11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

146. mál, varnir gegn berklaveiki

Stefán Stefánsson:

Jeg geri ekki ráð fyrir, að skiftar verði skoðanir um nauðsynina á því, að nú verði sem fyrst gerðar alvarlegar ráðstafanir til varnar berklaveikinni hjer á landi. Að því leyti tel jeg víst, að Alþingi fallist á till. þessa.

Í ástæðunum fyrir till. er drepið á það, að þessi veiki sje eitt örðugasta, en um leið mikilvægasta viðfangsefni læknanna íslensku, og að árlega hafi dáið að meðaltali 155,6 menn af hennar völdum árin 1913–1916. Jafnframt er bent á, að löggjöfinni þurfi að breyta í það horf, að styrkur, veittur til veru á heilsuhæli verði ekki talinn sveitarstyrkur.

En jeg sakna þess, að í ástæðum fyrir till. er ekki drepið neitt á annað fyrirkomulag eða frekari ráðstafanir, sem gera þurfi í málinu, ekki einu orði. Jeg gat t. d. búist við, að þar yrði bent á einhverja leið til að auka heilsuhælispláss handa sjúklingum í landinu. Það er sem sje öllum kunnugt, að heilsuhælið á Vífilsstöðum getur ekki veitt viðtöku öllum þeim sjúklingum, sem þangað þyrftu að komast, og af því stafar stórhætta fyrir heimilin, sem sjúklingarnir dvelja á. Fram úr þessum mjög svo tilfinnanlegu vandkvæðum finst mjer að fyrst þyrfti að ráða.

Þetta hvorttveggja hefir orðið til þess, að þar nyrðra hafa menn hafist handa á þeim grundvelli, að fyrsta skilyrðið sje að fá aukið rúm á heilsuhæli fyrir sjúklinga. Með þetta fyrir augum hefir verið leitað samskota um Eyjafjörð, Akureyri og nærliggjandi sýslur, eða mikinn hluta Norðurlands, til byggingar heilsuhælis í Eyjafirði. Sem bending um það, að full ástæða sje til verulegra aðgerða í þessu máli fyrir Norðlendinga, skal jeg geta þess, í sambandi við það, sem áður er tekið fram af hv. flutningsmanni um vágest þennan, að hvergi mun öllu meiri nauðsyn, hvergi meiri hætta á ferðum í þessu efni, en í Eyjafirði, að það má ætla, að ekki svo fá % af þessum 155,6 dauðsföllum árlega af völdum berklaveikinnar sjeu einmitt í Eyjafjarðarsýslu og Akureyrarbæ. Það er því vel skiljanlegt, að hjeraðsbúum þar sje þetta sjerstaklega mikið áhyggjuefni.

Þetta óviðunandi ástand hefir leitt til þess, að í Eyjafjarðarsýslu og Akureyri og nokkrum fleiri hjeruðum á Norðurlandi hafa nú safnast 30–40 þús. kr. til byggingar heilsuhælis, og í sambandi við þessa fjársöfnun vil jeg geta þess sem dæmis upp á hinn almenna áhuga þar, að á aðalfundi kaupfjelags Eyfirðinga í vetur sem leið, þar sem voru fulltrúar úr flestum hreppum sýslunnar, gaf fjelagið 10 þús. kr. til stofnunar hælisins, með það fyrir augum, að það yrði reist á sínum tíma í Eyjafirði.

Okkur þingmönnum Eyjafjarðarsýslu var falið af sýslunefnd og þingmálafundum að „beitast fyrir því af ýtrustu kröftum“, að þingið veitti fje til að koma þessari stofnun á fót. En við höfum álitið þetta mál svo lítið undirbúið, að við sáum okkur ekki fært að flytja till. um fjárveitingu í þessu skyni. En eigi að síður var okkur það ljóst, að mál þetta er afarmikilsvert og þolir enga bið. Það verður á allra næstu árum að taka þetta mál fyrir til gagngerðra framkvæmda.

Um till. í þessu sambandi verð jeg að segja það, að róttækari framkvæmdir í þessu máli verður ekki hægt að finna en þær, að stjórnin velji 3 hæfustu menn landsins til þess að gera rannsóknir, er hægt sje að byggja varnarráðstafanir á í framtíðinni. Mun jeg því styðja till. þessa, í fullu trausti þess, að þær framkvæmdir verði byrjaðar svo fljótt sem nokkur kostur er.

Jeg hefi orð læknis á Norðurlandi fyrir því, að veikin fari þar árlega í vöxt. Nú er það svo, að sjúklingar af Norðurlandi þurfa oft að bíða svo mánuðum skiftir áður en þeir komast að á Vífilsstöðum. En þessi bið getur orðið ákaflega hættuleg, ekki einungis sjúklingunum sjálfum, heldur og heimilum þeirra. Þá munu ýmsir álíta, að loftslag á Norðurlandi sje öllu hreinna og heilnæmara en á Suðurlandi. Að því leyti mundi vera fult eins hagkvæmt að byggja heilsuhæli þar eins og að auka við Vífilsstaðahælið. Enda mun það vera viðurkent, að heppilegast sje sjúklingum og vænlegast til bata, að þeir dvelji í því loftslagi, sem þeir eru vanastir. Jeg tók ekki eftir, hvort hv. flm. (M. P.) mintist á þetta, en ef þessu væri þannig varið, þá er það ein sönnun fyrir því, að rjett sje, að reist verði hæli á Norðurlandi.

Enn fremur vil jeg geta þess, að jeg get hugsað mjer, að í þessu falli sje samkepni ekki síður nauðsynleg en í ýmsu öðru. Ef hælin væru tvö, annað sunnanlands, en hitt norðanlands, myndi það auka samkepni milli læknanna um alt, sem lýtur að hjúkrun sjúklinga og öðru því, sem til heilsubótar má telja. Enda er oft svo, þó að nægilegt pláss sje til á Vífilsstöðum, að hafís liggur svo lengi fyrir Norðurlandi, að ekki er unt að koma sjúklingum suður fyr en seint og síðar meir, og eins og jeg hefi áður tekið fram, er slíkri bið margvísleg hætta samfara. En í stað þess mundu sjúklingar á Norðurlandi strax komast á hælið, væri það þar.

Það má vel vera, að þetta verði lítið eitt dýrara en að auka við Vífilsstaðahadið. En jeg hygg, að ekki megi í það horfa, ef tryggilegt á að vera til varnar útbreiðslu veikinnar.

Enda er það svo meðal Dana, og einnig í öðrum löndum, að bygð eru smá hæli hjer og þar úti um landið, og er það gert til þess að gera mönnum sem ljettast fyrir að komast sem fyrst á hælið, að hafa ekki alt á einum stað.

Jeg vildi að eins hreyfa þessum athugasemdum vegna þess, að okkur þm Eyfirðinga var falið að flytja málið. Taldi jeg mjer því skylt að lýsa ástandinu þar og sýna. hver áhugi væri fyrir þessu máli í Eyjafirði. Mætti það verða þeim til athugunar, sem vinna að framkvæmd málsins.