10.09.1919
Efri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

134. mál, húsaskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg slapp svo vel út úr eldhúsdeginum í hv. Nd., að jeg þurfti enga ræðu að halda. Hv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir viljað bæta mjer þetta upp með því að halda ofurlítinn eldhúsdag í þessari hv. deild. Jeg skal nú játa það, að hin eilífa kyrð á ekki svo vel við mig, að jeg taki mjer það nærri, þó smástormkippir dreifi mollunni dálítið.

Háttv. þm. (M. T.) kvartaði um það, að jeg hefði ráðist á sig dauðan. En þetta er nú eiginlega þingskapanna sök, því samkvæmt þeim er jeg ódauðlegur, en háttv. þm. Ísaf. (M. T.) dauðlegur. Með ánægju hefði jeg gefið þm. orðið aftur, ef jeg hefði ráðið. En meira hygg jeg að háttv. þm. (M. T.) græði á því að vera dauður heldur en lifandi í þessu máli.

Hv. þm. (M. T.) kvartaði um það, að hann hefði ekki frið fyrir ráðherranum. Ef hann á við þann frið, að fá sjálfur að skjóta örvum að mjer, án þess að þeim sje skotið aftur að honum, þá má hann ekki búast við friði frá mjer. Því svo er sá málstaður, er jeg ver hjer, að síst hefi jeg ástæðu til þess að sýna þingmanninum meiri þolinmæði en jeg hefi gert.

Hv. þm. (M. T.) sagði sömuleiðis, að jeg hefði farið með ósannindi um sig og persónuleg brigsl. Jeg hefi verið að reyna að grafa það upp, hvað hann átti við, en ekki fundið neitt. Væri fróðlegt að heyra hver ósannindin eru, sem jeg hefi farið með í garð þm.

Þá þykir mjer það mjög gleðilegt að heyra það frá slíkum manni sem hv þm. Ísaf. (M.T.), að jeg skuli vera orðinn þjóðskáld. Ummæli manns, sem svo gott vit hefir á skáldskap, eru mjer ærin viðurkenning, þó skáldalaun fylgi ekki með.

Hvað sem líður öllum þeim umbúðum, sem hv. þm. (M. T.) vefur ummæli mín í, var kjarni þeirra sá, að hann hefði verið yfirleitt mjög óþjáll í skattamálum á þessu þingi. Þessu þýðir ekki að neita, því auk okkar beggja eiga tólf sómamenn sæti í þessari hv. deild, og þeir vita allir, að jeg segi satt. Jeg held þess vegna, að það væri best fyrir hv. þm. Ísaf. (M. T.), sjálfs sín vegna, að taka aftur þessi ummæli sín. Hann játaði sjálfur, að hann hefði ætlað að draga suma liði út úr frv. um útflutningsgjald, hann ætlar að bana húsaskattslögunum og hann var á móti bifreiðaskattinum móti síldartollinum og vildi að minsta kosti draga mjög úr salttollinum, og móti nálega öllu yfirleitt. Og svo má ekki segja, að hann hafi verið örðugur í skattamálunum.

Þessi háttv. þm. vildi tileinka sjer vitagjaldið. Ef hann vill hafa ánægju af þessu, og getur liðið eitthvað betur fyrir það á kvöldin, þá skal jeg ekki ræna hann ánægjunni. Það væri synd. En geta má þess þó, að jeg var farinn að ræða mál þetta við vitamálastjóra áður en þing kom saman, og væri hægt að færa full rök að því.

Þá sagði hv. þm. (M. T.), að jeg sjálfur hefði verið tregur til að fylgja ýmsum tekjuaukum, og nefndi til suðuspritttollinn.

Það var satt, að mjer þótti hann koma hart niður á fátæklingum, og fjekk hann lækkaðan. Annars veður hv. þm. Ísaf. (M. T.) reyk í þessu, eins og svo mörgu öðru, því öllum er kunnugt um, hvað mikla áherslu jeg hefi lagt á að auka tekjur landssjóðs og hvað oft jeg hefi gert grein fyrir hinni brýnu nauðsyn, sem á því er.

Það, sem vakið hefir aðallega þennan storm í sálu hv. þm. Ísaf. (M. T.), eru ummæli mín um hundaskattspólitík hans. Og merkilegt er það. Því jeg skildi svo afstöðu hans þar, að mjer væri óhætt að lofa hana, og gerði jeg það mjög fúslega; það var hálmstráið, sem jeg rjetti háttv. þm., en nú ýtir hann því líka frá sjer, með því að kannast ekki við framkomu sína þar.

Eftir eldhúsdagsræðuna kom hv. þm. (M. T.) að frv., sem hjer liggur fyrir. Það er ekki nema mannlegt, að hann gerði lítið úr röksemdum mínum, en öllum öðrum en hv. þingmanni ættu þær að mega.

Jeg tók fram, að gömlu húseigendurnir þyldu þennan skatt allra manna best, þar sem svo mikil verðhækkun hefði orðið á eignum þeirra, er þeir yrðu mjög mikið varir við, ef þeir leigðu öðrum, en einnig þó þeir byggju sjálfir í húsum sínum, þar sem húsaleiga þeirra væri miðuð við ástandið á undan stríðinu. Að því er aftur þá snerti, sem bygðu nú, þá væru þeir nú mjög fáir, en ef þeir bygðu til að leigja, þá væri húsaleigan svo há, að þeir þyldu skattinn, þó hann auðvitað kæmi ver niður á þá, en aldrei yrði náð fullkomnu rjettlæti í nokkurri skattalöggjöf; annars væri þessi skattur svo lágr, að hann kæmi ekki hart niður á neinum. Hefi jeg ekki ástæðu til að útmála þetta frekar en jeg gerði við 2. umr.

Þá mintist þingmaðurinn á ábúðarskattinn. Hann hvílir nú í friði hjá nefnd í Nd., og er það ekki mín sök.

Það liggja órækar sannanir fyrir því, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir reynst mjög örðugur í skattamálunum á þessu þingi. Hvert orð er satt sem jeg hefi um það sagt, sem og hv. deild er kunnugt, og mig furðar ekki á því, þó hv. þm. (M. T.) iðrist eftir framkomuna, en hinu furðar mig á, að hann skuli afneita henni. Jeg hefði gaman af að heyra þau „persónulegheit“, sem jeg hafi átt að viðhafa í hans garð. Hann hefir enn ekki bent á þau, og er það af þeirri einföldu ástæðu, að hann getur það ekki.