25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Jónsson:

Mjer er ekki kappsmál með miðlunartillögu þá sem jeg hefi borið fram. Mjer fanst kominn hálfgerður glundroði í málið, og ætlaði jeg að bæta úr ef unt væri, með tillögunni. Mjer fanst ekki fást samkomulag um hvernig haga skyldi ferðum Sterlings og Suðurlands, og taldi jeg það best, að stjórninni væri falið að greiða úr málinu á þann veg, er hún teldi best henta. En um leið liggur beinast við að fela stjórninni á hendur að skifta fjárupphæðinni sem ætluð er til skipaferðanna milli skipanna, eftir því hvernig ferðum þeirra verður hagað. Sjálfsagt tel jeg að stjórnin mundi eftir því sem hægt er, fara í þessu eftir bendingum frá þinginu og hagnýta sjer aðstoð forstjóra Eimskipafjelagsins, einkum við samning ferðaáætlana.

Jeg tel sjálfsagt, að stjórnin geri fastan skriflegan samning um strandferðirnar bæði við Eimskipafjelag Suðurlands og við Þorstein Jónsson, og jeg ætlast til þess, að hve nær sem stjórnin semur um slíkar ferðir, hvort heldur er við fjelög eða einstaka menn þá sje ekki einungis samið um ferðaáætlanir heldur og um hvað annað, sem snertir ferðirnar svo sem hvernig styrkurinn skuli greiðast, og hvað skuli við liggja, ef samningar verða eigi uppfyltir. Á þetta legg jeg áherslu fyrir mína hönd og fjárveitinganefndar að samningar þessir sjeu gerðir og þeirra vel gætt.