08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2939)

73. mál, bifreiðar

Pjetur Ottesen:

Það var eins og hv. þm. S.-Þ. (P. J.) líti svo á, að engum gæti stafað hætta af bifreiðum, öðrum en þeim sem í þeim sætu, en eins og jeg hefi bent á, stafar engu síður hætta af þeim fyrir þá, sem á vegi þeirra verða. Það er mildi, að ekki skuli þó verða meiri slys af bifreiðum hjer í bænum en raun er á, því það er hörmung að sjá, hversu gálauslega sumir aka hjer innan bæjar. Það er því miklu fremur ástæða til að herða þær kröfur, sem bifreiðastjórar eiga að uppfylla, en slá af þeim, og sje jeg ekki, að það út af fyrir sig, að vera t. d. sonur þess manns, sem þess er um kominn að geta haft bifreið til eigin nota, sje svo þungt á metunum, að sá maður eigi að hafa forrjettindi fram yfir aðra, hvað þetta snertir.