21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

89. mál, lánsstofnun fyrir landbúnaðinn

Björn Kristjánsson:

Jeg tel það mjög eðlilegt, að fram komi óskir um það, að lánsstofnun fyrir þennan annan aðalatvinnuveg landsins verði sem haganlegast fyrir komið. En að því er ekki hlaupið á þessum tímum.

Nefndin hefir að vísu gert till. um það, með hvaða fje bankinn skyldi stofnaður. Stjórnin hefir gert ráð fyrir, að hann yrði fasteignabanki, en nefndin ætlast hins vegar til, að hann verði almennur banki.

Jeg ætla mjer ekki að tala á móti till. nefndarinnar. En jeg vildi víkja nokkrum orðum að sjálfu nál., og þá sjerstaklega þeim atriðum þess, sem fjalla um það, hvernig eigi að koma þessari lánsstofnun á fót.

Nefndin leggur það til, að ræktunarsjóði, kirkjujarðasjóði, viðlagasjóði og varasjóði veðdeildanna verði varið til þess að koma lánsstofnuninni á fót. Jeg hefi hins vegar litið svo á, að þessir sjóðir hefðu ekki handbært fje til slíkra útlána, og skal jeg gera grein fyrir þeirri skoðun minni dálítið nánar.

Síðastliðið ár hafði ræktunarsjóðurinn lánað 672 þús. kr., en 65 þús. kr. í peningum voru eftir í sjóðnum. Hann verður þess vegna ekki lagður sem stofnfje til þessarar stofnunar, því að hann er þegar lánaður. Og það er enginn gróði í að flytja eina lánsstofnun yfir í aðra, þegar ekki fæst neitt nýtt veltufje.

Eins er farið með kirkjujarðasjóðinn. 31. desember 1918 hafði hann lánað 576 þús. krónur.

Þá er viðlagasjóðurinn. Nafnið sjálft bendir á, til hvers sjóðurinn er stofnaður. Hann er stofnaður í því skyni að bera halla af gjöldum landsins og til bjargráða, ef með þarf. Og þó að hann hafi mestmegnis verið notaður til útlána, þá er það rangt, því að hann þyrfti altaf að vera handbær, ef til hans þyrfti að taka. Þessi sjóður er stofnaður af almenningi, af samanspöruðum tekjuafgangi, og hefir verið varið til lána til manna af öllum stjettum, t. d. þurrabúðarmanna, gistihúsa o. s. frv. Honum hefir ekki verið markaður neinn sjerstakur bás. Um þennan sjóð getur þess vegna ekki verið að ræða sem lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, þar sem hann stendur nú líka mestallur í lánum.

Loks er varasjóður veðdeildanna. Við þessum sjóði verður ekki hreyft fyr en búið er að innleysa öll verðbrjef veðdeildanna, sem nema nú yfir 7 milj. kr. Og þetta yrði á sama veg, þótt veðdeildin yrði flutt inn í fasteignabankann.

Þessi atriði vildi jeg benda á, til þess að sýna, að till. nefndarinnar getur ekki náð nokkurri átt. Jeg sje ekki aðra leið en að gefa út lög um það, að banki skuli stofnaður og honum heimilt að gefa út skuldabrjef, sem seld væru á opinberum markaði. En jeg skal ekki segja neitt um það, hvort þetta kæmi að haldi, eins og nú stendur.

Ef brjefin væru seld innanlands, mundi markaðurinn verða lítill, nema vextir yrðu háir, minst 5%, og svo mætti gera ráð fyrir verðfalli á brjefunum, minst 5%

Ef lána ætti til lengri tíma en veðdeildirnar nú veita, þá mundi markaður fyrir brjefin á útlendum markaði verða örðugur. Eigi mætti búast við að selja brjef stofnunarinnar erlendis fyrir lægri vexti en 5%, og verðfall á brjefunum eigi minna en 10%.

Kjörin hjá þessum banka yrðu því öllu verri en hjá núverandi veðdeild.

Og ef slíkur banki yrði stofnaður, mætti ekki selja brjefin smám saman, eins og gert hefir verið að undanförnu, heldur yrði að selja einhverja ákveðna upphæð í einu lagi. En þar sem engin fasteignartrygging væri þá fyrir þessum brjefum, yrði landssjóður að ábyrgjast þau, en hann gæti aftur fengið tryggingu í fasteignum þeim, sem bankinn hefði að veði, eða skuldabrjefum stofnunarinnar frá einstökum mönnum.

Af því að svona stóð nú á og jeg vissi hvað það var þýðingarmikið fyrir landbúnaðinn, að hann gæti fengið hentug lán, þá var það mín regla, meðan jeg var bankastjóri, að halda veðdeildarbrjefunum sem hæst að hægt var, enda komust þau aldrei niður fyrir 94%. Og jeg hygg, að landbúnaðinum hafi verið bestur greiði gerður með þessu. Við höguðum fjármagni bankans þannig, að hægt væri að veita þau lán, sem bankinn þurfti að veita. En það gátum við með því að hafa svo mikið fje handbært, að við gætum leyst út brjefin með þessu verði. Þetta breyttist þegar eftir að jeg fór frá bankanum, því að síðan hafa brjefin verið keypt á 90%, til þess að hægt væri að selja þau á útlendum markaði jafnharðan. Hver bóndi gat því fengið lán, sem hann þurfti, út á veð í jörð eða húsi, með þessum betri kjörum. Betri kjara en þeirra, sem jeg hefi getið hjer um, getur landbúnaðurinn ekki vænst. Ef bankinn hefði haldið gömlu reglunni, og það gat hann vel gert, þá gat veðdeildin haldið áfram að vera besta lánslindin fyrir landbúnaðinn, sem hann gat átt kost á. Veðdeildin hefir lánað út á jarðeignir helming sanngjarns virðingarverðs, venjulega til 40 ára, og vextirnir eru að eins 4½%.

Jeg ætla samt að vera með till. nefndarinnar, en álít hana hins vegar þýðingarlausa. Það er mín ætlun, að veðdeildin sje langhagkvæmasta lánsstofnunin, sem landbúnaðurinn geti átt kost á, ef rjett væri á haldið.