02.09.1918
Neðri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi nú setið á meðan sætt var.

Það er öllum kunnugt, að jeg hefi unnið töluvert að þessum málum undanfarin ár í samvinnu við háttv. þm. N.-Þ. (B Sv.). En er hann nú stendur upp og segir, að jeg hafi látið glepjast og gert mitt til að brjóta mínar fyrri kenningar og stefnur í málinu, þá er jeg neyddur til að svara og fara um þetta verk mitt nokkrum orðum.

Jeg veit ekki betur en að það hafi verið mín stefna og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), og stefna Sjálfstæðisflokksins, að fá viðurkent fullveldi Íslands í konungasambandi við Danmörku. Jeg held, að það hafi einatt verið látið í ljós á mannfundum, í ræðu og riti, að vjer mundum láta oss þetta nægja, þó að vjer auðvitað kunnum því best, að Ísland sje fullkomlega sjálfstætt ríki, án sambands við nokkurt annað ríki. En hitt hefir verið stefnan, því að vjer höfum talið það viturlegt, því að lítið land, vopnlaust og vinalaust, getur ekki þvingað fram skilnað gegn vilja álfunnar, nje afneitað konungi svo, að það afli sjer ekki óvinsælda um leið.

Í þessum orðum mun jeg nú reyna að færa sönnur á, að þessari stefnuskrá sje fullkomlega náð, og þar vanti ekkert á.

Skal jeg þá fyrst á það minnast, að á 2 undanförnum þingum hefir fullveldisnefnd setið á rökstólum í máli þessu. Á fyrra þingi var öll nefndin, sem við báðir, jeg og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), áttum sæti í, sammála um það, að sjálfsagt væri að hreyfa þessu fullveldismáli Íslands og nota sjer það, að ófriðurinn hefir losað um alt í heiminum, og jafnvel skoðanir þeirra, sem mestir eru konungssinnar eða ríkisaukasinnar, breytt skoðunum Dana á eigin mætti og skoðunum þeirra Íslendinga, sem áður þótti of hátt stefnt með kröfum þeim, er vjer Sjálfstæðismenn höfðum sett oss að takmarki. Auk þess voru líkur til, að ef ófriðurinn hjeldi áfram, mundu Danir neyðast til að láta undan á þessum tíma, en eigi síðar, er friður væri á kominn. Af þessum ástæðum varð nefndin ásátt um að taka upp þegar fánakröfuna. En nefndin hugsaði sjer fánann sem einkenni fullvalda ríkja. En nefndin kaus af varfærni að taka heldur fánann en alt málið frá rótum, sakir þess, að kappgirni Dana yrði þá síður vakin, ef þeir gætu viðurkent fullveldi vort með svo yfirlætislausum hætti. Þurfti þá ekki fyr en fram var gengið málið að hreyfa því, að auðvitað væri þetta fullveldið. Þetta gerði það, að nefndin hreyfði fána, en ekki hitt, að hún ætlaði ekki að fá fullveldið. Þetta kemur berlega fram á þingi, og Knútur Berlin, sem nú er talinn góður Íslendingur, í vitru blaði einu norðanlands, telur fánann ótvírætt fullveldiseinkenni og hefir vitnað í ræður mínar því til sönnunar, að Íslendingar hafi litið svo á. Nú muna menn, að þegar ráðherra bar fram málið fyrir konungi, svaraði konungur því, að hann vildi eigi taka fánamálið út úr, heldur taka alt málið fyrir. Þá varð það síðar, að þingmenn og fullveldisnefnd ljetu í ljós, að það væri ekki Íslendingum á móti skapi að taka upp málið alt, ef konungur vildi gera hingað til Íslands mann, með fullu umboði til þess að viðurkenna fullveldi þessa lands. Þetta var gert í samræmi allra, og líka háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Þá var það skilyrði sett, að menn kæmu hingað. Voru svo sendir út hingað sendimenn. Alþingi kaus þá úr sínum flokki menn til milligöngu, og var jeg einn þeirra. Get jeg sagt með góðri samvisku, að jeg gekk aldrei að neinu áður en jeg hafði spurt minn flokk, fullveldisnefnd og aðra flokka, beint eða óbeint, hvort jeg mætti ganga að því. Verður því ekki annað sagt en að jeg hafi gert það, sem vænta mátti og rjett var. Annars mun jeg geta fengið vitni um, að jeg hafi heldur ýtt á og ekki boðið Dönum sjálfkrafa nein fríðindi án þess að fá eitthvað í staðinn.

