28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sigurður Stefánsson:

Jeg skal taka fram strax, að jeg er hjer ekki staddur í neinu eldhúsi og mun heldur ekki inna af hendi nein eldhússtörf að þessu sinni; og er það ef til vill að nokkru leyti af sömu ástæðu og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók fram. Auk þess er svo ástatt um mig, að jeg þóttist hafa gert hreint fyrir mínum dyrum á síðara aukaþinginu í fyrrasumar. Og jeg skal játa, að jeg lít svo á, sem þær aðfinslur mínar hafi ekki orðið árangurslausar. Og jeg get glaðst af því, að svo virðist, sem hæstv. stjórn hafi bætt ráð sitt nú í seinni tíð, og jeg er svo hjegómagjarn, að jeg álít, að alvöruorð mín þá hafi átt ekki hvað minstan þátt í því.

Jeg skal ekki fara út í það, hvort það hefir verið af eigin hvötum eða af betri aðstöðu, að hæstv. stjórn hefir nú á þessum síðustu alvörutímum verið svo heppin að fá betri menn sjer til aðstoðar en áður hafði verið, alt frá byrjun ófriðarins.

Það voru nú að eins smáfyrirspurnir, sem jeg vildi beina til hæstv. stjórnar.

Firsta atriðið var um eina af þeim ófriðarráðstöfunum, sem hún á sínum tíma gerði. Það var um skipun verslunarfulltrúans í Lundúnum, sem verið hefir þar nokkur undanfarin ár. Var hann upphaflega skipaður af því, að stjórnin taldi nauðsynlegt að hafa þar mann til að gæta hagsmuna landsins í verslunarsökum, meðan ófriðurinn stóð. Út á það var ekki neitt að setja, því að ekki mun hafa af veitt að gæta þess sem best.

En það þykir mjer undarlegt, að nú, þegar ófriðurinn er út í, þá skuli þessi maður, sem sjálfsagt hefir 18–20 þús. kr. í laun, vera látinn sitja þar eftir sem áður, þótt vitanlegt sje, að verkefni hans er lokið.

Um ástæðurnar til þessa væri mjer kært að fá upplýsingar hjá hæstv. stjórn og yfirleitt um það, hver nauðsyn er á að láta þennan hálaunaða mann sitja þar nú.

Annað atriðið var þær ráðstafanir hæstv. stjórnar, sem hún gerði með reglugerð, er hún setti 10. febrúar síðastliðinn vetur. Hafa þær ráðstafanir víða mælst illa fyrir, og hafa margir þingmálafundir látið í ljós vanþóknun á þeim.

Jeg skal nú játa það, að jeg álít verslunarráðstafanir hv. stjórnar, síðan ófriðurinn hófst, hafa flestar haft við mikla nauðsyn að styðjast.

En hitt er undarlegt, að þegar sú nauðsyn hverfur úr sögunni að ófriðarlokum, þá skuli stjórnin halda áfram slíkum ráðstöfunum, sem jafnvel geta stafað vandræði af í landinu.

Þessi reglugerð, sem jeg mintist á, heimilar stjórninni einkasölu á nauðsynjavörum, aðallega korni, til 1. okt. í haust.

Af því hlýtur að leiða, að verslunarstjett landsins flytur ekki inn vörur þessar. Henni er meira að segja bannað að selja aðrar kornvörur en þær, sem landsstjórnin lætur flytja inn, til ársloka.

En af þessu hefur vaknað sá ótti hjá þjóðinni, að skortur kunni að verða á vörum þessum í vetur.

Það er að minsta kosti mikið undir því komið, hve dugleg stjórnin verður í því að dreifa vörunum út um land á allar hafnir áður en tíð versnar og tepst geta samgöngur. Það væri líka ver farið en heima setið, ef hömlur þessar yrðu til þess, að vöruskortur yrði.

Það er að vísu sagt, að landsverslunin sje vel birg að vörum þessum, en það gagnar lítið, þó nóg sje til af þeim hjer í Reykjavík, ef hafís kæmi og samgönguteppa.

Hjer er því alt undir því komið að ganga vel fram í því að dreifa vörunum út á hafnir landsins, svo að ekki yrði vöruskortur ef samgöngur teptust við strendur landsins.

