22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Magnús Torfason:

Jeg hefi leyft mjer að flytja nokkrar brtt., sem jeg skal taka í röð eftir fjárlögunum.

Jeg legg til, að sendiherrann verði nefndur ríkisfulltrúi. Sumir hafa kallað þessa stöðu barnaglingur stjórnarinnar, en jeg skal þegar lýsa yfir því, að ef vjer eigum nokkursstaðar að hafa slíkan fulltrúa, þá er það í Kaupmannahöfn, þó með þeirri skýringu, að hann sje einnig fulltrúi vor á Norðurlöndum; ýms stærri ríki hafa aðeins einn fulltrúa á þeim slóðum. En mjer þykir kenna nokkuð mikillar fordildar í því, að nefna þennan umboðsmann sendiherra, og munu þess engin dæmi um jafnfáment og fátækt land sem vort, að það geri út sendiherra. Mjer er kunnugt um það, að kotríki eitt, sem þó er fólksfleira en Ísland, hefir sendimann, þegar þörf krefur, en engan sendiherra. Auk þess er tvískinnungur í orðalagi greinarinnar. Jeg sje ekki betur en að launin sjeu sett alt of lág handa manni, sem ber svo virðulegt nafn. Danir taka stórauðuga menn til þessa starfs, með því að þeir treystast ekki til þess að launa þá. Stöðunni fylgja miklar kvaðir, og nafnið gerir kröfur til mikils manngildis. Vjer höfum enga reynslu í þessu efni, og sá, sem valinn yrði, verður því að læra fræðin. Jeg verð að líta svo á, að launin sjeu sett svo lág, til þess að koma þessu af stað, og að ekki muni á löngu líða, áður en reynt verði að fá meira fjárframlag í þessu skyni.

Það hefir verið stutt á, að við mættum ekki senda ógöfugri mann en Danir hafa sent hingað. Til þess er því fyrst að svara, að jeg veit ekki til, að við höfum lögtign hjer á landi, og í öðru lagi er slík skylda ekki gagnkvæm. Við vitum t. d., að Englendingar hafa sent einhvern göfugasta mann sinn og tíginborinn til Egyptalands, en Egyptar hafa ekki haft slíkan mann á Englandi. Bendi jeg á þetta, án þess að fara frekar út í það Við vitum, að á síðustu tímum hafa breyst allir siðir um sendimenn, og stór ríki, er hafa myndast nú, kalla sendimenn sína orði, er þýðir hið sama og till. mín fer fram á. Og jeg hygg, að það sje rjett af oss að forðast þetta gamla sendiherraheiti eins mikið og auðið er. Titillinn verður heldur aldrei nægur til að bæta upp manngildi mannsins. Takist manninum að vinna sjer hylli konungs, er ekki neinn efi á því, að hann kemur málum sínum vel fyrir, og þá verður tekið fult tillit til hans. Það sannar, að í vetur var fulltrúa okkar í Danmörku sýndur meiri sómi en fulltrúum annara ríkja, svo það er því ekki neitt því til fyrirstöðu, að hann geti komið fram þar hvar sem vill. Það er sjálfsagt og rjett að haga þessu svo, að hann kafni ekki undir nafni.

Þá ber jeg fram brtt. við 14. gr. Svo víkur því við, að reikningur fyrir barnaskóla Ísafjarðarkaupstaðar fyrir skólaárið 1917 til 1918 hafði ekki borist fræðslumálastjóra. Skýrslur um skólann fyrtjeð ár munu hafa verið sendar með forstöðumanni skólans, er hann fór til Reykjavíkur, en reikningurinn hefir ekki verið tilbúinn þá, eða reikningur yfir tillag bæjarsjóðs til skólahaldsins, en eins og menn vita, brann alt skjalasafn bæjarins, og því er ómögulegt að bæta úr þessu, enda vissum við ekki af því fyr en eftir útbýtingu styrksins. Afleiðing af þessu er, að aðrir skólar hafa fengið meira fje þetta ár, og er þeim því enginn órjettur ger með þessu.

Brtt. hefi jeg borið fram við 15. gr. 21 b., um að fella niður styrkinn til að þýða Faust. Jeg lít svo á, að mun fyrir kensluna við háskólann sjeu næg, einkum í þessari deild — grísku — þar sem ekki eru kendir nema fáir tímar á viku. Það er alt öðru máli að gegna um dócentinn í guðfræði, því hann hefir mikla kenslu, víst eins mikla og prófessorarnir, og því er þetta ekki sambærilegt, þótt háttv. framsm. (E. P.) væri að jafna því saman.

Alstaðar mun og svo vera, að prófessorar og dócentar verji tíma þeim, er þeir hafa afgangs frá kenslunni, til vísindaiðkana, og á svo og hjer að verða. Jeg get skilið, að þessi styrkur hafi átt að vera launauppbót á stríðsárunum, en nú hefir dócentinn haft þennan styrk í nokkur ár, en jafnframt hefir hann haft svo mikið annað með höndum, að það er ómögulegt, að hann hafi getað unnið að þessari þýðingu. Þingið hefir sjeð þessum manni mjög vel farborða, svo jeg sje ekki ástæðu til að láta hann fá stóra fúlgu fyrir lítið eða ekkert starf.

