19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Kristinn Daníelsson:

Að eins örfá orð út af athugasemdum hv. frsm. (E. P.).

Um orðabókina gat hv. frsm. (E. P.) þess, að málinu væri ekki borgið, þótt þessum manni væri bætt við verkið, sem brtt. mín á þgskj. 888 fer fram á, og taldi, að fleiri menn þyrfti til þess að ljúka verkinu. Það er auðvitað nokkuð til í þessu, en það, sem unnið er að undirbúningi þess, getur þó ekki talist unnið fyrir gýg. Aðaláhersluna legg jeg þó á það, að þessi maður hefir þegar verið ráðinn til þessa starfa, að vísu til bráðabirgða, eða að eins út fjárhagstímabilið. En þetta hlaut maðurinn að skilja svo, að honum væri ætlað að halda áfram verkinu. Það hefði verið eðlilegra, að taka manninn alls ekki til starfans, og skila aftur fjenu, heldur en að ginna hann svo, ekki síst þegar þessi maður, eftir almennum mælikvarða, verður að teljast hæfasti maðurinn til þessa starfs.

Um styrkinn til skálda og listamanna skal jeg kannast við það sem hv. frsm. sagði, að skiftar skoðanir geta verið um þann styrk. En skoðun sína byggir hv. fjárveitinganefnd á því að svo margir styrkþegar eru fallnir frá eða fluttir burt af liðnum, en jeg byggi mína skoðun á nál. neðri deildar nefndarinnar, þar sem flokkað er niður eða gert yfirlit um, hvernig styrknum eigi að verja, og sje jeg ekki fram komin nægileg rök til þess að hrinda því áliti.

Mjer þótti vænt um það, að tillögumaðurinn að niðurfellingu styrks til fjelagsins „Íslendings“ fylgdi ekki fast fram þeirri till. sinni. Hann sagði, að aðaltilgangurinn væri sá, að útbreiða þekking á Íslandi, en svo er þó ekki, heldur er aðaltilgangurinn að halda við tungunni og andlegum viðskiftum og samböndum milli þjóðflokkanna. Í þessu skyni hefir fjelag verið stofnað, eins og kunnugt er, svo að hjer getur að eins verið um styrk að ræða, en ekki það, að landssjóður beri allan kostnað við sendiförina. Ef styrkur verður til þessa lagður áfram, þá fer það væntanlega eftir þeim árangri, sem verður af starfsemi þessa fjelags, og þar á meðal sendiför þeirri, sem nú er ráðin. Því má og við bæta, að maðurinn, sem til þessarar farar er ætlaður, hefir auðvitað orðið að ráðstafa störfum sínum og búa sig undir förina. Vænti jeg, að hæstv. Alþingi sjái það, hver nauður rekur til þessarar fjárveitingar.