25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. samvinnunefndar samgöngumála (Björn R. Stefánsson):

Jeg skal fyrst minnast á það, sem fundið hefir verið að áætlun Suðurlands. Jeg fyrir mitt leyti hefi ekkert út á það að setja þótt endastöðvarnar sjeu settar á Seyðisfirði. En þetta var svona á uppkasti því, sem jeg sýndi fulltrúa fjelagsins. Sveini Sveinssyni. Það var sett þannig eftir að jeg hafði heyrt á honum, að skipið væri ekki vel fallið til langferða vegna kolageymslu. Auðvitað hefi jeg ekkert út á það að setja, að það fari lengra, en jeg hjelt, að þess væri ekki þörf, og þess vegna voru þessar endastöðvar settar. En eftir því, sem fram kom í nefndinni, að borið var saman, hve marga viðkomustaði hvert skip fengi, þá get jeg ekki gengið inn á það, að strykaðir verði út af áætlun Sterlings viðkomustaðirnir milli Eskifjarðar og Seyðisfjarðar. Ef það er gert og Sterling er ekki látin fara lengra en til Seyðisfjarðar, þá get jeg ekki gengið inn á það. — En hins vegar tel jeg það til bóta að Suðurland hafi endastöð á Seyðisfirði, ef ekki er gerð nein breyting á áætlun Sterlings, þó svo sje breytt.

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) talaði um það að nauðsyn væri á þessu vegna þess, að Seyðisfjörður væri miðstöð Austfjarða, en það er ekki rjett; það er Reyðarfjörður, því að þangað liggja sambandslínur af öllu Austurlandi.

Háttv. samþingismaður minn (Sv. Ó.) leit svo á, að fjelag Þorsteins Jónssonar mundi telja sig laust allra mála af tilboðum sínum, ef þetta yrði samþ., en jeg get ekki litið svo á. Í tilboðinu frá því eru engin skilyrði um það sett, hvort önnur skip megi sigla um það svæði eða ekki, og þótt þetta skip fari til Seyðisfjarðar, þá er ekki um það svæði að ræða, sem það fjelag aðallega fær styrk fyrir að sigla um.

Að vísu hefir þetta ekki verið rætt í nefndinni, en jeg verð að líta svo á, sem þetta sje bindandi, þar sem fyrir liggur ákveðið tilboð frá Þorsteini Jónssyni og hefir það verið samþ. með því, að samþ. tillagið, sem hann bað um til þessara ferða, þótt ekki hafi enn verið gerðir samningar. Það var vitanlega ekki hægt að gera samning meðan ekki var víst, að samþ. yrði till. nefndarinnar.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) furðaði á því, að jeg sem frsm. skyldi tala á móti till. þessari. En jeg gat þess þó í fyrri ræðu minni, að jeg hefði aldrei verið með því að veita svona háan styrk og mundi því greiða atkvæði móti því.

Jeg mun því greiða till. háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) atkv., því að jeg felli mig betur við hana en till. háttv. þm. S.-Þ. (P. J.).

Mjer finst það vera nokkuð í lausu lofti að tengja saman ákveðna fjárveitingu og áætlaða fjárupphæð.

Hæstv. stjórn hefir líka heyrt það af umr., að þótt menn vilji veita styrk til þessa fjelags, þá þykir mönnum 50,000 kr. alt of hátt, fyrir ekki meiri ferðir.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði um það, að styrkurinn til Þorsteins Jónssonar væri of hár í samanburði við þetta. Þess ber þó að gæta, að Suðurlandi er ekki ætlað að sigla nema 75 daga í föstum ferðum, en hinu skipinu 200 daga. Það skip er líka stærra, því að sjálfsagt verður að ganga út frá því, að það verði eins og hjer er um talað og í skilyrðunum er fastbundið. Hitt tel jeg mjög óheppilegt, að tala um það hjer, að svo muni ekki verða.

Það er eins og þingið sje að vefengja það, að skipið verði svo úr garði gert, sem lofað er. En slíkt getur ekki orðið til annars en að vekja ilt blóð í þeim, sem við er samið, og gefa það fyrirfram í skyn, að aldrei hafi verið við því búist að hann fullnægði því sem til er tekið. Hann getur því heimtað allan styrkinn, þó misbrestur verði á efndunum frá hans hendi, því hann getur bent á það, að þingið hafi sjálft samþ. þessa fjárupphæð til hans, án þess nokkurn tíma að búast við því, að skipið yrði svo úr garði gert, sem áskilið er.

Í þessu máli tel jeg miklu hyggilegra, eins og áður er sagt að samþ. till. háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.). heldur en till. háttv. þm. S.-Þ. (P. J.).

Um farþegafarrými á Suðurlandi mun það láta nærri, sem sagt hefir verið, að það taki 32 farþega á 1. farrými og 150 milli þilja.

Það hugsa jeg að megi vel við una, ef ekki er um lengri ferðir að ræða en 6–10 klst. En hins vegar tel jeg, eins og jeg hefi áður sagt, ekki gott fyrir marga að eiga að dvelja þar langvistum. Til þess þyrfti að minsta kosti eitthvað að lagfæra.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að ekki væri til neins að samþ. 35,000 kr. styrkinn, því að fjelagið myndi ekki ganga að því. Það getur vel verið rjett. En þá er ekki um annað að gera en halda sjer við það „plan“, sem hjer var áður gert, og þá áætlun, sem þá var samin. Við hana voru allir búnir að sætta sig.