17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Einar Arnórsson:

Jeg stend alls ekki upp til þess að ræða við menn hjer ástæðurnar fyrir skoðun minni á eignarrjetti á vatnsorku. Jeg vildi að eins segja nokkur orð um þingsál. á þgskj. 121.

Eftir minni hyggju er það mjög tvísýnt, að 12. gr. fossalaganna frá 22. nóv. 1907 (jeg geng hjer inn á hugsanagang flm. till.), saman borin við 50. gr. stjórnarskrárinnar, heimili það, sem hjer er farið fram á í till.

Tilætlun hennar er sem sje sú, að skora á stjórnina að gera nú þegar ráðstafanir til þess, að landið nái fullum umráðum og notarjetti á allri vatnsorku í Soginu, alt frá upptökum þess og þar til það fellur í Hvítá, ásamt nauðsynlegum rjettindum á landi til hagnýtingar vatnsorkunni.

Og þetta á að gera samkvæmt 12.–14. gr. fossalaganna frá 1907.

Að því leyti sem ætlast er til, að þetta fari fram með samningum, er það auðvitað heimilt eftir lögum þessum; reyndar þarf enga lagaheimild til þess, að samningar geti farið fram. Slíkt er öllum mönnum heimilt.

En þegar farið er fram á, að tekið verði lögnámi nú þegar, ef ekki verður samningum við komið, þá get jeg ekki betur sjeð en vafasamt sje, að heimild sje til þess í 12. gr. fossalaganna. Þar segir svo: „Hver maður er skyldur til, gegn fullum skaðabótum, að láta af hendi fossa sína, ár eða læki, og jarðir þær, er að þeim liggja, eða rjettindi, sem hann hefir yfir þeim, þegar almenningsheill krefst þess til mannvirkja í þarfir landsins eða sveitarfjelaga.“ En nú er það vitaður hlutur, að sýna þarf nauðsynina á því að taka þetta og þetta áður en ákveðið er að taka það. En mjer vitanlega liggur hjer ekkert ákveðið fyrir um mannvirkjagerð við Sogið, ekki einu sinni frumdrættir til þess.

En meðan það er ekki til, þá er ekki hægt að vita, hve mikið á að taka. hvort heldur átt er við vatnsorku eða land.

En ef taka á þetta nú þegar, þá verður enginn tími til þess að „projectera“, sem kallað er, eða gera áætlun um fyrirtækið, og meðan það hefir ekki verið gert, þætti mjer gaman að sjá framan í þá stjórn, sem þykist vita, hve mikið hún á að taka.

Við framkvæmdir till. er líka ýmislegt fleira athugavert. Segjum að stjórnin teldi 12. gr. fossalaganna örugga í þessu efni, og dómstólarnir yrðu á sömu skoðun. En dómstólamál geta hæglega risið út af þessu. Ekki þarf annað en að þeir, sem taka á af, mótmæli því, að lagaheimild sje fyrir lögnáminu, og skjóti því til dómstólanna. En gerum nú ráð fyrir, að stjórnin álíti þetta trygt, og vinni málið, ef það kemur fyrir dómstólana. Þá rekur að því að framkvæma till. Og gerum einnig ráð fyrir, að stjórnin áræði að taka það, sem hún veit ekkert hvort nauðsyn er á.

Þá kemur fyrst að því, að ná samningum við þá, sem frá á að taka, og þar verður auðvitað aðalatriðið endurgjaldið.

Mundi nú stjórnin geta bundið sig við samningana? Sá, sem frá er tekið, segist vilja hafa þetta og þetta fyrir gæðin Ef til vill er það svo mikið, að stjórnin verður í vafa um, hvort hún á að ganga að tilboðinu eða ekki. Þá verður hún að leita til þingsins um það. En nú þykir tilboðið óaðgengilegt. Líka gat það verið, að ekkert tilboð hefði komið, heldur að eins krafa um að metin væru gæðin, sem taka á. Þá verður stjórnin að beygja sig undir matið. Nú er fjárhæðin, sem metið er til. ef til vill talsvert há. En eftir lögnámslögunum frá 1914 er stjórnin skyld til þá þegar að greiða þá fjárhæð.

