19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Eggert Pálsson):

Það eru nokkuð margar brtt. við þennan kafla. — Aðalbreytingarnar eru frá fjárveitinganefnd, á þgskj. 846, og eru frá 5. að 34. lið.

Í fyrstu brtt. er ekki um hækkun á fjárútlátum að tefla. Það er að eins farið fram á, að landlæknir fái skrifstofukostnað sinn borgaðan eftir reikningi. — Er það í samræmi við það, sem áður hefir verið samþ. hjer í háttv. deild, og mun jeg ekki færa fleiri ástæður fyrir því máli.

6. brtt. er um styrk til Þingvallahreppsbúa til að vitja læknis. Það er um svo lítilfjörlega upphæð að ræða, að ekki virðist ástæða til að fara mörgum orðum um það atriði. Nefndin tók það upp, af því að henni virtist það sanngjarnt, er borið er saman við aðra hreppa, sem líkan styrk hafa fengið. — Þarna er miklum örðugleikum bundið að ná til læknis, einkum þó til hjeraðslæknisins, sem býr austur í Skálholti. Hestar eru þar afarfáir; held jeg, að enginn hafi þar eldishesta nema presturinn, sem er neyddur til þess vegna annexíu.

7. brtt. fer í þá átt, að lækka útgjöldin. Háttv. fjárveitinganefnd Nd. hefir haft þá reglu, að tvöfalda laun aukakennara háskólans. Augnlæknirinn hefir haft 1500 kr., en hinir 1000 kr. hver. Hefir nefndin því hækkað augnlækni upp í 3000 kr., en hina í 2000 kr. Upprunalega mun þessi mismunur hafa verið gerður vegna þess, að menn hafa búist við að augnlæknir mundi fá litla praxis. En nú hefir það sýnt sig, að hann hefir ágæta praxis, og virðist því ekki vera ástæða til að láta hann hafa þriðjungi hærri laun en hina. Eigi mun hann heldur gefa fleiri tíma við háskólann í sinni grein en þeir hinir hver um sig.

Þá má taka þrjár næstu brtt. í einu; þær fara allar fram á hækkanir á tillaginu til sjúkrahúsanna. Þær hafa að sjálfögðu þá afleiðingu, þó eigi hafi þess verið getið í nefndarálitinu, að upphæðin öll samlagningardálki breytist, og verður skrifstofan að taka það til greina. Upphæðir þessar eru mismunandi háar vegna þess, að eigi eru jafnmargir á hverjum stað, sem eiga að njóta góðs af tillaginu. Flestir eru á Vífilsstöðum, en þó er viðbótin þar minst, en það stafar af því, að læknir spítalans hefir á áætlun sinni gefið upp hærra kaup handa fólkinu en það hefir haft á yfirstandindi fjárhagstímabili. Á Vífilsstöðum er ætlast til að bætt sje við ráðsmann, yfirhjúkrunarkonu og ráðskonu, skrifstofumey og tvær hjúkrunarkonur. En laun þeirra eru nú: Ráðsmanns 900 kr., yfirhjúkrunarkonu 800 kr., ráðskonu 600 kr. skrifstofumeyjar 480 kr. og hjúkrunarkvennanna 420 kr. hjá hvorri. Eigi virðist samt ástæða til að hækka þetta meira en brtt. segir til, af ofangreindum ástæðum, þeim ástæðum, að læknirinn hafði sjálfur gert í áætlun sinni ráð fyrir nokkurri hækkun.

Á Kleppi eru að eins tvær konur, yfirhjúkrunarkona með 1000 kr. launum og ráðskona með 300 kr. launum, sem ástæða sýnist til að bæta við, því hjer er slept vinnufólki því, sem ekki er ráðið til lengri tíma.

Á Laugarnesi er ætlast til að bætt sje við yfirhjúkrunarkonu, sem nú hefir 1000 kr., ráðskonu, sem hefir 600 kr., og tvær hjúkrunarkonur, er nú hafa 300 kr. hvor.

Þá skal jeg minnast á brtt. háttv. þm. Snæf. (H. St.). Hún fer fram á styrk til þriggja hreppa til að sækja lækni. Nefndin lítur svo á, að ekki sje ástæða til að hafa á móti henni.

Þá er 11. brtt. nefndarinnar, um styrk til sjúkrahússins á Patreksfirði. Á það er ekki minst í nefndarálitinu, svo jeg verð að gera það í framsögunni. — Háttv. þm. Barð. (H. K.) fór fram á, að þessi styrkur yrði veittur, en fjekk því eigi framgengt í háttv. Nd.

Í brjefi, sem fjárveitinganefndinni barst, er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn við viðgerð hússins nemi 5–6 þús. kr., og þar sem fjárveitinganefnd veit, að brýn nauðsyn er á sjúkrahúsi á þessum stað, einkum vegna útlendra sjómanna, er sækja þangað mikið, og sú aðsókn má gera ráð fyrir að fari vaxandi eftirleiðis, þegar siglingar byrja að nýju, taldi hún ekki rjett að skella skolleyrunum við þessari beiðni, enda var henni hins vegar kunnugt um, að kringumstæður sveitarfjelaganna — sjerstaklega Patreksfjarðar, vegna mishepnaðrar rafveitu — eru þannig, að þau geta tæplega risið undir útgjaldabyrðinni. — Hjer er þó að eins um helming kostnaðar að ræða, og fara þau því ekki varhluta af honum.

