01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

106. mál, sóttvarnaráð

Magnús Pjetursson:

Jeg ætla að eins aftur að mótmæla þeirri staðhæfingu háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að landlæknir hefði verið móti sóttvörnum innanlands. Jeg skal nú ekki rengja það, sem hann sagði um þeirra viðskifti. En jeg hefi skjallegar sannanir fyrir því, að hann beitti sjer ekki á móti vörnum innanlands. Jeg sendi honum símskeyti í nóv., þar sem jeg spurði um, hvort mjer væri ekki heimilt, samkvæmt sóttvarnarlögunum, að verjast veikinni. Og jeg fjekk það svar, að það mætti jeg reyna. Enn fremur kom það fram í viðtali við hann, bæði við mig og aðra stjettarbræður mína, að hann amaðist hreint ekki við, að þetta væri gert, þvert á móti. Þetta er því ekki rjett hjá háttv. þm. (G. Sv.). — Jeg skal svo ekki tefja tímann með fleiri orðum, enda býst jeg við, að háttv. deild leiðist að hlusta á heilsufræðislega fyrirlestra hjá fleiri læknum en háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.).