Hvað er þá fengið nú með samningi þessum? Nú ætlaði jeg að sýna fram á það, að með honum er náð stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins frá 1908, sem er viðurkenning á fullveldi Íslands í konungsambandi við Danmörku.

Er þá, fyrst á það að líta, að 3 fyrstu greinarnar eru frásögn á því ástandi, er áður var, en eigi samningur. Það var alt áður lög á Íslandi, og er alt í lagasafni Jóns Sigurðssonar, nema auðvitað yfirlýsingin um, að Ísland sje frjálst og fullvalda ríki. Það hefir það altaf verið frá, 930, er ríki var hjer sett á stofn, og hefir það aldrei af því gengið. En hjer er því aðallega yfir lýst, sem viðurkenningu Dana fyrir því, að Ísland sje jafnfrjálst og fullvalda og sjálf Danmörk og bæði ríkin frjáls og fullvalda.

Þessi kafli heyrir því eigi til samningnum, að minsta kosti ekki 1. gr., og þess vegna er ekki átt við þetta í 18. gr., sem ræðir um það, að samningurinn geti fallið úr gildi. Með öðrum orðum, konungs-fjelagið er ekki samningsatriði. Hann er jafnsameiginlegur og áður. Er það í samræmi við niðurlagið á hinni nýju bók Ragnars Lundborge, þar sem segir, að hjer sje um hreint konungssamband að ræða. Jeg sá í ferð minni brjef, er Fr. von Liszt, sem oss má vera að góðu kunnur, hafði sent R. Lundborg. Segir Fr. von Liezt í brjefi því, að hann fallist að öllu leyti á röksemdir R. Lundborgs, sem fram komi í þessari bók, og sje í öllu sammála honum. En þar runnu öll hin sömu rök til sem til skýringar og samninga þessa máls. Má því telja vitnisburð þessara með því, að hjer sje um hreint konungssamband að ræða.

Jeg hefi þá sýnt, að afstöðu landanna, konunga-samfjelaginu, sje í engu breytt, heldur tekið upp það, sem verið hefir áður. Konungssambandið heyrir ekki samningnum til, því að hann er uppsegjanlegur. Vilji Danir halda því fram, að þetta sje hluti af samningnum, þá verða þeir að ganga inn á það, að 18. gr. eigi og við konungssambandið. Það sje þá og uppsegjanlegt. Þeir eiga völina.

Þá er samningurinn. Hann er verslun, sem gerið er við Dani. Íslendingar þurftu ekki að biðja Dani rjettinda. Vjer höfum átt þau og eigum enn. En þeim var haldið fyrir oss með því móti, að þau voru eigi viðurkend af öðrum en Íslendingum sjálfum og vinum þeirra erlendis, svo sem R. Lundborg, Fr. von Liszt, N. Gjelsvik og öðrum sagnfræðingum og fræðimönnum, einkum á Norðurlöndum. Má því segja, að vjer hefðum eigi þurft að kaupa viðurkenninguna af Dönum, heldur hefði mátt bíða þar til sú viðurkenning ryddi sjer til rums.

