01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

140. mál, landhelgisvörn

Forsætisráðherra (J.M.):

Það er hverju máli til skýringar, að orðlengja ekki um það, sem menn eru sammála um.

Jeg tek það fram, að jeg álít að ómögulegt sje að fá duglegan skipstjóra fyrir þau laun, sem gert er ráð fyrir í greinargerðinni. Jeg mintist áðan á að skipstjórar á botnvörpungum hafa yfirleitt miklu hærra kaup, og sama er að segja um skipstjóra hjá Eimskipafjelaginu.

Jeg tók það fram áðan, að jeg er ekki að finna að áætlun nefndarinnar, þó jeg minnist á þetta; til þess hefi jeg ekki kynt mjer málið nægilega.

Jeg sagðist ekki búast við, að unt væri að byrja að byggja strandvarnarskip fyr en að sumri, og tek jeg þau orð ekki aftur. Ef til vill væri hægt að fá einfaldan botnvörpung bygðan fyr, því þeir eru af standardgerð, en strandvarnarskip yrði að vera nokkuð öðruvísi.

Annars man jeg ekki eftir að nokkuð nýtt hafi komið fram, sem ástæða til að svara.