það, sem er, fæ jeg ekki betur sjeð en Dönum sje hliðið jafnopið og þótt samningarnir yrðu samþyktir, og raunar opnara, því að sem fullvalda ríki stæðum vjer miklu betur að vígi gagnvart Dönum en eins og nú er ástatt.

Um 7. gr. skal þess getið, að jeg hefði óskað, að tíminn væri styttri, sem vjer felum Dönum að fara með utanríkismál vor. En samkvæmt frv. er það hvorttveggja, að umboðið er takmarkað, þannig að vjer undir vissum kringumstæðum getum farið með sum málin, en auk þess er samþykki vort áskilið til þess að binda Ísland, og ef vjer höfum vel valinn mann til þess að gæta rjettar vors í utanríkisráðuneytinu danska, þá eigum vjer yfir höfuð að geta ráðið miklu um þessi mál. En þrátt fyrir það, þótt gallar sjeu á þessum tveim greinum, er mjer það ljóst, að öllum aðalkröfum vorum er fullnægt í samningunum. Sjest það greinilega af 1. grein. Þar er Ísland berum orðum viðurkent frjálst og fullvalda ríki. Og engin síðari greinanna dregur úr þeirri viðurkenningu, er oss er þar gefin, heldur þvert á móti. Þær greinar frv., sem eru gallagripir — jafnvel þær styrkja þá skoðun, að Ísland sje samkvæmt frv. fullvalda ríki. Af 6. gr. sjest ótvírætt, að vjer höfum sjerstakan ríkisborgararjett, og af 7. gr., að Danmörk fer með utanríkismál vor að eins í umboði voru, en umboðið er auðvitað gefið af fullveldi Íslands, því að án þess væri umboðið meiningarlaust. Auk þessa bera aðrar greinar frv. skýr fullveldismörk á sjer.

Í 17. gr., þar sem ákvæði eru um, hvernig skera skuli úr ágreiningi, er verða kunni um skilning sambandslaganna, er svo ákveðið, að sænska eða norska stjórnin skipi oddamanninn.

Þá eru fullveldismörk ljós á 18. gr. þar sem veittur er rjettur til að segja samningnum einhliða upp.

Því hefir þá verið valdið fram, að atkvæðafjöldi væri þar heimtaður svo mikill, að örðugleikarnir á að segja samningnum upp væru svo miklir, að hjer væri um pappírsakvæði að ræða.

En það get jeg ekki fallist á, þar sem það er á valdi Íslendinga, hvernig þeir haga atkvæðagreiðslunni, og það ætti því að vera í lófa lagið að hafa hana sem greiðasta; mætti jafnvel koma henni svo fyrir, að allir gætu greitt atkvæði, og ekkert væri heldur á móti því að gera atkvæðagreiðsluna opinbera, en þá hygg jeg, að margur dignaði við að greiða atkvæði gegn samningsslitum, ef almennur áhugi væri vakinn fyrir þeim, og áhuginn ætti rót sína að rekja til þess, að Danir leituðust við að beita oss yfirgangi.

Og það mega allir vita, að ef þjóðin finnur til þess, að beita á hana misrjetti, þá vaknar hún til framkvæmda í þeim sökum. Og Íslendingum er þá, dugur horfinn að miklum mun, ef þeir nota sjer ekki rjett þennan.

Þetta er því »praktiskur« rjettur, og er einn votturinn um fullveldi Íslands — og þó ekki sá óskýrasti, enda þá jafnrjettið fallið burt með samningsslitinu.

En sje rjettur þessi notaður, þá er öllum ljóst, að að eins er eftir hreint konungssamband, en það er einmitt markið, sem allir flokkar hafa verið samhuga um að vinna að.

En þá lít jeg svo á, að eðli sambandsins verði að miðast við 18. gr. því að það breytir ekki eðli sambandsins, þótt Ísland veiti Dönum takmarkað umboð til þess að fara með utanríkismálin fyrir sína hönd.

Samband þetta, eins og það verður strax eftir að samningurinn kemst í gildi, er því hreint konungssamband milli Danmerkur og Íslands.

Þá er 19. gr. frv., og ber hún ekki síður á sjer fullveldismark, skýrt og ótvírætt. Samkvæmt henni er Ísland hlutlaust. Það nær því ekki til Íslands, þótt Danmörk lendi í ófriði.

En þetta ákvæði vil jeg leggja áherslu á. Ástandið, sem nú er í heiminum, gerir það að verkum, að einmitt þetta ákvæði samninganna verðum við að meta mjög mikils.

Og jeg er þeim fullkomlega sammála, sem einmitt vegna þessa ákvæðis vilja hraða málinu.

Það liggur í augum uppi, hversu mikils virði það er nú þegar, alt logar í ófriðareldinum, að fá sem fyrst fulla vissu fyrir því, að við lendum ekki í stríðinu, þótt Danir geri það.

Í 16. gr. er ákvæði um dansk-íslenska ráðgjafarnefnd, og mundi jeg ekki hafa saknað þess ákvæðis, þótt ekki hefði verið í frv.

En ekki sje jeg neina hættu á atriði þessu.

Jeg er ekki í vafa um það, að nefnd þessi hefir lítil áhrif, og færi svo, að hún ynni í óþjóðlega átt fyrir okkur Íslendinga, þá mundi þing og stjórn meta störf hennar að vettugi. Enda fer svo altaf, að löggjöfin hlýtur að laga sig eftir lífi og þörf þjóðanna, en nokkrir menn í nefnd mundu ekki geta breytt eðlilegri framþróun löggjafarinnar.

Jeg legg aðalahersluna á fullveldisviðurkenninguna, sem alstaðar kemur fram í frv. í upphafi hafði jeg litlar vonir um, að hinir dönsku samningamenn myndu ganga svo langt, að jeg gæti fallist á tilboð þeirra. En jeg áleit rjett samt, að reynt yrði samkomulag, því að Ísland stæði þá betur að vígi eftir sáttaumleitanir, ef látið yrði til skarar skríða.

En hingað til hefir altaf strandað á dönsku ríkiseiningakreddunni, sem vjer aldrei höfum viðurkent. En nú er sú kredda horfin.

Eftir samningunum er það fyllilega viðurkent, að ríkin eru tvö. En það er markið, sem barist var að.

Jeg þykist því nú hafa fært fullar ástæður fyrir því, hvers vegna jeg er samningunum fylgjandi. Jeg veit, að það hefir engin áhrif á niðurstöðu málsins, þótt mikið sje um það rætt. En mjer þótti þó rjett að gera grein fyrir skoðun minni á samningnum.

Mjer þykir leitt, að flokksbræður mínir 2 skuli hjer ekki vera á sama máli og jeg. En svo mæti þó fara, að barátta sú, er þeir nú hefja, yrði til þess, að Íslendingar vaki og standi fast í hliði því, sem ekki er lokað með 6. gr. frv. Því þótt fullvalda ríki sje, er því full þörf á að gæta sjálfstæðis síns og hafa vakandi auga á því, sem fram fer, og mundi Íslendingum þess einnig þörf, þótt ákvæði 6. gr. væru öðruvísi.

Vil jeg svo að endingu lýsa yfir því, að jeg mun óhikað greiða frv. atkvæði mitt og hvetja flokksbræður mína um land alt til að gera hið sama.