Þá kem jeg að 13. gr. — Jeg skal taka strax fram, að fjárveitinganefnd Nd hefir borist erindi frá stjórn sambands starfsmanna ríkisins, sem við höfum ekki athugað enn, en munum athuga til 3. umr., þess efnis, að upphæð liðarins A 1. b. 2. fái að standa óhögguð, með þeirri aths., að hún skuli ganga til að launa póstmönnum utan Reykjavíkur, Akureyrar, Ísafjarðar og Seyðisfjarðar. Og er þá gert ráð fyrir, að þeir póstmenn, sem heima eiga í þessum bæjum, taki laun sín eftir launalögunum, en upphæðin, þessi 35 þús., gangi til að launa þeim, sem ekki standa í sjálfum launalögunum.

Viðvíkjandi lið A. 3. a. er það að segja, að nefndin áleit skrifstofukostnað póstmeistara nógu hátt settan 5000 kr., þegar búið er að ákveða borgun til starfsmanna hans ýmsra, sem tekið hafa laun af þessum lið annarsstaðar, sem sje í launalögunum.

Við B. I. 2. hefir nefndin gert þá brtt., að hún leggur til, að orðið „verkfróðra“ falli burt.

Var þessi brtt. gerð í samráði við vegamálastjóra, er kvaðst ekki komast af með minna fje til aðstoðar, þó aðstoðarverkfræðingurinn fái laun sín samkvæmt launalögunum.

Skrifstofukostnaður vegamálastjóra hefir verið hækkaður eftir sömu reglu og á öðrum stöðum.

Við B. II. 1. hefir nefndin gert þá allverulegu brtt., að 8000 kr. verði lagðar til Húnvetningabrautarinnar síðara árið.

Er hún gerð eftir till. vegamálastjóra, er taldi, eftir norðurför sína, nauðsynlegt að endurbæta veginn, bæði hvað vatnsrúm og ofaníburð snertir, svo hann yrði forsvaranlega af hendi leystur, þegar afhending færi fram, og bjóst hann ekki við, að komist yrði af með minni upphæð.

Því næst hefir nefndin lagt til, að skotið verði inn í lið D. III. e. aths., sem vonandi þarf ekki á að halda.

Það er gengið út frá því, að hægt verði að fá nægilegt lánsfje til þess að leggja nýja símalínu frá Reykjavík til Borðeyrar, sem og aðrar símalínur, sem upphaflega voru teknar upp í fjárlagafrv., en hv. Nd. tók úr því. Símastjórinn bjóst að vísu við því, að hægt yrði að fá fje að láni til þessara símalagninga, en okkur þótti samt varlegra, að þessi aths. yrði sett inn í frv., því ef svo færi, að lán fengist ekki, væri illa farið, að þessar símalínur væru lagðar án þess, að ný lína kæmi frá Reykjavík til Borðeyrar, þar eð það gerði ekki annað en spilla notum símans enn meir.

Þá kemur nú liðurinn stóri, D. IV. 17., þess efnis, að til uppbótar á launum þess símafólks, sem ekki stendur í launalögunum, skuli varið alt að 49 þús. kr. hvort ár fjárhagstímabilsins.

Upphæð þessi er fengin á þann hátt, að símstjóri reiknaði hana út eftir þeim mælikvarða, er við settum honum, sem sje fulla uppbót (100%) á 2/3 launanna.

Þeim mælikvarða hefir verið fylgt í nefndinni, þó svo, að ekki hefir verið látið standa á hálfu hundraði o. s. frv.

Við E. II. höfum við verið tilneyddir að víkja frá þeirri reglu, að taka ekki upphæðir frá launalögunum inn í fjárlögin, til þess að laun þeirra vitavarða, er ekki eru teknir upp í launafrv., komi rjettilega út. Höfum við því orðið að kljúfa vitaverði í 2 flokka, annars vegar þá, sem teknir eru upp í launafrv., en hins vegar þá, sem þar eru ekki; og er þetta gert í samráði við vitamálastjóra.

Viðvíkjandi till. um rekstrarkostnað vitanna er það að segja, að inn í nál. hefir slæðst sú villa, að það sje vegna nýrra vita, en hækkunin miðast við aukna aðstoð við vitana á Reykjanesi og Siglunesi. Vildi jeg taka þetta fram, aðallega af þeirri ástæðu, að jeg bjóst við, að vitamálastjóri fengi upphæðina ef til vill ekki útborgaða hjá hæstv. stjórn, vegna ummælanna í nál.

Þá er ekki meira að segja um 13. gr., og sný jeg mjer því að 14. gr.