Auk þess er líka þess að gæta, að um leið og stjórnin einokar einhverja vörutegund, þá er það brýn skylda hennar að gæta þess, að nóg sje til af vörunni. En í vor sem leið var þó misbrestur á því. Þá var svo ástatt í sumum bygðarlögum, að lífsnauðsyn var að ná í rúgmjöl til fóðurbætis, þar sem menn voru þrotnir að heyi, en það var þá alveg ófáanlegt og hefði ekki batinn komið svo fljótt sem var, mundi víða hafa illa farið. En það fór nú sem fyr, að drottinn tók í taumana, hvað sem gerðum hæstv. stjórnar leið (Fjármálaráðh.: Drottinn var með stjórninni). Hann var að minsta kosti með landsmönnum.

Stjórnin verður að gæta vel allra þarfa landsmanna og koma í veg fyrir það, að vandræði geti hlotist af því, að verslunin er ekki gefin frjáls og aðflutningur allur.

Síðan friður komst á hafa landsmenn vonað, að verslunin yrði smám saman leyst aftur úr böndum. Þeir eru orðnir svo vanir frjálsri verslun, að þeir geta ekki sætt sig við hömlur þessar, nema brýn nauðsyn beri til.

Þess vegna hefir orðið svo tíðrætt um það, hve nær hæstv. stjórn muni sjá sjer fært að sleppa afskiftum sínum af verslun landsins, svo frjáls samkepni komist á aftur, með þeim hlunnindum, sem hún hefir í för með sjer.

Á þingmálafundum í vor var víða rætt um þetta. Menn vildu fá að vita, hve lengi stjórnin ætlaði sjer að hafa hana í sínum höndum.

Eftir reglugerðinni frá 10. febrúar má ætla, að stjórnin ætli sjer að sleppa versluninni um áramót.

Það væri nú gott að fá að vita, hvort svo er eða ekki. Og það væri mikilsvert fyrir þm. að fá þau svör áður en þeir fara heim af þingi, svo að þeir geti sagt kjósendum sínum.

Um kolaeinokunina skal jeg ekki fjölyrða. Jeg býst við, að hæstv. stjórn hafi neyðst til þeirra ráðstafana til þess að jafna halla þann, sem á var orðinn. En margir búast við, að þess verði ekki langt að bíða, að sá jöfnuður fáist svo að verslunin á því sviði verði gefin frjáls aftur.

Og það get jeg heldur ekki skilið að stjórnin haldi þessum ráðstöfunum áfram lengur en hún er knúð til þess. Til þess yrði hún þá að leita samþyktar Alþingis. Því að án samþyktar þeirrar getur hún ekki haldið áfram einokun á ýmsum vörutegundum, þegar ófriðarástæðurnar til þess eru horfnar.

Það má að vísu margt segja með og móti því, hvort ríkiseinkasala á ýmsum vörutegundum sje hentug eða ekki. En það er víst, að stjórnin getur ekki haldið henni áfram án leyfis þingsins. Annars þykir mjer vanta sem tíðastar skýrslur frá stjórninni um hag landsverslunarinnar. Það er eins og lokuð bók fyrir öllum, hvernig henni hefir gengið frá upphafi og hvernig hún muni enda.

Háttv. frsm. fjárhagsn. (M. G.) lýsti því reyndar yfir, að hún ætti miljón kr. í varasjóði, og bendir það á, að hún sje nú á góðum vegi með að bæta upp mistök fyrri ára. (Forsætisráðherra: Hún hefir aldrei tapað). Hitt er þó víst að þá voru ærin mistök á rekstri hennar. (Fjármálaráðherra: Hún stórgræddi). Það er gott ef svo er, og því meiri sem gróðinn er, því fyr ætti að takast að ljetta böndunum af verslun landsins.

Það sem landsmenn óska er skýrsla um, hvernig hagur landsverslunarinnar sje og ef á að halda henni áfram, hvaða nauður rekur til þess. Hver veit nema endirinn verði sá, að ríkissjóði hlotnist mikill gróði, og væri ekkert að því, þótt margir líti svo á að landsverslunin hafi ekki verið stofnuð í gróða skyni heldur sem nauðsynlegt bjargráð. Jeg hefi ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta mál. Jeg óska eftir svari hæstv. stjórnar, í fyrsta lagi viðvíkjandi erindrekanum í Lundúnaborg og hversu lengi hann skuli þar vera, og í öðru lagi hversu lengi stjórnin ætli að hafa einokun t. d. á kolum, eða með öðrum orðum, jeg býð eftir skýrslu frá stjórninni um hag landsverslunarinnar yfir höfuð og fyrirætlanir stjórnarinnar henni viðvíkjandi.