En þá er önnur spurning. Slík viðurkenning fræðimanna er ekki nægileg, ef Íslandi yrði kastað inn í landabrutl stórveldanna eftir ófriðinn. Fyrir mjer var það höfuðatriðið að afstýra þeim voða. Það vakti fyrir mjer að komast í höfn áður boðarnir fjellu saman yfir Íslandi. Og það varð gert með því að tryggja hlutleysi landsins. Því að þótt það sje vísindalega sjeð og sannað af nokkrum bestu vísindamönnum, að Ísland hafi sinn fulla rjett, þá dugir það ekki gegn yfirgangssömum stjórnmálamönnum, sem í ófriði eiga við Danmörku. Þeir mundu segja: »Þetta er hluti úr Danmörku. Jeg tek hann«. En það geta þeir ekki, ef Danmörk er búin að viðurkenna, að Ísland sje fullvalda konungsríki, en sje ekki hluti úr Danmörku, og þetta hefir verið birt öllum heimsins þjóðum. Sú athöfn, sem þar fer fram, er fyrsta tryggingin gegn hinni stærstu hættu og bráðustu, sem vel gat orðið slík, að hún sylgi Ísland um aldur og æfi, svo að því gæti aldrei upp skotið. En þetta tryggir þessi yfirlýsing:

»Danmörk tilkynnir erlendum ríkjum, að hún samkvæmt efni þessara sambandalaga hafi viðurkent Ísland fullvalda ríki, og tilkynnir jafnframt, að Ísland lýsi yfir ævarandi hlutleysi sínu og að það hafi engan gunnfána«.

Þetta mundi nú eitt nægja til að sýna og sanna hverjum fullvita manni, að hjer er um fullvalda ríki að ræða, er lýsir sjálft yfir hlutleysi sínu. Að öðrum kosti væri slík yfirlýsing apakattalæti, sem ekki væri takandi mark á.

Það er að vísu til um Kongó, að einhver hluti nýlendunnar er lýstur hlutlaus, en það er ekki nýlendan sjálf, sem gerir það, heldur er það ríkið sem forráðin hefir, er gefur yfirlýsinguna. Þetta eitt, »að Ísland lýsir yfir ævarandi hlutleysi sínu«, nægir til þess, að enginn maður í heimi ber brigður á, að þetta land, Ísland, sje fullvalda ríki. Annara er það skýrt og ótvírætt í I. kafla.

Raunar er í 7. gr. annari þjóð falið að fara með utanríkismálin, en það er í umboði, og sá, sem gefur umboðið, hann á rjettinn. Engum fræðimanni gæti því dottið í hug að láta sjer það um munn fara, að Danmörk ætti rjettinn. Hvort sem mönnum líkar betur eða ver, þá er það skýrt, svo að eigi verða brigður á bornar, að Ísland á »jus legationum« og »jus tractatuum« — sendiherrarjett og sáttmálarjett. Og það er fleira í greininni, er lýsir þessu, og má vera, að jeg komi að því síðar.

En jeg á eftir að geta um eitt. Það er rjetturinn til að ákveða stríð og frið (»jus belli ac pacis«). Hann er sýndur og sannaður í 19. gr. Því að hversu mundi nokkurt ríki lýsa yfir ævarandi hlutleysi sinu, ef það hefði ekki rjett til að ákveða stríð og frið? Það væri jafnmikið vit í því og að tala um kringlóttan ferhyrning, og geta þeir leikið sjer að því, sem vilja. Það, sem Danmörk viðurkennir, er skýlaust fullveldi Íslands, í konungssambandi við Danmörku. En fullveldið þýðir það, að ríkið ræður sínum málum að öllu leyti sjálft og ber fulla ábyrgð á þeim.

En nú hefir háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) reynt að halda því fram, að í samningnum sje aftur tekið af landinu fullveldi það, sem veitt er með 1. gr. og 19. En þetta er rangt, því að hversu illa sem honum líkar 6. gr., þá getur hún aldrei tekið af oss fullveldið, því að það er hvergi tekið fram, að Danir hafi nokkum rjett til að ákveða um atvinnumál hjer eða annað, fremur en Íslendingar um dönsk atvinnumál. Það eru rjettindi, sem ein fullvalda þjóð veitir annari hjá sjer, gegn, sömu rjettindum frá hinni þjóðinni, þær rjettindaveislur geta haft skaðlegar, fjárhagslegar afleiðingar, en aldrei skert fullveldið. Held jeg því óhætt að fullyrða, að það verði ekki hrakið, að hjer sje um að ræða fullveldi, skýlaust og skýrt og hvergi takmarkað.

