03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

135. mál, húsagerð ríkisins

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Það hafa verið hrakin andmæli þeirra hv. þm., sem á móti þessu frv. hafa talað. Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) var hræddur við að taka lán, en ef það verður ekki gert, þá er ekki annað fyrir en að setja þessar upphæðir í fjárlögin og auka tekjuhallann. Vitanlega verður svo að taka lán vegna hans, svo þetta kemur í sama staðinn niður, nema að tekjuhallalánið er óheppilegra.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) talaði einnig um það, að Eiðaskólinn væri illa settur, og gæti komið til mála að flytja hann. Jeg held, að sú aðferð sje fjarri öllum sparnaði, og á því bágt með að skilja, að þessi hv. þm. skuli hafa bent á þetta. Þegar skólinn var tekinn af Múlasýslunum, þá var um leið lögð sú skylda á herðar landsins að halda honum uppi og gera hann svo úr garði, sem við mætti una. Þessi viðbótarbygging við skólann, sem frv. fer fram á, er sjálfsögð og má ekki dragast. Það væri betra að verja fje til þess heldur en til hins, að flytja skólann, því hann er vel í sveit settur. Jeg vildi minnast á þetta í sambandi við sparnaðartal hv. 1. þm. Árn. (S. S.), og er það ekki altaf mestur sparnaður að fresta nauðsynjaverkum, þó þau kosti töluvert fje. Annars þarf jeg ekki að víkja fleiri orðum að þeim, sem á móti frv. hafa mælt. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) og hv. þm. Stranda (M. P.) hafa tekið af mjer ómakið.