17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2286 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

161. mál, leiðbeiningar við Íslendinga, sem flytjast heim úr öðrum löndum

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg vil nú að eins geta þess, að jeg þykist hafa gert meiri verk en að bera fram þessa till., án þess að fá þakklæti fyrir. Og ætlaði jeg mjer ekki að ávinna mjer þakklæti með því, hvorki hjá hæstv. forsætisráðherra nje öðrum. Hann er nú búinn að lýsa því, hæstv. ráðherra, hvernig hann ætli að framkvæma þessa tillögu. Og getur hann vafalaust haft um hana hvaða orð sem hann vill, kallað hana þýðingarlausa og annað. Hann situr nú í því sæti að hann á hægt með að gera hana þýðingarlausa. Hæstv. ráðherra var að tala um, að jeg með þessu vildi gera yfirbót fyrir það að jeg var með búsetuskilyrðinu í stjórnarskránni. — Þá mun hæstv. ráðherra að sjálfsögðu telja sjer skylt að vera sjálfum sjer samkvæmur og styðja jafnt að innflutningi innlendra sem útlendra manna.

Mjer er þetta að vísu ekkert kappsmál. En þó hafði jeg ekki ástæðu til annars en trúa stjórninni fyrir svona lítilvægum framkvæmdum. Jeg hjelt, áður en jeg heyrði hana tala, að hún hefði einhvern þann mann í sinni þjónustu, sem þetta gæti gert. Því þessa er full þörf. Það er kunnugt, að margir Vestur-Íslendingar hafa orðið að hverfa burtu aftur, er þeir hafa ætlað að setjast hjer að, sökum þess, að þeir hafa ekki getað fengið hjer atvinnu, sem þeim geðjaðist að, og hafa enda hvergi átt höfði sínu að að halla.