18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

26. mál, laun embættismanna

Bjarni Jónsson:

Jeg gat ekki stilt mig um að standa upp til þess að dást að, hversu háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) er góðgjarn og vitur í tillögum sínum. Hann getur nú ómögulega sjeð í friði, að prestarnir fái 2/3 uppbótarinnar, eins og hv. Ed. ætlaði þeim. Hann er þó svo nærri sveit, að honum ætti að vera kunnugt um, hver hlunnindi eru að búskapnum á þessum árum. Það er nú orðið einn prestur í Dalasýslu, og nægja ekki laun hans nú til þess að borga vinnumanni. Þó hann fengi nú laun samkvæmt launalögunum, og auk þess uppbótarinnar, þá mundi það, sem eftir yrði, er hann hefði goldið vinnumanninum, ekki vera of mikið fyrir hann.

Eitt var einkar vel og skarplega hugsað hjá háttv. þm. (Sv. Ó.). Það var það, að prestar í sveit gætu átt hluti í botnvörpungum og öðrum arðvænlegum fyrirtækjum. Það er alveg nýlega athugað, að eftir því eigi að fara, hvort menn eigi í fyrirtækjum. En er það nú líklegt, að prestar hafi mikla peninga aflögum til þess að leggja í slík fyrirtæki. Þeir kosta sig til náms 10–12 ár, og þegar þeir svo lúka prófi, hafa þeir skuldir á baki, fara svo í hin feitu embætti með 1300 kr. launum, sem fara til þess að borga einum vinnumanni. Skyldu nú slíkir menn hafa fje aflögum til þess að leggja í gróðafyrirtæki? Hlægileg er þessi kenning háttv. þm. (Sv. Ó.) og lík honum sjálfum. Hitt skil jeg betur, að bændur geti safnað og lagt fje í slík fyrirtæki. Þeir hafa margir fengið fje og jarðir að erfðum, eða hafa búið sig undir búskapinn með langri vinnumensku. En hvað brúka nú menn, sem eru að læra í 10 ár eða 12? Það er ekki of í lagt, þótt 1000 kr. eyðist slíkum manni á ári, og verða það í 12 ár 12000 kr. Þetta hafa þessir menn lagt út í beinum peningum, en nú má gera ráð fyrir, að annað eins hefðu þessir menn getað unnið sjer inn þessi árin og ættu því að eiga um 24000 kr. Þetta ættu því ólærðir menn að eiga, sem engu hafa til sín kostað, en altaf unnið eins og húðarjálkar. Þeir ættu því að hafa getað lagt í arðvænlegt fyrirtæki. Það er því alllangt frá því, að prestar sjeu svo vel settir, sem bændur og aðrir ólærðir menn, og ætti því þessi hv. þm. (Sv. Ó.) að geta sjeð þessa 2/3 í friði.