10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

142. mál, fulltrúar bæjarfógeta

Frsm. (Einar Arnórsson):

Hv. sessunautur minn (B. J.) var að tala um, að hann vildi ekki trúa óvönum mönnum til að fara með slík mál, sem hjer greinir. Þessu er því að svara, að óvönum mönnum er hjer á landi oft trúað fyrir þessu; það er ekki svo sjaldgæft, að nýbökuðum kandidötum er veitt sýsla, og það sýsla, sem fyrirsjáanlegt er að svona mál komi fyrir í; verða þeir svo að bera allan veg og vanda af sýslunni.

Aftur á móti þurfa fulltrúarnir ekki að bera allan veg og vanda af málunum, heldur geta þeir altaf, er vanda ber að höndum, ráðfært sig við yfirboðara sinn og leitað trausts hjá honum.

Þá sagði hv. þm. Dala. (B. J.), að hann vildi ekki trúa bæjarfógetunum fyrir að velja þessa aðstoðarmenn sína. Jeg er alveg á sama máli, enda er gengið svo frá þessu hjer í frv., að það er ekki bæjarfógetinn, sem velur manninn, heldur er það dómsmálaráðherrann. Viðvíkjandi sálarástandinu sem hv. þm. Dala. (B. J.) talaði svo mikið um, vil jeg segja það, að oft getur það verið yngri mönnum enn meiri hvöt til að vinna verk sitt vel heldur en eldri mönnum, því að yngri mönnum er það framavænlegra. Ef þeir stæðu illa í stöðu sinni, mættu þeir búast við að framast ekki neitt. Annars vil jeg bæta því við, að það er nokkur veginn sjálfgefið, að dómarar í kaupstöðum mundu eftir fremsta megni rannsaka sjálfir og dæma þau mál, sem mestu skiftir, svo sem morð, eða aðra stórglæpi.

Nú býst jeg við, að hv. þm. Dala. (B. J.) þurfi að gera stutta athugasemd, og ann jeg honum hennar vel, og það jafnvel þótt hún verði alllöng.