26.09.1919
Efri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Eggert Pálsson):

Eins og háttv. deildarmenn sjá, liggja hjer ekki fyrir neinar brtt., hvorki frá fjárveitinganefnd nje einstökum mönnum. Bendir þetta í þá átt, að frv. muni ætlað að ganga fram, eins og það liggur fyrir. Veit jeg það þó, hvað fjárveitinganefnd snertir, að það er ekki af því, að hún sje ánægð með frv.

Ef litið er á útkomurnar sjest, að háttv. Nd. hefir tekist það á þessum stutta tíma, sem hún hafði málið síðast til meðferðar, að hækka gjöldin um 173 þús. og 200 kr. að því er mjer telst til. Reyndar verður tekjuafgangurinn líka miklu hærri hjá Nd. en hjer, en það stafar ekki af sparnaði hennar, heldur af því, að hún hefir hækkað tekjuáætlunina um 500 þús. kr.

Eftir þessari útreið frv. í Nd. að dæma. mætti því búast við því, að hagurinn batnaði ekki við það, að þvæla frv. lengur og láta það hrekjast í Sþ. Gjöldin mundu sjálfsagt hækka frekar en lækka við þá meðferð. Því auk þess, sem flestir útgjaldaliðirnir, sem við hafa bæst, hafa verið samþ. með svo yfirgnæfandi meiri hluta í Nd., svo að vonlaust væri að reyna að hnekkja þeim, þá er við búið, að nýir útgjaldaliðir kynnu að bætast við í Sþ.

Þó að það hafi þess vegna lítið að segja, að jeg fari nokkrum orðum um þau atriði, sem helst eru mjer og fjárveitinganefnd þessarar deildar yfir höfuð þyrnir í augum, get jeg samt ekki látið hjá líða að benda á nokkra liði, sem virðast helst farið hafa aflaga í hv. Nd.

Fyrst skal jeg þá geta um annan lið 23. gr. Þar er sem sje farið inn á þá mjög varhugaverðu braut, að veita eftirlaun, við að eins eina umr. Jeg segi þetta ekki af því, að maðurinn, sem hjer er um að ræða, geti í sjálfu sjer ekki verið launanna verður, eins og margir aðrir. En það er aðferðin sem mjer geðjast ekki. Og þegar maðurinn er einu sinni kominn þarna, þarf ekki að gera ráð fyrir því, að farið verði að stryka hann út aftur. Það má líka í þessu sambandi minna á þá erfiðleika, sem stallbróðir hans Björn Kristjánsson, átti við að stríða til að ná sínum eftirlaunum. Jeg man ekki betur en að það hafi kostað níu umr. í þinginu. En hjer eru eftirlaun stallbróður hans veitt við að eins eina umr. og hygg jeg að mönnum dyljist ekki, að hjer er varhugavert spor stigið.

Þá eru ýmsir útgjaldaliðir, sem jeg á erfitt með að sætta mig við, svo sem hækkunin til póstmanna, sem mun vera gerð eftir beiðni sambandsstjórnar starfsmanna landsins. Skal jeg ekki fjölyrða um það nú, en vísa til þess sem jeg hefi áður um það sagt. En þó vil jeg benda á það að engin þörf virðist hafa verið á því að bæta upp laun póstafgreiðslumanna í sveitum, frekar en þegar var búið að gera. Því í sumum tilfellum var nýsamið við þá og í flestum tilfellum mun þetta vera lítið aukastarf og margir mætir menn sem eftir því keppa. Og ef þessum mönnum er bætt upp, þarf enginn að ímynda sjer, að brjefhirðingamenn sætti sig við sín kjör. Þeir koma að sjálfsögðu á eftir.

Þá tel jeg það varhugaverða þraut sem stigin er í 14. gr. II., að veita íslenskum stúdentum námsstyrk erlendis. Það er þó ekki af því að margir þeirra muni ekki hafa styrksins þörf heldur af hinu að jeg hygg, að þetta gæti leitt ilt af sjer. Jeg get sem sje búist við því að ýmsir stúdentar láti ginnast af þessari fjárvon til að sigla, eyði þar 1–2 árum til ónýtis og komi svo hingað aftur, án þess að hafa nokkurn verulegan gróða haft af utanförinni. Hitt væri nær að veita styrkinn stúdentum, sem búnir eru að stunda nám í 1–2 ár og einhver festa væri komin í, að því er nám snertir. Annars hafði jeg haldið að slíkan styrk sem þennan ætti ekki að taka upp í fjárlögin, heldur mundi háskólasjóðurinn eiga að bera hann. En ef lög háskólans skyldu vera þessu til fyrirstöðu, virðist auðsætt, að þeim verði að breyta.

Þetta eru, að mínu áliti, stórvægileg atriði í frumv. Hitt er smávægilegra, þótt fjárveitinganefnd og Nd. hafi látið sjer vera svo fast í hendi með, að augnlæknirinn sje svo miklu hærri en aðrir læknar við háskólann. Það er öllu varhugaverðara, að háttv. Nd. hefir hækkað aukalækninn á Ísafirði upp í 4000 kr. á ári, svo hann hefir 4000 kr. styrk, auk 800 kr. laun, sem aukalæknir, eða með öðrum orðum, laun hans hafa verið sexfölduð, því þar sem segja má, að hjer sje um einskonar biðlaun að ræða, þá er þessi hækkun fjarska mikil. En þrátt fyrir þessa og aðra galla frumv., þá sjer nefndin sjer ekki annað fært en að leggja til, að að því sje gengið og það samþykt óbreytt, með því að hjer má segja um, að lengi geti ilt versnað.