23.09.1919
Neðri deild: 71. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Pjetur Jónsson:

Jeg hefi hugsað mjer að láta ekki þessa till. hverfa svo úr deildinni, að jeg minnist ekki á hana og fossamálið yfirleitt. Jeg hefi hvort eð er ekki lengt mikið umr. á þessu þingi.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) var við fyrri umræðuna að tala um þá þm., sem fossafjelögin hefðu tangarhald á. Hann fór að vísu fremur meinleysislegum orðum um þetta. En hv. þm. Dala. (B. J.) hefir aftur kveðið fastara að, því hann hefir bæði talað um þm. og utanþingsmenn, sem ánetjaðir væru fossafjelögunum, og hefir hann farið þeim orðum um þessa menn, eins og þeir væru einhver versta tegund föðurlandssvikara og landráðamanna. Mjer hefir fundist þetta undarleg aðferð að kasta slíkum ásökunum út eins og í bláinn. Hitt hefði verið sök sjer, að beina þessu beint að mjer, því jeg veit ekki til, að aðrir hv. þm. sjeu riðnir við nein fossafjelög á neinn hátt. Það má kann ske segja, að það fjelag, sem jeg er stjórnandi í, hafi einskonar taugarhald á mjer, og þá er þar að mjer að ganga. En sje verið að víkja þessu að öðrum líka, af einhverskonar hlífð við mig, svo jeg sje ekki eins úr merktur, þá er það óþarfi og mjer engin þægð í slíku. Jeg kveinka mjer ekki, þótt jeg sje borinn slíkum brigslum, því jeg mun halda uppi sóma mínum fyrir þeim. En svo má og vera, að þetta sje gert í enn lakari tilgangi, eða í þeim tilgangi, að koma inn hjá einföldum mönnum skaðlegum hleypidómum. Útlendir menn, útlend auðfjelög og innlendir leppar, það eru slagorðin, það eru meðulin, sem notuð eru til þess að smeygja þessum hleypidómum inn í fólkið; býst jeg við, að þau meðul hafi nokkur áhrif. En allir sjá, hversu bardagaaðferðin er lúaleg, því þessir hleypidómar munu, eins og allir aðrir hleypidómar, gera það eitt, að villa mönnum sýn á því, sem rjett er. Jeg skal játa það, að fossafjelög og önnur samskonar fjelög geta verið misindisstofnanir, að jeg ekki tali um fossaprangara. En það geta líka verið heiðarleg fjelög, og það er nauðsynlegt fyrir okkur að líta á þetta hleypidómalaust, til þess að geta notfært sjer þau fjelög, sem að gagni geta orðið og heiðarleg eru. Hjá öðrum smærri þjóðum hefir oftast til að byrja með verið notað erlent fje og þekking til þess að koma í framkvæmd stærstu þarfafyrirtækjum og eigi verið hneykslast á því. En nú eru það þeir, sem hæst gala sem reyna að fæla menn frá slíku með allskonar forynjum í þessu efni. Í þessu er skamt öfganna á milli. Það er ekki langt síðan þeir, sem höfðu hæst, básúnuðu auðsuppsprettur landsins og töldu ekki annað vanta en nóg fje og fólk frá útlöndum til þess að notfæra þær. Báðar þessar öfgar eru álíka heimskulegar og skaðlegar.

Nú vil jeg víkja að því máli, sem þessi till. gefur tilefni til. Mín skoðun er sú, að ekki sje rjett að vinna á móti því, að einhverjir hinna stærri fossa verði teknir til virkjunar. En hitt er líka rjett, að mínu áliti, að ekki mun heppilegt að hleypa af stað mörgum slíkum fyrirtækjum í náinni framtíð. Jeg álít ekki heldur, að þetta fossafl sje svo mikil fjeþúfa, að hingað sæki fólk frá útlöndum í stórhópum, þegar litið er á afstöðu landsins og landsháttu. Hitt sýnist mjer líklegra, að örðugt verði að fá nægilegt fólk til stóriðju hjer, hvort heldur er útlent eða innlent.

En hverjir eiga að virkja fossana? Þar er ágreiningurinn um, hvort það eiga að vera fjelög og einstakir menn eða ríkið, hinn eiginlegi ágreiningur. Næsta spurningin verður því: Hver á að virkja Sogið? Mörgum virðist það sjálfsagt, að ríkið geri það, og byrji svo fljótt, sem verða má. Jeg vjek að því við fyrri umr. þessa máls, að jeg væri ekki ósammála þeim, sem vilja láta ríkið virkja, ef það væri fært um það og gæti gert það fljótt. En ef málið er betur athugað, þá verður niðurstaðan sú, að ríkið er ekki undir virkjun búið af eigin ramleik eingöngu á næstu árum eða jafnvel áratugum. Jeg hefi drepið á það áður að virkjun Sogsins mundi kosta 20–40 miljónir. Þessu hefir verið mótmælt af hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), en jeg held, að áætlun hans sje ekki rjett.

Nokkrum árum fyrir stríðið kostaði í allri Evrópu til jafnaðar yfir 400 kr. að virkja hestaflið. Það er enginn vafi á því, að nú mun það þrefalt dýrara Vinnukraftur er þrefalt dýrari, og er ekki útlit fyrir, að hann lækki í bráð. Flutningur allur, járnbrautarlagning og rekstur er sennilega einnig þrefalt dýrari, og mun flest annað fara eftir því. Hjer er einungis miðað við meðalverð í Evrópu þá, en sennilegt er, að hjer verði kostnaður meiri, frekar en minni. En tökum nú bara 400 kr. á hestafl. Ef virkja á 60 þús. hestöfl, þá kostar það 24 miljónir. Þá er leiðsla til hafnar og nágrennis, til þess að koma orkunni í gagn, og nemur það aldrei minnu en 6–10 miljónum. Svo er einnig iðjuver, til þess að öll orkan verði notuð, og jafnframt þarf að fá járnbraut.

Af þessu ætti það að vera ljóst, að hjer er ekki um litlar upphæðir að ræða, sem taka þarf að láni. Og hvaða veð hefir landið að bjóða gegn láni til slíks, auk annara lána, sem óhjákvæmilegt er að fá? Jeg sje ekki betur en að landið verði að binda sig með húð og hári, ef það á að setja veð fyrir 30–40 miljónum, eða jafnvel miklu meira.

Í „principinu“ hallast jeg að ríkisvirkjun, eins og áður er drepið á. En jeg get ekki verið með henni fyr en ríkið er fært um að leggja út í hana, hefir kringumstæður til þess. En nú er það ekki fært um það, hefir ekki fjeð, ekki vinnukraftinn og ekki sjerþekkinguna, sem með þarf. Þetta verður að fá að miklu leyti frá öðrum. Jeg verð því að telja ríkisvirkjun á þessu stigi málsins hreinustu „Svindel“-hugsun.

Jeg mintist á við fyrri umr., að virkjun í stærri stíl væri hugsanleg með samvinnu milli ríkisins og einhvers fossafjelags með útlendu fje. Jeg ætla ekki frekar að rekja þá hugsun. En hún er engin goðgá, engin föðurlandssvik, ekkert „Svindel“.

Mig furðar á því, að sú galgopahugsun, sem er undirstaða þessarar þingsályktunartillögu, skuli hafa fengið jafnmörg atkv. hjer og raun er á orðin, en nú vona jeg, að menn sjái sig um hönd.