Næst er brtt., er jeg hefi flutt, og fer hún ein fram á hækkun; það er um námsstyrk til ungfrú Önnu dóttur Bjarna skólakennara Sæmundssonar.

Jeg viðurkenni það „princip“ nefndarinnar, að láta menn ekki fá mikinn styrk til náms í öðrum löndum, þar sem ekki er langt þar til háskólasjóðurinn getur tekið til starfa og lagt eitthvað af mörkum. En hjer stendur sjerstaklega á. Þeir, er ætla sjer að vera við nám í Englandi, eiga sjer ekki styrks von frá Danmörku, eins og aðrir námsmenn vorir. Og við vitum, að það er dýrt að lifa þar nú. Bjarni skólakennari Sæmundsson hefir ætíð lifað við lítilfjörleg laun, enda þótt hann ætli að reyna að kljúfa það, að hjálpa dóttur sinni um þær 2–3000 krónur, sem hún þarf auk þessara 800 kr. Það er ekki óþarfara að veita fje til að læra að tala og skrifa ensku en til hvers annars, og jeg sje t. d. hjer í fjárlögunum styrk til rafmagnsnáms.

Jeg legg áherslu á það, að þessi stúlka er talin framúrskarandi efnileg. Rektor Geir Zoëga segir, að hún hafi fengið hæstu einkunn af öllum, sem hafi útskrifast úr hinum almenna mentaskóla eftir nýju reglugerðinni. og telur hana því, þegar af því einu, verða styrksins. Hjer hefi jeg og vottorð um hana frá Jóni skólakennara Ófeigssyni, og segir hann svo: Jeg þykist mega fullyrða, að jeg hafi aldrei haft betri nemanda, þar nje annarsstaðar, og mjer er nær að halda aldrei jafngóðan. Hún hefir alveg óvenjulega góða hæfileika til málanáms, lipurt tungutak, ágætt næmi og smekkvísi á mál og nær óbrigðult minni. Tvo síðustu vetur vann hún, ásamt mjer og fleirum, að orðabók Sigfúsar Blöndals og reyndist þar, sem vænta mátti, ágætlega.

Jeg ætla mjer ekki að fara nánar í þetta. Þegar hún hafði lokið stúdentsprófi, ætlaði hún að lesa íslensku við háskólann hjerna, en próf. Björn M. Ólsen fjell þá frá, og hún hafði því minni not af kenslunni en vænta mátti og var því ráðið til að leggja sig heldur eftir ensku. En þó hún hafi ekki notið nema lítillar íslenskukenslu, þá reyndist hún þó ágætlega við orðabók Sigfúsar Blöndals. Jeg skal enn fremur geta þess að Böðvar Kristjánsson, sem skólinn því miður misti, hefir gefið henni ágæt meðmæli. Jeg vænti því, að háttv. deild samþykki þessa till. og láti ekki stúdentinn gjalda þess, að hún er ekki á lafafrakka.

Þá ber jeg að síðustu fram brtt. um, að athugasemdin við 16. gr. 17. lið. falli niður. Styrkur sá, sem Búnaðarfjelagi Íslands er veittur, er veittur án allra athugasemda, og er það rjett braut. Fjelagið á að bera fulla ábyrgð á því, hvernig það ver fjenu, og ef því er ekki vel varið, þá á þingið að draga úr fjárveitingunni. Og eins á þetta að vera um Fiskifjelagið. Eins og athugasemdin er, þá lítur næstum svo út, eins og við sjeum að skipa Fiskifjelaginu að senda sendimann til útlanda, en jeg tel ekki rjett, að þingið taki á sig ábyrgð þess. Gagn það, er fulltrúar vorir hafa unnið, hefir verið mjög misjafnt, og víst, að sumir þeirra hafa ekki skilið, hver ábyrgð fylgir starfi þeirra; við höfum víst allir heyrt ljótar sögur, er sýna það, svo það er ekki hægt að segja annað en okkur hafi verið mislagðar hendur. Þegar ríkið er orðið fullvalda, en ekki „fullvalt“, eins og sumir orða það, þá verðum við betur að vanda valið.

Að því er snertir fulltrúa Fiskifjelagsins, þá eru deildar skoðanir meðal útgerðarmanna um það, hvort það sje nokkur hagur að sendiför hans, og því fremur eiga þeir að fá að ráða því sjálfir.

Mig stórfurðar á þessari upphæð, sem er færð við kensluna á Ísafirði. Þessi upphæð, 500 kr., er hin sama og fyrir stríðið, og það er ekki nema mánaðarkaup fyrir mann, sem væntanlega yrði að fá hjeðan frá Reykjavík. Er þetta smánarboð.

En jeg vil hvorki, að Fiskifjelaginu sje bannað að senda mann utan, nje að veita sæmilegt fje til kenslunnar á Ísafirði, heldur vil jeg, að það sje látið einrátt um það.

Jeg vænti því, að háttv. deild taki brtt. vel.