26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

26. mál, laun embættismanna

Magnús Guðmundsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma með fáeinar brtt., á þgskj. 494, og skal jeg skýra frá ástæðum til þess.

Eins og háttv. deild eflaust rekur minni til, flutti fjárhagsnefndin á öndverðu þingi, eftir tilmælum stjórnarinnar, frv. um breytingu á póstmálum landsins. Við umr. um þetta frv. tók jeg það fram sem framsögumaður, að jeg ætlaðist til, að nefndin í launamálinu breytti launafrv. í samræmi við hin nýju póstlög. Þetta hefir nefndin ekki gert, og hefi jeg því talið mjer skylt að koma með brtt., til þess að samræma launalögin við póstlögin. Till. hefi jeg sniðið eftir frv. stjórnarinnar, með hliðsjón af breytingum á póstmálunum, enda skildist mjer háttv. frsm. (Þór. J.) ganga inn á till. mínar, og sje jeg því ekki betur en að nefndin geti tekið brtt. sínar við 15. gr. aftur.

Jeg hefi gert ráð fyrir 500 kr. hærri launum hjá póstmeistaranum í Reykjavík vegna þeirrar ábyrgðar, sem hann verður að bera á peningum póstsjóðs.

Tilefnið til 1. og 2. brtt. minnar er það, að jeg tel Skaftafellssýslu svo örðugt umdæmi, að telja verði hana í fyrra flokki hvað launin snertir. Og mjer skildist á hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að hann hefði ekkert við þær brtt. að athuga.

Þá skal jeg geta þess, að þegar jeg sá 33. gr. frv., þá skildist mjer, að ákvæðin um launauppbótina ættu við alla embættis- og starfsmenn landsins, en þetta virðist ekki vera skoðun hæstv. forsælisráðherra. Jeg held því, að breyta verði orðalaginu þannig, að greinin verði ekki misskilin, og taka fram, að hún nái að eins til þeirra, sem frv. nær til.