10.09.1919
Efri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

134. mál, húsaskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Hv. þm. Ísaf. (M.T.) á erfitt með að staðfesta brigsl sín í minn garð. Hann gat ekki bent á eitt einasta óvirðingarorð, sem jeg hafi viðhaft í hans garð. Hann segir, að ekki sje hægt að hafa hendur í hári mínu. Það er alveg rjett, því jeg hefi ekkert sagt af því, sem hann langar nú svo innilega til að jeg hefði sagt. Hann bar mjer á brýn, að jeg hefði gert lítið úr sjer, en þeirri ásökun hefði hann átt að beina að sjálfum sjer, fyrst hann getur ekki fundið digurmælum sínum stað. Það er svo langt frá því, að jeg hafi áreitt hv. þm. Ísaf. (M. T.) að fyrra bragði. Hann hefir þvert á móti oft skotið örvum að mjer sem stundum hafa snúist í lofti gegn honum sjálfum.

Hv. þm. (M. T.) er með dylgjur um það, að hann hafi gefið mjer bendingu um nýjan tekjustofn, en vill ekki segja, við hvað hann á. Jeg man ekki eftir neinu slíku. Það er að vísu satt, að nýtt skattafrumvarp er nú á leiðinni, en jeg hefi altaf gengið út frá, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) verði á móti því, eins og öðrum stórum tekjuaukum. Hv. þm. kallaði aðstöðu sína góða, og óskaði mjer jafngóðrar samvisku. Ekki get jeg tekið undir þá ósk, því mjer leikur grunur á, að samviska hans muni vera nokkuð mórauð eftir framkomu hans í skattamálunum á þessu þingi.