23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2964)

83. mál, hvíldartími háseta

Bjarni Jónsson:

Jeg mun að eins segja örfá orð að þessu sinni, því það á ekki við að halda stórar ræður um smámál. Jeg tel það vel til fallið, að til sje í hverju landi nákvæm og sanngjörn löggjöf, sem skipi málum milli vinnuveitenda og verkamanna. Það tel jeg stórmál, að skipað sje fyrir með lögum um samband allra flokka vinnuveitenda og verkamanna, um skyldur þeirra og rjettindi sín á milli. En þetta kalla jeg smámál, að grípa að eins niður á smábletti, og ætla sjer að skipa málum milli eins fámenns flokks vinnuveitenda og verkamanna. Það verður ekki annað en fálm út í loftið, að taka smáþátt út úr því, sem ætti að vera heill og óslitinn löggjafarbálkur. Mjer er það óskiljanlegt, hvers vegna á að fara að skipa fyrir um hvíldartíma þeirra sjómanna einna, sem fiski stunda á botnvörpungum, en ekkert hugsað fyrir hvíldartíma annara sjómanna, þótt víst sje, að þeir hafi einatt engu minni vökur og erfiði en hinir. Jeg fæ ekki skilið, hví hv. flm. frv. (J. B.) hefir eigi athugað þetta og reynt að koma hóti meira samræmi í þennan bálk atvinnulöggjafarinnar, með því að láta eitt ganga yfir alla sjómennina. Það hefði þó skapað hóti meira samræmi, þótt mikið vantaði á, að fullkomið væri.

Jeg sje eigi betur en að hjer sje eigi hættulaus stefna á ferðum. Úti um allan heim er nú verið að berjast fyrir 8 tíma vinnutíma, en hjer á nú að fara að setja lög um 8 stunda hvíldartíma á sólarhring hverjum. Þetta tel jeg ekki háskalaust; þó mundu lög þessi ekki verða háskaleg vinnuveitendum, heldur þeim, sem ætlast er til að þau verndi, sjómönnunum sjálfum; með þeim er gefið undir fótinn með að hafa daglegan vinnutíma óhæfilega langan, jafnvel 16 stundir í sólarhring. Þótt frv. þetta verði að lögum, þá hygg jeg, að jafnaðarlega muni hásetar svo samhentir skipstjórum sínum, og að samkomulag muni komast á milli þeirra um, að hásetar taki sjer ekki 8 stunda hvíld í sólarhring, þegar miklar annir kalla að, og því muni það engin skemd fyrir útgerðir, þótt 8 stunda hvíldartími sje lögákveðinn, og þá eigi heldur hætta fyrir háseta, þar sem samkomulag er gott, þótt skipstjóri megi heimta af þeim 16 stunda vinnu í sólarhring, þegar honum þóknast.

Jeg stóð annars upp til þess að taka það skýrt fram, að jeg greiði atkv. með frv. þannig, að jeg ætlast ekki til, að lögin verði þannig skilin, að með þeim sje fastákveðinn 16 stunda vinnutími, heldur sje tilgangur þeirra sá, að þeir geti beitt ákvæðinu um 8 stunda hvíldartíma sem varnarvopni gegn harðdrægum skipstjórum, ef þörf krefur. Og þótt jeg sje í nokkrum vafa um, hvort ákvæði frv. muni, þegar öllu er á botninn hvolft, reynast hagkvæm fyrir hásetana, þá hafa þeir nú æskt eftir þeim, og verða sjálfir að bera ábyrgð á þeim og taka afleiðingunum af þeim.