15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

29. mál, siglingalög

Einar Arnórsson:

Þetta atriði um hlutaeign, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) mintist á, er tekið eftir norskum og sænskum lögum, og er til bóta.

Mjer er óhætt að fullyrða, að öll samninganefndin hafi verið sammála um það, að þessi skrásetningarrjettur gæti ekki verið gagnkvæmur. Enda höfum við ekkert gagn af að skrásetja skip okkar í Danmörku.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hjelt, að það væri seinleg ófriðarráðstöfun að koma skipi undir íslenskan fána, þar sem eins árs búseta væri skilyrði fyrir þessum rjetti. Jeg er ekki alveg á sama máli. Nú í stríðinu hefðu Þjóðverjar t. d. vel getað komið skipum sínum hingað í stríðsbyrjun og látið þau bíða hjer fyrst eitt ár, áður en þeir öðluðust þennan rjett. Hitt er annað mál, hvort þetta hefði verið heppilegt fyrir verslunarviðskifti okkar landa á milli.

Jeg skal ekki fara nánar út í þá sálma, hvort varðskip gæti greint þau skip, sem hefðu rjett til að veiða í landhelgi frá hinum, er ekki hefðu þennan rjett. Jeg er hræddur um, að erfitt reyndist að hafa fult eftirlit með því í framkvæmdinni.

Og jeg býst við því, að það yrði litið svo á, að hvert skip, sem fengið hefði heimild til að sigla undir íslenskum fána, mundi og hafa fengið heimild til að fiska í landhelgi jafnt alíslenskum skipum. Er það ekki svo, að Svíar og Norðmenn hafi að undanförnu leikið það, að fá skip sín skrásett hjer, annaðhvort í skjóli einhvers Íslendings og undir hans nafni, eða tekið sjer bólfestu hjer að nafni til? Og þetta hafa þeir gert til að njóta sömu rjettinda sem Íslendingar til að fiska í landhelgi, og eigi mun lögum samkvæmt bann hafa orðið lagt við því. Mundi ekki eins fara enn, að menn, sem hjer hefðu verið búsettir eitt ár, má ske að eins í orði kveðnu, ljetu skrásetja skip sín hjer og mundi það verða talið brot á landhelgislögunum, þótt þeir þá fiskuðu í landhelgi? Jeg býst ekki við, að svo yrði talið. Það er ekki gott að segja um hvort meira muni metinn rjetturinn til alþingiskosninga, eða rjetturinn til að fá skrásett skip hjer. En trúað gæti jeg því, að ýmsir praktiskir atvinnurekendur mundu meta skrásetningarrjettinn meira, og þeir teldu sjer hann arðvænlegri en hin rjettindin.