Eitt atriði er enn, sem jeg vil leggja mestu áherslu á, en það er gerðardómur til þess að skera úr ágreiningi, er rísa kynni um samninginn eða einstök atriði hans. Þar í er það ákvæði, að stjórnir annara ríkja skuli beðnar að skipa oddamann, og er þar enn ljós sönnun fullveldisins.

Þetta er þá það, sem fengið er. Fullnæging þeirrar kröfu, er fylgt var fram af þeim íslenskum stjórnmálamönnum, er bestar gerðu sjer vonir og bjartsýnastir voru. En um leið er fengin trygging gegn því, að Íslandi verði kastað inn í landvinningadeilur stærri ríkja. Þeir hafa, Íslendingar, alt sitt á þurru landi. Íslendingar hafa með litlum tilkostnaði og án þess að úthella blóði náð meiru en aðrar þjóðir, sem þó hafa goldið afhroð mikið vopndauðra manna og þeirra, er farist hafa úr hallæri.

Þó að menn taki Finnland til samanburðar, þá er þó vitað, að fullveldi þeirra hefir kostað þá mikið blóð, og spá margra er, að þeir muni láta enn meira blóð um það er lýkur.

En það er satt, að vjer urðum að kaupa viðurkenningu þessa og tryggingu. Jeg gekk ekki að því af því, að mjer þætti það alla kostar gott. En jeg áleit rjett að sæta því færi, að kaupa sjer í hag, kaupa mikinn hlut og merkilegan við því, sem minna var um vert. En það er auðvitað alveg rjettmætt að spyrja: »Hví eruð þið að kaupa það, sem er ykkar eigin eign? Aðrir þurfa þess ekki«. En því er að svara, að Danir höfðu máttinn til þess að láta þetta ekki af hendi nema með því að fá eitthvað í staðinn. Því höfum vjer keypt þetta því verði, sem felst í 6. og 7. gr., og ýmsu barnagulli í öðrum greinum.

Jeg skifti þessu, er vjer höfum goldið, í tvo flokka:

1. Rjettindaveislur og

2. Barnagull.

Rjettindaveislur felast í 6. gr., sem þó háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir lagt meiri áherslu á en í raun og veru er rjett.

Allir geta nú enn sem áður haldið fram gamla kjörorðinu, Ísland fyrir Íslendinga, því að Dönum er ekki veittur meiri rjettur hjer en Íslendingum, sem flust hafa utan og tekið sjer bólfestu þar.

En þann rjett, sem vjer neitum þeim um, hann bönnum vjer Dönum líka.

Þeir verða því að sætta sig við allar þær takmarkanir, sem hið fullvalda íslenska ríki leggur á sína eigin borgara.

Hið eina er, að Danir og Íslendingar hafa jafnfrjálsa heimild til fiskiveiða hjer, en það breytir þó engu um, því að ef þeir vilja senda skip sín í land og verka fiskinn hjer, þá verða þeir að beygja sig undir löggjöf vora um atvinnurekstur, sem vjer í Danmörku.

Hjer er því engu tapað. Það getur verið, að hjer hafi skollið hurð nærri hælum, en fór þó svo, að ekki varð eftir nema kápan; Sæmundur komst út.

Óhagur sá, sem talið er að vjer bíðum í þessum sökum, fer eftir því og verður að miðast við, hvernig fara mundi, ef vjer gengjum ekki að samningunum.

Jeg skal játa það, að hefðum vjer átt kost á að fá hlutleysisviðurkenningu og skilnað, án þess að leggja nokkuð fram, þá er Dönum mikið veitt með þessu. En hefðum vjer lýst yfir skilnaði og getað fengið viðurkenningu stórþjóða, gegn einhverjum fríðindum, þá er eigi víst, að vjer hefðum þar gert betri kaup. En hefði nú ekkert fengist, þá er ekki sagt, að betur hefði farið.

Setjum svo, að alt hefði setið í sama farinu og þm. hefðu farið heim til búa sinna og beðið.

