23.09.1919
Efri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (2753)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Kristinn Daníelsson:

Jeg skal játa, að till. þessi er minna verð en sum önnur atriði fossamálsins, sem þingið lætur liggja milli hluta að þessu sinni, og skiftir litlu um forlög hennar, ef illa tekst um aðalatriðin. Í þessu efni fer álit flestra saman í aðalatriðum. Í fossanefndunum var enginn ágreiningur um till., þó ágreiningur væri um flest annað. Þetta er líka svo sjálfsagt mál, að stjórnin ætti jafnvel enga áskorun að þurfa til að framkvæma það.

Því hefir verið haldið fram, að ekki sje víst, að landið eigi allar afrjettir. Jeg skil orðið „afrjett” í till. svo, að það merki upprekstrarland, sem enginn einstakur maður eða sveit hefir eignarheimild á, aðra en til upprekstrar.

Þó jeg sje ekki fróður um þessi efni, þá hygg jeg, að ríkið eigi það land, sem enginn annar getur eignað sjer. Jeg held, að orðið „afrjett“ sje ekki rjett notað um upprekstrarland einstakra manna. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja till. eins og hún er orðuð. Það væru heppilegustu lok þessa máls.