19.08.1919
Neðri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

94. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Jeg þarf ekki að hafa langa framsögu í máli þessu. Eins og nefndarálitið á þgskj. 378 ber með sjer, hefir nefndin orðið sammála um að mæla með þeim breytingum á sveitarstjórnarlögunum, sem hjer er farið fram á að gerð sje. Reyndar lítur nefndin svo á, að hjer sje fremur að ræða um skýringu tjeðra laga en breytingu á þeim.

Af því að nokkur ágreiningur hefir orðið um það, hvort slægjuafnot í venjulegum skilningi heyrðu undir orðin „leiguliðaafnot af jörð, þótt engin ábúð fylgi“, þykir rjett, að það sje tekið fram með berum orðum, til að fyrirbyggja allan misskilning, eins og gert er í frv. þessu.

En fyrst farið er að breyta sveitarstjórnarlögunum á annað borð, þá þótti nefndinni rjett að taka til meðferðar annað atriði og koma á samræmi þar, sem nú er ósamræmi. Í 37. gr. sveitarstjórnarlaganna, nr. 43, 10. nóv. 1905, stendur svo: „Nú stundar aðkomumaður bátfiski á firði eða flóa, á útveg annara en þar sveitarmanna, og dvelur hann í veiðistöð sama hrepps eða sömu hreppa samtals 4 vikur eða lengur sömu missiri, og er þá sveitarstjórn heimilt að jafna á hann hæfilegu útsvari í samanburði við innsveitarmenn.“

En í lögum um breytingu á sveitarstjórnarlögunum frá 10. nóv. 1905, nr. 33, 2. nóv. 1914, 1. gr., stendur:

,,Ef rekin er í hreppnum atvinna, sem talin er sjerstaklega arðsöm, svo sem verslun eða einhver kaupskapur, eða þilbátaútgerð, þá má leggja á þá atvinnu aukaútsvar, þótt ekki sje rekin nema 8 vikur, og atvinnurekandinn eigi heimili annarsstaðar.“

Nefndinni fanst ekki rjett að gera þilbátaútgerð hærra undir höfði að því er útsvarsskyldu snertir en veiði á opnum bátum, nje heldur verslun, kaupskap og annari arðsamri atvinnu, og hefir því lagt til, að tímatakmarkið um útsvarsskylduna væri fært niður í 4 vikur.

Nefndin hefir ekki orðið þess vör, að sú útsvarsskylda, sem á opnum bátum hefir hvílt síðan 1905, hafi valdið nokkurri sjerlegri óánægju, eða að gerð hafi verið tilraun til að fá útsvarsskyldutímann lengdan, og styrkir það nefndina í því að bera fram brtt. þessa.

Nefndin leggur og til, að fyrirsögn frv. sje breytt, og er það í samræmi við það, að höfuðbreyting sú, sem nefndin leggur til að gerð sje, er breyting á fyrirmælum sveitarstjórnarlaganna nr. 33, 2. nóv. 1914.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir borið fram brtt. við frv., á þgskj. 179; vill hann láta fella burtu orðin: „sem einhvern arð gefa“. Á þessa breytingu getur nefndin ekki fallist. Hún lítur svo á, að undirstaðan undir öllum atvinnuskatti eigi að vera sú, að atvinnan gefi arð af sjer; en brtt. brýtur bág við þá grundvallarreglu, og nefndin vill alls eigi taka upp þá stefnu, sem hún bendir á. Það kemur oft fyrir, að einhver atvinna eða eign gefi ekki arð af sjer um stundarsakir; þannig kemur það ekki ósjaldan fyrir, að lóðarblettir gefi ekki af sjer árlegan arð. Mælir lítil sanngirni með að gera það að algildri reglu að skattleggja eignir og atvinnu, þegar svo stendur á.

Jeg þykist vita, að brtt. muni stafa af því, að einstakir menn utan hrepps eigi jarðeignir inni í hreppnum og vilji hvorki leigja þær, nema með afarkostum, nje noti þær að nokkru ráði sjálfir. Það væri í sjálfu sjer rjett, að slíkum mönnum væri eigi hlíft við álögum; en vegna þeirra má þó eigi brjóta rjettlátt princip, enda ættu að vera einhver ráð til að ná sjer niðri á þeim á annan hátt.