25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Matthías Ólafsson:

Jeg bað um orðið af því, að nú eru ekki nema tveir úr fjárveitinganefnd auk mín viðstaddir og báðir hafa þeir horfið frá að fylgja fram þeirri till. fjárv.nefndar, að liðurinn um styrkveitinguna til Gilsnámu í Hólshreppi falli niður. Nefndin var öll óskift um þessa till., en eins og háttv. deild hefir heyrt, eru tveir nefndarmanna þegar horfnir frá henni. Þrátt fyrir það hefi jeg ekki farið eins að, og síst hefir ræða hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) orðið til að hagga minni skoðun; miklu fremur hefir hún sannfært mig um, að jeg hafi á rjettu að standa, er jeg held fast við það, að liður þessi eigi að falla niður.

Háttv. þm. (S. St.) lagði aðaláhersluna á að kolanámið hefði farið fram að tilhlutun landsstjórnarinnar og að hún hafi lánað mann til þess að leiðbeina við það, en að sá maður hefði ekki reynst heppilegur. Það hefir verið sagt, að hann hafi látið hætta að vinna í holu, sem að vísu hafi ekki verið góð en vísað á aðra sem hafi þó verið mun lakari. Þetta eiga að vera meðmæli með því, að landssjóður gefi eftir lán, sem hann veitti til námurekstrarins. Eftir þessu ætti þá landsjóður að greiða bætur fyrir, ef ráðunauta hans hendir það, að leggja á ráð, sem miður þykja reynast.

Þá hefir og verið talað um, að landssjóður hafi lagt til verkfæri til vinnunnar. Á hann þá að veita styrk fyrir það?

Það er auðvelt að sýna fram á samræmið hjer, eða öllu heldur samræmisleysið.

Í fyrra var farið fram á ofurlítinn styrk til kolanáms í Súgandafirði, og þá var synjað um það. Þótt lán hefði fengist til þessa þá mundi mjer aldrei hafa komið til hugar að biðja um uppgjöf á því, og jeg mundi ekki fara fram á slíkt, þótt kjósendur mínir færu fram á það. En til þess kom nú ekki með þetta, því að þeim var synjað um hjálpina, og urðu því að vinna verkið upp á eigin spýtur, og urðu svo að bera tapið, af því að þeir voru ekki svo hepnir að fá lán, er þeir gætu síðar komist hjá að borga með því að leita eftirgjafar á því. Jeg er mótfallinn allri eftirgjöf á landssjóðslánum nema ef vera skyldi hallærislánum, þegar svo stendur á. Og þetta verður aldrei gefið eftir með mínu samþykki, þótt það væri að vísu ekki verra en ýmsar aðrar eftirgjafir lána.

Það lítur helst út fyrir, að ætlast sje til að því fremur sje gefið eftir af landssjóðsláninu, sem landssjóður, auk þess að leggja fram fje, lánar verkfæri til vinnunnar. Þessi ágengni þykir mjer ganga úr hófi.