21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

126. mál, löggiltar reglugerðir um eyðing refa o. fl.

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Eins og tekið hefir verið fram við 1 umr., er aðalefni þessa frv. sama og lög nr. 11, 22. mars 1890, og lög nr. 36, 24. nóv. 1893, en þessi lög hvortveggja eru orðin mjög úrelt að formi og orðalagi, og eru í þessu frv. færð í nútíðarform. Í þessu frv. eru því engin nýmæli, er nokkru skifta, saman borið við þau lög, er nefnd hafa verið, nema ef vera skyldi, að í lögum nr. 36, 1893, var gert ráð fyrir, að kostnaðinn við refavinslu mætti greiða annarsstaðar en úr sveitarsjóði. Þetta mál er svo einfalt og lítið, að jeg vænti, að það fái fljóta afgreiðslu í hv. deild. Sessunautur minn (M. P.) segir, að það sje gagnslaust, en það get jeg ekki fallist á, því jeg tel það ekki gagnslaust að gera eina heild úr tvennum lögum, sem hvortveggja eru orðin úrelt. Það er lagahreinsun. þó í smáum stíl sje.

Hvað áhrærir 3. gr. frv., um að skýrslur um eyðing refa skuli sendar stjórnarráði, sem mætti töluverðri mótspyrnu við 1. umr., þá get jeg ekki sjeð, að af því mundi leiða neina skriffinsku. Það má ef til vill segja það um allar hagskýrslur, en það er engin ástæða fyrir því, að þær sjeu óþarfar. Mjer finst það ekki nema eðlilegt og sjálfsagt. Því var að vísu skotið til nefndarinnar, að rjettast væri að senda skýrslurnar beina leið til hagstofunnar, en jeg fæ ekkert sjeð móti því, að þær fari með sýslunefndarfundargerðunum fyrst til stjórnarráðsins.

Mjer finst ekki ástæða til að fjölyrða meira um þetta mál að sinni, en mun bíða átekta með frekari rök, þar til einhver hefir orðið til að mæla á móti frv.