08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

26. mál, laun embættismanna

Magnús Kristjánsson:

Háttv. frsm. (K D.) gat þess, að hann hefði heldur kosið, að brtt. hefðu legið fyrir frá þm., en fyrirspurnir og bendingar til nefndarinnar. Jeg lít svo á, að það sje kurteisari aðferð að fara fyrst þá leið að bera sig saman við nefndina og vita, hvort samkomulag geti orðið án þess að brtt. komi fram, er oft gefa orðið um of að kappsmáli.

Þess vegna kaus jeg heldur að koma fram með bendingar, og get jeg ekki annað sagt en að þær hafi borið góðan árangur, þar sem háttv. frsm. (K. D.) hefir lýst yfir því, að þær verði að nokkru leyti teknar til greina.

Það vakti fyrir mjer að flokkun sýslnanna væri af handahófi, og áleit jeg nóg að hafa 2 flokka, en ef hafðir eru fleiri flokkar, kemur varla til mála, að fleiri en 3 sýslur sjeu í 3. flokki, en þær eru Rangárvallasýsla, Dalasýsla og Strandasýsla. Þetta er mitt álit, sem jeg vildi beina til nefndarinnar, og þá einnig um leið, hvort ekki væri vastursminna að hafa að eins 2. flokka.

Vegna þess, að bendingar frá mjer hafa borið góðan árangur, skal jeg leyfa mjer að skjóta einni bendingu enn til nefndarinnar.

Samkvæmt 8. brtt. hennar er lagt til, að orðin: „frá 1. október 1914“ falli burtu, og er það í sjálfu sjer eðlilegt. En ef ekkert kemur í stað orðanna, finst mjer verða þarna hálfgerð eyða, og fæ jeg ekki sjeð, við hvað á að miða. (K. D.: Það kemur seinna). Það má vel vera, en svo kemur fram brtt. háttv. þm. Snæf. (H. St. ), og þar er lagt til, að í stað „í 4 aðalkaupstöðum landsins“ komi „í Reykjavík“. Verði sú brtt. samþ., þá stendur eftir „1914“, og getur það ekki samrýmst orðalaginu að framan, ef brtt. nefndarinnar verður samþ. Vildi jeg, að nefndin athugaði þetta. En auðvitað fer þetta eftir því, hvað samþykt verður.

Skal jeg svo leyfa mjer að benda á, viðvíkjandi 12. gr., að mig furðar á, að aukalæknirinn á Ísafirði skuli hafa verið tekinn upp í launafrv. Starfi þessi hefir aldrei verið skoðaður sem fast embætti.

Vil jeg beina til nefndarinnar, hvort hún vill ekki athuga þetta atriði, og mun jeg grenslast eftir áliti hennar um það, hvort hún vilji láta nema þennan lið úr 12. gr. eða ekki. Fari svo, að hún komist að þeirri niðurstöðu, að þessi liður skuli haldast óbreyttur, mun jeg annaðhvort koma fram með brtt. þess efnis, að hann falli burt úr launafrv. og komi í fjárlögin, eða með viðaukatillögu um, að öðrum lækni verði bætt við, sem líkt stendur á með.

Skal jeg svo ekki orðlengja frekar um þetta að þessu sinni, þar sem það er ekki vani minn að lengja umr. að óþörfu.