17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (2683)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Pjetur Jónsson:

Það lítur út fyrir, að margir ætli að veitast að hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Jeg hefi líka ástæðu til að svara honum dálítið. Það er út af því, hvað honum gengur illa að átta sig á því, sem jeg sagði. Hv. þm. (J. B.) hefir ekki skilið mig rjett, eða ekki farið rjett með.

Jeg hjelt því fram, að ef ríkið á annað borð ætlar sjer að virkja Sogsfossana, þá sje nauðsynlegt, að það verði gert sem fyrst. Til þess taldi jeg ástæður frá báðum hliðum, og tók fram aðallega tvær ástæður, fyrst, að þörfin fyrir rafmagn er svo brýn hjer, og í öðru lagi, að þetta þyrfti að verða á undan öðrum stórfyrirtækjum af sama lægi. Jeg tók það líka fram til að sýna fram á, að þetta eignarnám er alveg óþarft, þar til stjórnin hefir fengið skipun um eða heimild þingsins til að undirbúa og vinna að þessu fyrirtæki. Mínar röksemdir gengu í þá átt að sýna fram á, að hættulaust væri að bíða, því aflið liggur þarna geymt í fossunum, og að ríkið hefir sinn hindrunarrjett ef á þyrfti að halda, svo að það verður ekki notað af öðrum. Hitt hefir og verið tekið skýrt fram af hv. 2. þm. Árn. (E. A.), hve örðugt sje að taka eignarnámi jafnóákveðinn hlut og þetta, sem till. tiltekur. Mjer skilst, að erfitt muni að sýnu og sanna, að það sje gert til almenningsheilla að taka alt það eignarnámi, sem till. fer fram á. Jeg álít, að eignarnámið verði því altjend að bíða, þangað til stjórnin hefir gert sjer grein fyrir, hvernig þetta fyrirtæki á að vera og skuli framkvæmast.