En hefir þá þingið gert nokkuð til þess, að stjórnin hafi það fje, sem með þarf? Mjer vitanlega hefir henni ekki verið gefin nein lánsheimild til þess. En jeg býst við, að vissara sje að veita hana, ef till. verður samþ., því mjer þykir ólíklegt, að kostnaðurinn verði svo lítill, að stjórnin hafi handbært fje til að greiða hann.

Auðvitað er ómögulegt að segja, hve mikið fje verður metið til endurgjalds þessara hluta, en ekki er jeg það barn að ætla, að það verði álíka mikið og það sem sannanlegt er að vatnsrjettindi þessi eru seld fyrir nú. Sá, sem tekið er frá, gerir sjer auðvitað far um að sanna matsmönnum það, að hann geti fengið meira fyrir þau en hann hefir látið.

Og það mun ekki reynast erfitt að leiða líkur að því.

Collega h.f. Íslands, fossafjelagið Titan hefir, eins og kunnugt er, aflað sjer allmikilla vatnsrjettinda í Þjórsá. Það er hlutafjelag og hefir selt hluti ýmsum mönnum, og þar með metið til peninga hverja hestorku í orkuvötnum þeim, sem það hefir til umráða. Hlutafje þess er nú talið, og það með vissu, 12 miljónir kr. Jeg hygg því, að enginn vafi sje á því, að hver hestorka í Þjórsá sje komin langt upp fyrir það verð, sem talið var þegar fjelagið var að öðlast rjettindin.

En síst er hægt að gera ráð fyrir því, að hver hestorka í Soginu sje verðminni en t. d. í Urriðafossi eða annarsstaðar í Þjórsá.

Eftir áliti sjerfróðra manna er það kostnaðarminna að virkja Sogið en Þjórsá, og er það hagur og eykur verðmæti hverrar hestorku.

Ágóðinn af hverri hestorku verður því meiri, því minna sem til hennar er kostað. Þar af leiðir, að verðmæti hestorku í því vatni, sem hægt er að virkja, er meira en í hinu, sem erfitt er að virkja.

Þá er eitt enn athugavert við till. þessa. Það er spurningin um, hvort tímabært sje að samþ. hana nú.

Eftir atkvgr. í gær virðist hv. deild hallast að þeirri skoðun, að orkunytjarjetturinn sje eign þess manns, sem land á undir og að vatninu.

Af því leiðir, að landið verður að greiða fje fyrir þennan rjett.

Nú er hjer á ferðinni frv. til sjerleyfis fyrir orkuvinslu fallvatna. Þegar þau lög koma fram, getur verið, að þau hafi mikil áhrif á það, hve dýr hver hestorka verður. Ef lögin verða þröng, leiðir þar af að hestorkan verður verðminni. Verðmætið minkar eftir því, sem minni líkur verða til þess, að vötnin verði virkjuð.

Meira að segja, ef lögin verða svo þröng, að vötnin verði látin óvirkjuð, getur verðið komist niður í ekki neitt.

En af því leiðir, að það væri ef til vill varlegra að bíða með þetta og sjá, hvort ekki verða samþykt heppileg ákvæði um sjerleyfi; með „heppileg“ á jeg hjer við ströng ákvæði, sem báðir hlutar fossanefndarinnar og bæði meiri og minni hl. vatnamálanefndanna hjer á þingi virðast hallast að.

Sú varúð mundi leiða það af sjer, að megnið af vötnunum mundi enn liggja lengi ónotað.

Þá er enn eitt, sem mjer er ekki ljóst enn þá, en vildi fá skýr svör við.

Það hefir ekki komið skýrt fram frá hæstv. stjórn, hvort hún, ef hún verður nú áfram við völd, sjer sjer fært að fylgja þessari þingsál. eftir orðum og efni hennar. En í slíku máli sem þessu þarf deildin að fá um það skýr svör. Það væri til lítils að samþ. slíka þingsál., ef stjórnin telur það frágangssök að framfylgja henni. Þetta vildi jeg gjarnan fá að vita.

Ef nú hæstv. stjórn er á sömu skoðun og jeg um 12. gr. fossalaganna, sem er forsenda fyrir till., þá skilst mjer, að hún geti ekki talið sjer unt að framfylgja till., eins og farið er fram á; hins vegar má það vel vera, að hún sjái sjer fært að framfylgja till. í öllum greinum, ef hún er þar á annari skoðun.