Hvernig hefði þá, farið?

Danir hefðu haldið sínum rjettindum hjer, svo sem þau hafa verið í framkvæmdinni, og borgararjetturinn verið talinn danskur áfram, eins og verið hefir.

Og þá er ekki sagt, hve lengi þjóðin hefði mátt bíða eftir eins góðu tækifæri og nú er, til að ná rjetti sínum.

Danir hefðu þá haft öll þau rjettindi, sem þeim nú eru veitt og meira til, en vjer ekkert á móti.

En í stað þess hafa Danir nú þann rjett að eins í 25 ár og láta oss í tje sama rjett hjá sjer á móti og fullveldisviðurkenningu.

Sá sem segir að hjer sje illa verslað, hann versli betur sjálfur og sýni að minsta kosti fram á það með rökum, að hægt sje að fá fulla viðurkenningu fyrir minna.

Fyr ber ekki að lasta það, sem hjer hefir gert verið.

Þá taldi háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) 8. gr. verri en tilsvarandi ákvæði frv. 1908. Það skýrði hæstv. forsætisráðh., svo að jeg þarf ekki að eyða orðum þar að. Vil jeg að eins benda á það ákvæði nú, að Íslendingar geta tekið að sjer varnirnar er þeir vilja, og er þar þó betur farið en í frv. 1908. En fiskirjetturinn er bundinn ákveðnu tímatakmarki.

Um búsetuna hefir það áður verið tekið fram, að þeir Danir, sem verka vilja fisk sinn hjer, verða að hlíta sömu skilyrðum sem Íslendingar sjálfir.

Þá skal jeg geta þess, að til tals kom í sumar hjá nefndunum búseta og selstöðurjettur. Mintu Danir þá á atkvæðisrjettarskilyrðin, sem ákveðinn er 5 ára búseta, eftir stjórnarskránni, og kváðu þörf að samræmt væri við samninginn.

Töldum við þess þörf að samræma íslensk lög samningnum og þá dönsk eigi síður, og tækju þeir þá líka úr lögum búsetuskilyrðin hjá sjer, svo að vjer gætum setið hjer og t. d. verslað í Höfn.

En það vildu þeir ekki gera, en sögðu, að vjer gætum sett þau sömu skilyrði fyrir atvinnurjetti hjá oss, og er það rjett, því að hver mundi banna oss það? Ekki þeir þrír aðiljar, sem gætu bannað slíkt, þingið, stjórnin eða konungur. — Í samningunum er það hvergi bannað.

Það er því langt frá því, að Dönum sje heimiluð selstöðuverslun hjer, þar sem vjer höfum fulla heimild til að setja búsetu sem skilyrði fyrir atvinnurekstri hjer á landi. Miklu fremur er samningurinn hvöt til þess að setja slík skilyrði.

Þá hefði einhvern tíma þótt eitthvað til þess koma að geta á næsta þingi samið lög um íslenskan hæstarjett o. fl.

Þá kem jeg að fjárhagsatriðinu. Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) má ekki halda, að við höfum ekki vitað rjett um fjárhagsviðskiftin, en þar sem sitt sagði hvor aðili, — Danir hjeldu því fram, að Íslendingar skulduðu Dönum, og við hinu gagnstæða — þá var engin von um áhrif neinnar röksemdaleiðslu.

En frjálsræði og fullveldi Íslanda gat jeg ekki metið við fje. Niðurstaðan varð því sú, að við gengum að þessum 2 miljónum.

Höfum við þá gefið Dönum ½ miljón, ef Garðstyrkurinn er talinn 1 miljón.

En nú er Garðstyrkurinn ekki horfinn úr sögunni, þar sem annari miljóninni á að verja til þess að efla íslensk vísindi og styrkja íslenska námsmenn. Gjöfin til Dana verður því ekki svo stórvægileg.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) las ekki nema fyrri lið greinarinnar. Hann las ekki upp ákvæðið um þau rjettindi, sem oss eru þar veitt.

En jeg lít svo á, að andlegt samband milli Dana og Íslendinga eflist því betur, sem jafnar er á komið.

