08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

140. mál, landhelgisvörn

Pjetur Ottesen:

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hefir nú tekið fram mest af því, sem jeg vildi segja. Jeg bjóst við, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) mundi taka öðruvísi í þetta mál en raun er á orðin. Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hlýtur að sjá það, að hjer er svo mikið í húfi fyrir landsmenn og að það verður að ráða bót á þeim háska, sem fiskimiðunum er búin, og það sem allra fyrst. Það er öllum vitanlegt, að strandgæsla sú, sem Danir hafa á hendi hjer við land, er ekki nema nafnið tómt. Eða svo hefir það verið nú síðustu árin. Að vísu hafa stundum verið duglegir menn á því strandvarnarskipi, og hefir þá strandvörn borið nokkurn árangur. En þeirra manna hefir æfinlega notið skamma stund. Jafnvel verið sagt, að dönsku stjórninni hafi þótt þeir eyða nokkuð miklum kolum. En árangurinn af starfi þessara dugandismanna er besta sönnunin fyrir því, hvað mikið eitt skip getur gert, ef sýnt er árvekni og dugnaður í starfinu. Verði ekki hafist handa nú þegar, stefnir í sama farið og var á undan stríðinu. — Nú hefir fiskur gengið til grunnmiða þessi árin eins og áður var, meðan botnvörpuveiði var óþekt. Enda hefir þotið upp á þessum árum mikill floti af smábátum, sem hafa hjálpað æðimikið. Verði ekki landhelgisvörnunum komið í betra horf en þær eru nú, þá er ekki annað sýnilegt en að þessi smærri bátafloti leggist alveg niður, og sömuleiðis er vjelbátaútveginum stór hætta búin.

Þess vegna hjelt jeg ekki, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) mundi vera alvara í því að taka eins í þetta mál og hann gerði.

Það verður því að leggja mikla áherslu á að hafist verði handa í þessu máli nú þegar, auðvitað með allri gát og gætni. Það er skýlaus krafa allrar sjómannastjettarinnar í landinu. Og þeirri kröfu verður að sinna.