Um brtt. við A. a. 2. er sama að segja og um brtt. við skrifstofukostnað landlæknis eftir 12. gr., að nefndin leggur til, að bætt sje inn orðunum ,,eftir reikningi“, af sömu ástæðum.

Hvað launum biskups viðvíkur, er það að segja að þau eru sett óbreytt, enda þó þau að sjálfsögðu breytist samkvæmt launalögunum. Hefir regla nefndarinnar verið sú, að láta launaupphæðir haldast óbreyttar, þar sem ómögulegt er að setja neinar ábyggilegar tölur í þeirra stað.

Viðvíkjandi aths. við lið A. b. 4., sem fjárveitinganefnd Nd. ljet að eins ná til þess liðs, þótti fjárveitinganefnd Ed. sömu ástæður vera fyrir hendi til að láta hana ná til A. b. 3, og hefir því komið fram með brtt. þess efnis.

Þá hefir og nefndin komið fram með brtt. þess efnis, að bætt sje aftan við þessa grein nýjum lið, að upphæð 1200 kr. hvort árið, sem er styrkur til presta til að sækja synodus.

Formaður prestafjelags Íslands fór fram á, að veittur yrði 2000 kr. styrkur í þessu skyni, en fjárveitinganefnd færði hann niður í 1200 kr., enda verð jeg að segja, að jeg sótti ekki fast, að upphæðin væri hærri til að byrja með; þótti hitt meira um vert, að hún yrði einhver, enda bersýnilegt, að styrkurinn getur vel orðið handa fleiri prestum en 12, því þegar enginn má njóta hærri styrks en 100 kr., getur vel verið að aðrir sem styttra eiga fái að eins minna, t. d. 50 kr. Og geti þetta orðið til þess, að milli 10 og 20 prestar fleiri en ella sæki synodus, er það betra en ekki.

Flestar brtt. við 14. gr. eru um dýrtíðaruppbætur og finn jeg ekki ástæðu til að fara neitt út í þær. — en skal minnast örlítið á aðrar brtt. við þá grein, sem ekki er vikið að í nál.

Við lið B. 11. e. 11. er gerð sú brtt., að styrkurinn til að geta út kenslubækur handa mentaskólanum skuli hækkaður úr 45 kr. upp í 80 kr. fyrir hverja örk. — Er þetta ekki nema sjálfsagt þegar litið er til þess hversu gífurlega prentunarkostnaður hefir hækkað. — En hitt gæti verið athugamál hvort ekki hefði verið rjett að hækka alla upphæðina sem veitt er í þessu skyni, að sama skapi, því vitanlega fæst minni arkafjöldi fyrir þessa upphæð eftir en áður. — Fjárveitinganefndin hefir þó ekki sjeð sjer fært að leggja til, að upphæðinni verði breytt. —

Að veita 800 kr. til aukakenslu á Eiðum sýndist nefndinni ekki geta komið til mála, og hefir því fært lið þennan upp í 2000 kr. Þykist nefndin hafa vitneskju um, að ráðinn væri maður til að hafa á hendi aukakenslu þar fyrir 1800 kr. árslaun, og auk þess önnur aukakensla fengin fyrir 200 kr. Munu þessir samningar ekki hafa verið gerðir þegar fjárlagafrv. var samið, og því þessi 800 kr. upphæð sett af handa hófi.

Samræmisins vegna hefði farið betur á, að þessum lið hefði verið skift niður í laun og dýrtíðaruppbót, en nefndin vissi ekki hvernig samningarnir við aukakennarana voru, og var þeirri skiftingu því slept. Ef til vill mætti lagfæra þetta við 3. umr.

Aths. aftan við B. (X. b.) hefir nefndin lagt til að sje látin falla niður, þar sem frv. um stofnun ríkisverslunarskóla var felt í Nd., og aths. því óþörf.

XII. liður, um almenna barnafræðslu, er ætlast til að breytist í samræmi við frv. um laun barnakennara, ef það verður samþykt, en ekki tilætlunin, að hann haldist auk launa eftir frv. um laun barnakennara.

XIII. lið a. (styrkinn til unglingaskóla utan Reykjavíkur, Akureyrar og Hafnarfjarðar) hefir nefndin ekki breytt, en hins vegar lagt til, að styrkurinn til Hvítárbakkaskólans verði hækkaður um 500 kr. á ári, eða upp í 4500 kr. — Er þetta gert með það fyrir augum, að skóli þessi er elsti og fjölsóttasti skólinn með þessu sniði og hefir forstöðumaður skólans haldið honum uppi, hversu illar sem horfur hafa verið.

Þykir nefndinni því ekki annað en rjettlát viðurkenning að hann njóti nokkurs styrks fram yfir aðra skóla.

Loks skal jeg geta þess að í aths. í 22. brtt. á þgskj. 846 hefir fallið burt orðið Borgarfjarðarprófastsdæmi og er það leið- jett á þgskj. 860.

Hefi jeg svo ekki meira að segja um gr. þær, sem nú liggja fyrir.