Jeg tel því orðin um efling andlegrar samvinnu ekki miða til þess að semja Íslendinga að Dana siðum, heldur til að efla sjálfstæði þeirra og mentun.

En stjórn og framkvæmd sjóðsins hjer heima er í höndum mentamálaráðherra og háskólana, og sama er fyrirkomulag sjóðsins í Höfn, en báðum skal verja til að styrkja íslenska mentun og mentamenn.

Þá talaði háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) mikið um 16. gr., en jeg ætla., að hæstv. forsætisráðherra hafi svarað því til fullnustu.

Annars lít jeg svo á, að nefnd þessi verði áhrifalaus, að minsta kosti hættulaus.

Jeg get ekki sjeð, að þremur Íslendingum ætti að vera það um megn að standa á móti þremur Dönum. En þótt hjer sje verið að samræma löggjöf tveggja ríkja, þá er hættan við það ekki meiri fyrir Íslendinga en Dani.

Þá vil jeg stuttlega minnast á 18. gr.

Það hefir verið gert að grýlu atkvæðamagnið, sem þar er ákveðið til þess, að samningsslit geti orðið. Jeg skal játa, að mjer var ákvæði þetta óljúft, en gekk þó að því, þar eð jeg áleit það ekki hættulegt.

Um fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar eru engin skilyrði sett, og væri því eðlilegast, að menn greiddu atkvæði á heimilum sínum. Gætu svo trúnaðarmenn stjórnarinnar farið bæ frá bæ og tekið atkvæðin, og mundu þá lítil vanskil á verða atkvæðagreiðslunni.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) mintist síðast á 7. gr., en hjá mjer er hún efst á blaði. Var mjer það óljúft að fela Dönum að fara með utanríkismál vor.

En það er fjarri sanni, að vjer höfum eingöngu undirtyllur í utanríkisstjórninni, þar sem vjer höfum þar trúnaðarmann og erindreka, sem alls ekki standa undir Dönum.

Geta Íslendingar því látið í ljós kröfur sínar og lagt sinn dóm á, hve vel sje farið með utanríkismálin. Og ekki er það óhugsandi, að utanríkisráherranum danska tæki að eymast, ef hann ræki svo illa erindi Íslendinga, að þeir lýstu á honum vantrausti sínu.

Auk þess geta Íslendingar sent erindreka sína hvert sem vill til samninga um sjerstök Íslandasmál, og loks er þess að gæta, að þótt ekki megi segja samningunum upp fyr en eftir 25 ár, þá getur hvort ríkið sem er sagt upp öllum samningunum hve nær sem vill, ef hitt brýtur eitthvert atriði þeirra. Það er alþjóðarjettur, sem gildir hjer sem annarsstaðar um samninga milli ríkja.

Jeg verð svo að láta úttalað um þessi atriði, þótt langt sje fra, að tæmt sje efnið.

Jeg skil ekki, hvert gaman menn hafa af að bera saman frv. 1908 og nú 1918.

Nú er konungur einn sameiginlegur. Þá var auk þess sameiginleg konungsmata, utanríkismál og hermál.

Eftir því voru Íslendingar komnir í ófrið með Dönum, ef ófrið bar að höndum. Eftir samningunum nú hafa þeir lýst yfir ævaranda hlutleysi og eru gersamlega lausir við hermál sambandaríkisins. Og sáttmála- og samningarjettinn höfum vjer, sem fyr segir.

Jeg vil nú segja það, að þeir, sem hugsa svo stórt, að þeir telja þetta smátt, þeir ættu að hugsa um stærri lönd en Ísland.

Að mínum dómi eru það stærstu atriðin, friðurinn og samningafrelsi við aðrar þjóðir. Það eru skilyrðin fyrir velmegun og þróun í landinu.

Jeg vil ekki leggja orð í belg um það, hve nauðsynlegt sje að flýta þinginu; mjer er sama, hvort það situr í ½ mánuð eða mánuð.

En hjer er ýmislegt annað en sjálfir samningarnir, sem ræða þarf.

