25.09.1919
Efri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

163. mál, rannsókn skattamála

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg býst við, að hv. deild geti verið fjárhagsnefnd sammála um tillögu þessa. Varla hefir verið minst svo á skattamálin á síðustu árum, að ekki hafi verið talað um, í hversu mikilli óreiðu þau sjeu, og lögð áhersla á, að sem fyrst þurfi að ráða bót á því og koma þeim í rjettlátara og betra horf. En það verður ekki gert á annan hátt betur en að rannsaka, hvernig þeim nú er varið, og koma fram með tillögur til endurbóta.

Árið 1907 var skipuð milliþinganefnd til að rannsaka og endurskoða skattamálin. Samdi nefnd þessi mörg frv., og eru sum þeirra orðin að lögum með nokkrum breytingum, en önnur liggja enn í ruslaskrínunni, eins og ýmislegt fleira hjer á landi, þrátt fyrir þótt svo mörg ár sjeu liðin frá því, að hún lauk störfum sínum.

Vil jeg taka það skýrt fram, að meining nefndarinnar er ekki sú, að sjerstök milliþinganefnd sje skipuð til að fjalla um málið, og álítur hún ekki að till. gefi tilefni til þess, heldur að landsstjórnin fái sjer menn til aðstoðar við rannsókn þess. eftir því sem henni þykir þörf.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um till., en vil fyrir hönd fjárhagsnefndar leggja til, að hún verði samþykt.