04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

134. mál, húsaskattur

Magnús Torfason:

Jeg get fyrir mitt leyti verið á því, að nokkrar ástæður sjeu til þess að húsaskatturinn verði hækkaður, þó segja megi, að skatthækkunin komi mjög misjafnlega niður.

Að því er snertir húseignir þær, sem bygðar voru fyrir stríðið, má hækkunina til sanns vegar færa, þó þess sje að gæta, að viðhald kostar nú miklu meira en áður.

Mjer skildist á orðum sem jeg heyrði í háttv. Nd., að virðing húsa til húsaskatts stæði nokkurn veginn í stað og mætti þá, ef satt væri, færa hækkunina til sanns vegar. En svo mun ekki vera, a. m. k. í kaupstöðum landsins. Í Reykjavík mun húsaskattur reiknaður eftir brunabótavirðingu, en flest hús munu hafa verið endurvirt til brunabóta árið 1916, og húsaskatturinn því hækkað.

Samt sem áður gæti jeg fallist á, að skattur á gömlum húsum hækki.

Alt annað gildir um ný hús. Þar mælir alt á móti skatthækkun.

Menn verða að athuga, að húsaskattslögin eru sett árið 1877, eða sama árið og lögin um tekjuskatt, og hefir húsaskatturinn sýnilega verið miðaður við tekjuskatt af eign.

Tekjuskattur af eign var og er 4%, en húsaskattur 3,75%; m. ö. o. tekjuskattur af 1000 kr. eignartekjum er 40 kr., en af 1000 kr. tekjum af húseign kr. 37,50 eða 2,50 kr. lægri á þúsundi. En samkvæmt nýju tekjuskattslögunum er skatturinn af 1000 kr. eignartekjum 40 kr., en af 1000 kr. í húseign, skv. frv. þessu, 75 krónur eða mestum helmingi hærri.

Þegar þetta er athugað, verður ekki betur sjeð en löggjafinn leggi hegningu við að leggja fje sitt í húseignir. Væri honum að vísu vorkunn, ef húsagerð væri arðvænlegt fyrirtæki, en það er síður en að svo sje, eins og stendur, því menn byggja ekki nema til neyddir, annaðhvort vegna þess, að þá vantar sjálfa húsnæði, eða til þess að reka í þeim arðvænleg fyrirtæki.

Má í sambandi við þetta nefna, að á Akureyri mun varla nokkurt „prívat“-hús hafa verið reist á stríðsárunum, og á Ísafirði hafa ,,prívat“-menn ekki reist eitt einasta hús á þeim tíma, en bæjarstjórnin orðið að byggja, þegar húsnæðisvandræðin keyrðu úr hófi.

Þetta bendir til alls annars en þess, að húsabyggingar sjeu gróðavænlegar. Það má því engin lög setja til að stugga mönnum frá að byggja. Þótt þessi skattur sje ekki hár, þá getur hann dregið úr byggingarhug manna. Menn þola illa, eins og von er til, títuprjónsstungur smáskattanna.

Um Reykjavík skal jeg sjerstaklega geta þess, að þar eru svo tilfinnanleg höft á húseignum, þar sem eru húsaleigulögin, að þau jafngillda tíu- til tuttuguföldum húsaskatti. Það væri því hin mesta firra að hækka húsaskattinn, meðan húsaleigulögin eru í gildi.

Ofan á alt þetta munar ríkissjóð lítið sem ekkert um tekjuaukann, sem að þessum skatti verður. Það væri illa farið að gera nokkuð til að draga úr því, að menn byggi, ekki síst vegna þess, hve lítið er í húfi fyrir ríkissjóð.