03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg heyrði ekki neitt nýtt í ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Það var rjett eins og sál sagnfræðingsins væri komin í háttv þm. Það var eins og hann hefði lært utan að greinar hans um þetta mál. (E. A.: Greinarnar voru miklu rækilegri).

Sje það rjett, að þetta sje hjegómastaða, sem ekkert gagn er að, þá er sjálfsagt að samþykkja brtt. En jeg vil skjóta einni spurningu til þingmannsins: Af hverju heldur hann, að aðrar þjóðir hafi slíka sendimenn í öðrum löndum? Heldur hann, að þeir mundu gera það, ef það væri ekkert nema tildur? Heldur hann, að Þjóðverjar sjeu svo glæsilega stæðir efnalega, að þeir væru þá að kosta kapps um að senda slíka umboðsmenn til annara landa nú, að stríðinu loknu, ef það væri ekkert nema tildur? Veit ekki þingmaðurinn, að þetta eru einhverjar allra mikilvægustu stöður, sem ein þjóð hefir?

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði, að við hefðum falið Dönum að fara með þessi mál, utanríkismálin. Það er alveg rjett. En þá verð jeg að skilja háttv. þm. (S. S ) svo, að hann sje eins og bergmál af þeim röddum, er vilja sannfæra þessa þjóð um það, að vjer eigum ekki að hugsa nokkurn skapaðan hlut um slík mál sem þessi þann tíma, sem Danir, samkvæmt samningi, fara með þau fyrir oss. Vjer eigum því alveg að loka augunum, af því að vjer höfum góða ráðsmenn, þar sem Danir eru. Jeg veit, að það er annarsstaðar svo, að menn telja rjett að líta eftir umboðsmönnunum, þar sem þeir eru settir og athuga, hvernig með málin er farið.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði, að það gerðu þeir Jón Krabbe og Jón Sveinbjörnsson. Það er mjög leiðinlegt, að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) blandar inn í þetta mál einstökum mönnum. Það er enginn, sem segir, að Jón Krabbe geti ekki fengið stöðuna. En hitt er annað mál, að í þeirri stöðu, sem hann er nú, getur hann gert þjóðinni stórmikið gagn.

Jeg finn ekki, að fje til slíks sendiherra sje kastað út í óþarfa. Svona maður gæti gert Íslandi margfalt meira gagn en laununum nemur, með því að hafa gætur á öllu, sem lýtur að verslun og viðskiftum við útlönd, og láta vita um það á rjettum tíma.

Það er leiðinlegt, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) er nú önnum kafinn, en þess vegna hefi jeg tekið að mjer að verja þennan lið fjárlaganna.

En þótt háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) haldi, að hann fái betra hljóð í Flóanum, ef hann hefir frá þessari tillögu að segja, þá er þó ekki víst, að svo verði. En nú skulum vjer fyrst sjá, hvern úrskurð þessi háttv. deild leggur á hana.