Það er t. d. ekki sama, hver framkvæmd verður á ýmsum hlutum, þegar þeir eru gengnir í gildi.

Hið fullvalda ríki, Ísland, þarf að taka sjer eitthvert skjaldarmerki eða ríkismerki.

Fálkamerkið, sem Alberti hjálpaði oss um, er naumast svo þjóðlegt, að ástæða sje til að taka það upp. En þess er getið í fornum fræðum, að þegar Haraldur Gormsson sendi hingað Finna fjölkunnugan, til að sjá, hversu árennilegt væri landið, þá mættu þeim vættir fjórar, af Reykjanesi tröllkarl einn mikill með járnstöng mikla í hendi, af Breiðafirði graðungur, er gelldi hátt, af Vestfjörðum gammur og af Austfjörðum dreki. En þar höfum vjer fjórar landvættir, sem gætu sómt sjer vel í skjaldarmerki ríkisins.

En hvað sem samþykt verður um þetta, þá er full þörf á, að eitthvað verði ákveðið.

Hver sendimaður Dana, sem á, að fara með mál vor eftir umboði voru, verður að hafa á húsi sínu skjaldarmerki og fána Íslands, svo að önnur ríki venjist sem fyrst við að hugsa sjer Ísland fullvalda konungaríki.

Maðurinn þyrfti og að hafa skjöl og skilríki fyrir því, hvað hann ætti að vinna, umboð frá íslenska ríkinu. Alþingi þarf einnig að ákveða um það, hvort ekki væri rjett að krýna þann konung, sem er fyrstur konungur Íslands að rjettum lögum, svo og með hvaða hætti nafn Íslands sje tekið upp í titil konungs; einnig þarf að gera mun á þeim fána, er tákna skal ríkisheildina, og hinum, sem verslun og viðskifti þjóðarinnar verða rekin undir, og enn þarf sjerstakan konungsfána, því að sinn eigin fána þarf konungur Íslands að hafa, þar sem hann er forstöðumaður hins íslenska ríkisvalds, þótt ekki verði hann flotaforingi hjer í landi. Margt kann að vera fleira, sem þarf að íhuga nákvæmlega, og geta aðrir þingmenn bætt því við, sem mjer hefir láðst að telja. Þessum hlutum er svo farið, þótt heimspekingum þyki ekki mikils um þá vert, að heimurinn með öllum sínum siðum leggur mikla áherslu á þá. Þetta er ekki nema eitt af mörgu í siðafari allra menningarþjóða, sem allir verða að beygja sig fyrir; þarf jeg ekki að nefna annað til samanburðar en þá venju, að maður taki ofan fyrir manni í kveðjuskyni, og þykir það skylt hverjum kurteisum manni. Væri það lítt sæmandi, að Ísland kæmi þar til fundar með prjónaða kollhúfu, þar sem önnur ríki væru fyrir með kórónu á höfði.

Jeg get fátt sagt um það, hvort fundargerðir samninganefndarinnar verði birtar og öll tildrög þessa máls. Jeg hefi verið að heiman nú um stund og veit ekki, hvort það hefir verið undirbúið, eða yfir höfuð ákveðið, að slík bók verði gefin út. Um þetta hefi jeg ekki annað að segja en að jeg hefi ekkert á móti, að alt verði birt um það, hvernig samningarnir gengu frá upphafi.

Það er ólíku saman að jafna nú og 1908. Þá var engin hætta á ferðum, þótt dregist hefði, að sambandslög gengju í gildi. En nú eru knýjandi ástæður til að flýta því sem má. Í nefndinni var það mín tillaga, að samningurinn gengi í gildi 1. nóvember.

Við það er jeg hræddastur, að Danir lendi í ófriðnum áður en þeir geta birt hann fyrir öðrum þjóðum. Það mundi lítið þýða að benda á samning, sem við ætlum að gera, ef óvinaþjóð Danmerkur legði á okkur hramminn. »Okkur varðar ekkert um, hvað þið ætluðuð að gera. Þið voruð ekki búnir að því«, mundi svarið verða.