25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Því miður er jeg ekki að öllu við því búinn að tala um það, sem jeg ætlaði að taka fram um þennan kafla fjárlaganna, þ. e. a. s. um styrkinn til Eimskipafjelags Suðurlands. Jeg átti von á upplýsingum frá forstjóra Eimskipafjelags Íslands, sem jeg geri ráð fyrir að hafi verulega þýðingu fyrir málið. Þær munu og vera á leiðinni, þótt ókomnar sjeu í mínar hendur enn. Jeg skal geta þess, að það kom til orða, að fjelag, sem í vetur var verið að hugsa um að stofna, keypti gott skip til ferða um Faxaflóa. Var talað um þetta við stjórnina, og hvatti hún til þess, að skipið væri keypt, með því skilyrði þó, að það væri gott og hentugt til þessara ferða. Meðan við fjármálaráðherra vorum í Kaupmannahöfn í vetur, var verið að reyna að ná í skip það, sem nú er hingað komið. Hvöttum við fremur til þess, að skipið væri keypt, en gátum þó að sjálfsögðu engu ákveðnu lofað um styrk til að halda ferðum þess uppi. Bentum að eins á, að venja hefði verið að styrkja fjelög slík sem þetta, til að halda uppi áætlunarferðum. Mjer var þá skýrt frá, að skip þetta væri ágætt; þó væri það nokkuð gamalt og þar af leiðandi frekar kolafrekt, en að því hefði verið haldið ágætlega við. Það varð þá ekki úr þessum kaupum.

Síðan hefir stjórnin ekki haft með málið að gera. En síðar myndaðist annað fjelag, með sumum hinum sömu mönnum þó sem hitt fjelagið, og keypti það skipið. Jeg skýri frá þessu til að sýna, að stjórnin hefir ekki bundið sig „formelt“ með neinum heitorðum við fjelag þetta, en eins og jeg sagði áðan, gaf hún í skyn, að þingið mundi sem fyr styðja slíkan fjelagsskap.

Jeg skal bæta því við, að jeg hygg það nauðsynlegt að útvega gott skip, ekki stórt, til að bæta samgöngur við Vestur- og Austurland, og má þá undarlega við bregða, ef þingið reyndist ekki fúst á að veita sæmilegan styrk til þess að koma þeim ferðum á. Það mun vera bygt á ókunnugleik að segja, að styrkur sá sje of hár, sem samgöngumálanefnd leggur til að veittur sje. Að minsta kosti segir forstöðumaður Eimskipafjelags Íslands, að hann telji, að Eimskipafjelag Suðurlands muni ekki geta tekið að sjer, því að skaðlausu, hinar áætluðu ferðir fyrir minna en 50000 kr. Er hann þó allra manna kunnugastur þessum málum; hefir stjórnin haft mikið saman við hann að sælda og aldrei reynt hann að öðru en að hann væri hinn áreiðanlegasti í áætlunum sínum, og að jafnan væri óhætt að fara að hans ráðum, því að það reyndist rjett, er hann segði. Jeg tel því, að óhætt muni vera að samþykkja till. samgöngumálanefndar. Mjer fanst líka þessi fjárupphæð, 50000 kr. ærið há, þegar litið er á, hvað venja hefir verið að undanförnu að veita til ferða samsvarandi þessum áætluðu strandferðum. En öllum, sem við skipaútgerð fást, ber saman um, hve afarkostnaðarsöm hún sje, og að ekki sje útlit fyrir, að kostnaður minki fyrst um sinn.

Jeg skil það svo, að áætlun sú, sem hjer liggur fyrir, sje ekki með öllu bindandi fyrir stjórnina. Hitt er annað mál, hvort fjelagið muni fáanlegt til að láta bátinn fara alla leið til Seyðisfjarðar, og er að svo stöddu varla við því að búast.

í 14. gr. C. 2. b. er það sett sem skilyrði fyrir styrkveitingu, að skipið sigli eftir áætlun, sem þingið samþykki. Jeg hefi ekki orðið var við, að þingið hafi hjer samþykt nokkra áætlun. En sje svo skoðað, að áætlunin sje samþykt jafnframt fjárveitingunni í fjárlögunum, þá hefi jeg í sjálfu sjer ekkert við það að athuga. Þó held jeg, að það hefði verið rjettara af þinginu að fela stjórninni að gera samning við fjelagið, eins og fyrrum var gert við Thorefjelagið og Sameinaða fjelagið. En það tek jeg fram, að æskilegt er, að yfirlýsing komi frá frsm. fjárveitinganefndar og samgöngumálanefndar, um að stjórnin megi skoða ferðaáætlun þá, sem hjer liggur fyrir, samþykta samhliða fjárveitingunni í fjárlögunum. Jeg skal leyfa mjer að taka það fram, að áður var venja þingsins að ganga miklu rækilegar frá málinu en nú er gert: þá lágu fyrir þinginu nákvæmir samningar um ferðirnar, þar sem tiltekið var, hvað þá skyldi draga af tillaginu, ef eitthvað brygði út af með ferðirnar. Enda er það áríðandi, að svo sje frá samningunum gengið, að um ekkert sje að villast fyrir stjórnina. Þó mun jeg eftir atvikum láta mjer nægja yfirlýsingu háttv. samgöngumálanefndar um það, hvernig hún hugsi sjer samningum og áætlunum hagað.

Nú hefi jeg fengið brjef forstjóra Eimskipafjelags Íslands, það er jeg gat áðan um. Segir hann í því, að skipið „Suðurland“ hafi rúm fyrir 32 farþega á fyrsta farrými og 150 á milliþilfari; telur hann skipið vera gott. Mun því vera óhætt að mæla með skipinu og telja, að því muni óhætt í alllangar ferðir, að minsta kosti að sumrinu til.

Það má vera, að brtt. hv. þm. S.-Þ. (P. J.) sje að sumu leyti góð, en þó er sá galli á henni, að ef Suðurland á að fá 50 þús. kr. af 75 þús. kr., þá er hætt við, að 25 þús. kr. verði alt of lítið handa Sterling, og að hallinn á strandferðum hans verði meiri en því nemur. Þá er og þess að gæta, að ef brtt. er samþykt, þá verður blandað saman tvennu, sem ekki á saman. Upphæðin sem Sterling er ánöfnuð, er áætlunarupphæð: en það sem „Suðurlandi“ er ætlað, er fastákveðin upphæð. Þó ætti ekki að vera frágangssök að aðhyllast till eins og hún er, ef hana má skilja þannig, að stjórninni sje heimilt að veita til „Suðurlands“-ferðanna alt að 50 þús. kr., ef með þarf.

Jeg teldi það illa farið ef Eimskipafjelagi Suðurlands yrði ekki veittur viðunandi styrkur, því að þetta mun vera í fyrsta sinn, sem innlent fjelag hefir eignast verulega gott og hentugt skip til strandforða hjer.