01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

140. mál, landhelgisvörn

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Athugasemdir þær sem hæstv. forsætisráðh. (J.M.) flutti, voru ekki meiri en jeg gat búist við, og í heild sinni er jeg honum þakklátur fyrir þær. Það var ljóst, að hann kann og skilur nauðsyn þessa máls.

Jeg verð að halda fast við það, sem jeg sagði, um að málið þolir enga bið; mjer er bæði af sjón og raun kunnugt um það, og er má ske næmari fyrir málinu fyrir þá sök.

Nefndin ætlaðist til, að hjer væri um fullkomið varðskip að ræða, varðskip, er gæti elt skip út fyrir landhelgi, en jeg skal játa, að það hefir má ske ekki verið gert ráð fyrir fylstu kröfum; t. d. er það rjett, er hæstv. forsætisráðherra benti á, að það þarf fleiri menn, svo að það geti sett menn á önnur skip til að láta flytja þau til dómara, en það getur ekki munað neinu stórvægilegu.

Það er sjálfsagt rjett að æskilegt væri, að málið fengi meiri undirbúning, en það hefir verið talað svo margt og mikið um það, að jeg skil ekki annað en það sje öllum ljóst orðið, og jeg tel ekki rjett að draga lengur framkvæmdir þess eða leiða það lengur á mjöðmina. Málið skiftir svo miklu. Jeg legg því eindregið til, að frv. verði samþykt, en ekki vísað til stjórnarinnar eða annað því um líkt.